Ein meginniðurstaða rannsóknarskýrslunnar var að hrunið sé að mestu íslensk framleiðsla. Þrátt fyrir það halda margir en í þá sýn að orsakir hérlendra vandamála megi rekja til vondra útlenskra hugmynda.
Hvorki fall Lehman-bankans, reglur ESB, né aðgerðir erlendra stjórnvalda virðast að mati rannsóknarnefndarinnar hafa spilað stórt hlutverk í endalokum íslensku bankanna. Það breytir því ekki að sumir munu halda því til streitu að svo hafi verið. Jafnvel þótt Jesús Kristur mundi stíga til jarðar á Austurvelli og segja „Því miður, krakkar. Ykkar klúður.“ „En hvað veit hann? Útlendingurinn?“ yrðu líklegast viðbrögðin.
Ef gallaðar EES-reglur komu í veg fyrir að við gætum hamið vöxt bankanna og orsökuðu hrunið þá er þeirri spurningu vitanlega ósvarað hvers vegna bankakerfi annarra ríkja á hinu sama efnahagssvæði sukku ekki til botns líkt og það íslenska. Eins og það getur verið mikil huggun að kenna öðrum um eigin ófarir þá er sannleikurinn einfaldlega sá er líka sá að engin reyndi að hemja vöxt bankanna hér á landi, ekki vegna þess að enginn gat það, heldur vegna þess að enginn vildi það.
Af sömu sort er sú túlkun sem Steingrímur J. virðist hafa lagt í skýrsluna, líklegast töluvert áður en hún kom út og hann gat lesið hana. Í ræðu sinni á þinginu sagði han að hrunið orsakaðist af „innfluttri, mannfjandsamlegri hugmyndafræði“. Þannig að frjálsi markaðurinn og einkavæðingin komu okkur á hliðina. Eflaust notalegt að geta iljað sér í hlýju eigin heimsmyndar með slíku tali, en aftur, hvers vegna virðast aðrar þjóðir ekki fara jafnilla út þessari sömu markaðshyggju?
Sú skýring að ófarir okkar eigi rætur sínar að rekja til einhvers annars en okkar eigin verka hefur þá kosti að vera hughreystandi og þægileg. Helstu ókostir hennar virðast þeir að hún er röng. Spurning hvort það dugi til að hún hverfi úr vopnabúri þeirra sem telja að flest sem er innflutt, hvort sem er kjöt eða hugmyndafræði sé þjóðinn vont. Varla.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021