Nýlega birtist myndband frá samtökunum Wikileaks sem sýnir viðurstyggilega framgöngu bandarískra hermanna í Írak. Myndbandið er því miður ekki einsdæmi þegar kemur að óskiljanlegum grimmdarverkum bandarískra hermanna í landinu en ber þar helst að nefna Abu Ghraib fangelsið alræmda, en þaðan birtust myndir af hermönnum að niðurlægja og pynta íraska fanga.
Þessi dæmi bætast við þau miklu vandræði sem almennur stríðsrekstur í Írak virðist kominn í. Fyrir liggur að þær upplýsingar sem bandaríska og breska leyniþjónustan byggðu á, um meint gereyðingarvopn Saddams Hussein stóðust ekki . Sama er að segja um áætlun um hvað gera skyldi að innrás lokinni. Í kjölfarið hefur pólitískur stuðningur beggja vegna Atlantshafsins, fyrir áframhaldandi veru í Írak, farið hratt dvínandi.
Miklar breytingar urðu í alþjóðakerfinu eftir fall Sovétríkjanna árið 1991 og lýðræðisleg markaðshagkerfi (e. Liberal democracies) stóðu uppi sem sigurvegari gegn öðrum ríkjaskipunum. Því til viðbótar tókst að stöðva fjöldamorð Slobodan Milosevic í Kosovo og koma á stöðugleika á svæðinu,en það var fyrsta íhlutun NATO af mannúðarástæðum. Sú aðgerð og þróun alþjóðamála vakti upp von um að nú gætu harðstjórar ekki lengur myrt stóran hluta þjóðar sinnar eða annarra, áhyggjulausir gagnvart viðbrögðum umheimsins.
Sú aðgerð, ásamt aðgerðarleysinu í Rúanda 1994 þegar 800.000 manns voru drepnir, jók mjög fjölda þeirra sem töldu að Vesturveldin ættu ekki lengur að sitja á hliðarlínunni og horfa upp á vígasveitir harðstjóra valsa um óáreittar. Það mikla pólitíska svigrúm sem gafst með brotthvarfi Sovétríkjanna ætti að nýta til að hjálpa þeim sem ekki gátu hjálpað sér sjálfir.
Áður en Bandaríkin réðust inn í Írak 2003, reyndu þeir að nýta það mikla pólitíska kapital sem var til staðar fyrir því stöðva fjöldamorð harðstjóra á borgurum sínum. Til blands við gereyðingavopnaeign landsins átti innrásin í Írak að vera til þess að steypa harðstjóra af stóli og koma á stöðugu samfélagi og lýðræði.
Eftirmálann þekkja flestir. Innrásin gekk vel, en engin gereyðingarvopn hafa enn fundist og finnast örugglega ekki. Ein helsta ástæða innrásarinnar var byggð á lélegum upplýsingum og uppbyggingin hefur lítið gengið og óstöðugleikinn er enn mikill. Pólitísk innistæða heimafyrir minnkar jafnt og þétt, meðal annars vegna óheyrirlegs kostnaðar og mannfalls. Í staðinn fyrir stöðugleika og lýðræði, ríkir blóðbað sem sér ekki fyrir endann á. Ofan á þetta ástand bætast svo fréttir af glæpum einstakra hermanna líkt og sjást á myndbandi Wikileaks og frá Abu Ghraib fangelsinu.
Þó að stríð eigi ávallt að vera síðasti kostur, geta Vesturveldin sem byggja á lýðræði og mannréttindum ekki leyft sér þann munað að standa hjá og horfa upp á morðóða harðstjóra slátra stórum hluta þjóða sinna án nokkurra aðgerða, líkt og gerðist í Rúanda og Saddam Hussein hafði gert í Írak. Það er ekki vottur um mikla mannréttindaást að halda því fram, að slíkar íhlutanir eigi aðeins rétt á sér ef helstu mannréttindaböðlarnir, Kína og Rússland, gefa leyfi fyrir því í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.
Afleiðingar stríðsins í Írak virðast því miður ætla að verða alvarlegar, hvernig sem á það er litið. Ekki aðeins fyrir þá sem hafa lifað og dáið með þessu stríði, heldur einnig fyrir þá hugsjón að við eigum ekki að standa aðgerðalaus á hliðarlínunni á meðan þjóðarmorð eða álíka glæpir eiga sér stað. Íraksstríðið hefur valdið því að mikil tortryggni mun ríkja á næstunni gagnvart hernaði Bandaríkjanna. Erfitt verður fyrir Bandaríkjastjórn að afla stuðnings um íhlutun af mannúðarástæðum ef til þess kemur á næstunni. Myndbandið frá Wikileaks og Abu Ghraib hneykslið grafa undan trúverðugleika hersins og gengisfella það góða sem herinn á að vera að gera í landinu.
Því er ljóst að mikið af því pólitíska kapítali sem var til fyrir tíu árum fyrir því að stöðva harðstjóra með hervaldi, er uppurið. Erfitt er að gera sér í hugarlund hversu hrikaleg þau voðaverk þurfa að vera, til að íhlutun Vesturveldanna muni njóta stuðnings. Nema þá að þau séu bein ógn við öryggi Vesturlandabúa.
Bill Clinton sagði eftir að NATO hafði stöðvað blóðbaðið á Balkansskaga að „þar sem við getum stöðvað slátrun á saklausum borgurum og brottflutning þeirra vegna kynþáttar, menningarlegs bakrunns eða hvernig þeir tilbiðja Guð , án þess að hætta á kjarnorkustyrjöld eða aðrar hryllilegar afleiðingar, eigum við að gera það“. Erfitt er að sjá í dag, hvenær viðlíka háfleygar hugmyndir verða aftur viðhafðar á opinberum vettvangi og muni njóta hylli og trausts.
- Það rignir góðum fréttum - 9. júlí 2021
- Álhattaveislan verður aldrei haldin - 5. júní 2021
- Sköpum 7.000 störf - 27. mars 2021