Nýtt framboð, Besti flokkurinn, hefur litið dagsins ljós og ætlar að bjóða fram lista í Borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík í vor. Samkvæmt skoðanakönnunum næði þessi nýi flokkur undir forystu Jóns Gnarrs inn tveimur borgarfulltrúum ef kosið yrði nú og væru eflaust flestir nýir stjórnmálflokkar mjög sáttir við slíka niðurstöðu í fyrstu kosningum.
Það verður að segjast eins og er að það er stórkostlega fyndið að hlusta á málflutning Besta flokksins og lesa um kostuleg stefnumál hans á borð við að gefa húsdýragarðinum Ísbjörn, setja tollahlið á Seltjarnarnes, byggja 40 hæða neðanjarðarháhýsi í miðborginni, koma fyrir froskum í Tjörninni og svo mætti áfram telja.
Á sama tíma og hægt er að hafa mjög gaman að þessu framboði sem slíku er ljóst að Besti flokkurinn flytur skýr skilaboð til annarra stjórnmálaflokka. Framboðið og stuðningur kjósenda við það er augljós myndbirting þeirrar óánægju sem kraumar undir í samfélaginu um störf stjórnmálamanna, burtséð frá allri flokkapólitík.
Auk þess að flytja þessi skýru skilaboð þá sýnir framboðið einnig glögglega á hvaða virðingarstalli íslensk stjórnmál eru hjá almenningi í dag og er það mjög miður. Hér á árum áður tóku helstu skáld og listamenn þjóðarinnar oft og iðulega virkan þátt í stjórnmálaumræðunni. Nú gerir sami hópur nútímans aðallega grín að umræðunni. Þetta ber alls ekki að túlka þannig að ekki megi gera grín að stjórnmálamönnum enda er það er bæði skemmtilegt og nauðsynlegt!
Stjórnmálamenn hvort sem er á Alþingi, ráðhúsi Reykjavíkur eða öðrum sveitarstjórnum gegna mjög mikilvægu hlutverki í samfélaginu og það er okkar allra hagur að þar sé hæfasta mögulega fólkið hverju sinni. Það hefur augljóslega ýmislegt misfarist undanfarin ár og ýmsir sofnað á verðinum. Því er enn mikilvægar en oft áður að hæfasta fólkið fáist til þess að taka þátt í stjórnmálum og sé tilbúið til að taka við ábyrgð.
Það er mikilvægt að hefja aftur upp virðingu stjórnmála því aðeins þannig fáum við besta fólkið til að starfa í okkar sameiginlegu þágu. Það gerum við ekki með því að tala niður stjórnmálin í heild sinni með neikvæðri og ómálefnalegri umræðu sem vafin er inn í grín. Við skulum svo sannarlega gagnrýna og benda á það sem hefur misfarist, en gerum það með virðingu.
- Fjárfestingar í sprotafyrirtækjum - 11. nóvember 2010
- Störfin sem vaxa ekki á trjánum - 22. september 2010
- Viðhorf á villigötum - 11. ágúst 2010