Það hrundi allt fyrir augunum á okkur. Allt sem við trúðum á. Allt sem við treystum á. Eitt af höfuðstoltum okkar Íslendinga. Óslökkvandi stjarna á himnum. Útrásin sem okkur öllum var að skapi. Eða flestum. Við vildum öll japla á gulli í Mílanó, væna og dæna með 50 Cent á Jamaíka og bjóða Elton John í afmælið okkar. Þetta var nefnilega hrikalega töff. Við vildum öll vera memm. Þangað til það hrundi allt fyrir augunum á okkur.
Líkt og öllum er kunnugt var rannsóknarskýrsla Alþingis gerð opinber í vikunni og hefur verið athyglisvert að skyggnast inn í hugarheim þeirra stjórnmála- og bankamanna sem helst komu við sögu í aðdraganda hrunsins. Hvar voru menn staddir þegar þeir fengu tíðindin? Hvað fór manna á milli? Hvað voru þeir að hugsa? Hver var eiginlega höfuðpaurinn?
Nú liggur ljóst fyrir að Össur var að pumpa í World Class, flottur á því, sunnudaginn þegar Glitnir var að fara til fjandans. Síminn var rauðglóandi á meðan Össur stóð með beran bossann í búningsklefanum og setti stefnuna á gufuna enda á leið til klæðskera og þurfti að halda sér sérstaklega til. Það er þó eitt sem hefur valdið töluverðu hugarangri og andlegri veðurteppu. Eitt sem þarfnast eiginlega rannsóknarskýrslu út af fyrir sig. Það bara verður einhver að spurja. Ætlaði Össur berrassaður í gufuna?
Þessar aðstæður Össurar kalla á fjölmargar spurningar og gera ummæli Ingibjargar Sólrúnar umhugsunarverð. Átti Össur við vandamál að stríða? Hafði þetta komið fyrir áður? Vissi Ingibjörg Sólrún af því? Var hún að reyna að fyrirbyggja vandræði? Maður kemst ekki hjá því að velta þessu fyrir sér. Maður verður bara að spurja. Þegar Ingibjörg Sólrún sendi Össur til funda vegna Glitnismála – hugðist Össur mæta berrassaður? Við svona aðstæður verður maður að taka undir með Ingibjörgu Sólrúnu. Össur. Í Guðs bænum. ,,Keep it under wraps”.
Það er þó ekki annað hægt en að fyrirgefa strípalingnum Össuri þennan nektardans þegar framferði og kæruleysi bankamanna í aðdraganda hrunsins er skoðað. Í ljós hefur komið að munnstórir og miklir menn hafi af mikilli áfergju troðið í sig snúðum. Stórum snúðum. Þeir hreinlega tróðu þeim upp í andlitið á sér. Enn eitt dæmið um græðgi og siðleysi bankamanna. Í þessu samhengi vekur helst athygli hvernig Sigurjón Árnason tróð hálfum snúð í andlitið á sér og sagðist um leið ekki hafa trú á þessu. Hvað var hann að hugsa? Kann hann enga mannasiði? Var hann í alvörunni að tala með fullan munninn? Og hvernig fór hann að því? Ég meina, þetta var hálfur snúður. Stór snúður.
Maður veltir því fyrir sér hvort bankamenn hafi upp til hópa verið illa upp aldir. Hvort þeir hafi hreinlega farið varhluta af móðurlegri ást og ögun. Það hreinlega varð einhver að koma og redda Sigurjóni úr þessum vandræðalegu aðstæðum – og hver betur til þess fallinn en spjátrungurinn með gullúrið sem umsvifalaust kippti Sigurjóni burt. Hvílíkt heljarmenni. En hvað með alla hina? Kunnu þeir enga mannasiði? Kenndu mæður þeirra þeim ekkert? Ól þá enginn upp? Ansans! Þarf ég þá að gera það?
Þegar upp er staðið og litið yfir farinn veg kemst maður ekki hjá því að spyrja hvernig í ósköpunum við hefðum geta fyrirbyggt þetta mikla hrun? Þessa árás á íslenskt stolt og stanslaust partý. Hefði verið nóg fyrir Björgólf að selja úrið sitt? Hvað ef Davíð hefði fengið sæti í stjórn Blómavals? Hefði Sigurjón þurft að kunna mannasiði? Hvað ef Össur hefði verið í fötum? Höfuðið á manni hringsnýst, örvænting grípur um sig, eldgos spretta upp og loks vaknar spurning mikilvægari öllum öðrum:
Hvenær ætlar Guð eiginlega að blessa Ísland?
- Hjólaborgin - 16. júní 2021
- Brúarsmíði í borginni - 18. maí 2021
- Eftir hverju erum við að bíða? - 14. apríl 2021