Þrátt fyrir talsverðar framfarir á síðustu árum virðist skilningur almennings á hlutverki Seðlabankans enn vera nokkuð ábótavant. Þetta kemur skýrt fram þegar bankastjórastöður í Seðlabankanum losna eins og nú hefur gerst. Það virðist vera útbreidd skoðun að starf Seðlabankastjóra sé svipaðs eðlis og stjórnunarstöður í öðrum ríkisstofnunum og því gildi nokkurn vegin sömu hæfnisviðmið við ráðningu Seðlabankastjóra og við ráðningu forstjóra Íbúðalánasjóðs eða forstjóra Tryggingastofnunar Ríkisins.
Fátt er fjær sanni. Seðlabankastjórar bera ábyrgð á peningamálastefnu Seðlabankans. Þeir ákvarða vaxtastigið í landinu. Þeir bera ábyrgð á því að hér ríki verðstöðugleiki. Þeir bera ábyrgð á stöðugleika fjármálakerfisins. Með öðrum orðum gegna þeir lykilhlutverki í því að tryggja að efnahagslífið gangi sinn gang eins og vel smurð vél.
Það er hreinlega út í hött að halda því fram að starf Seðlabankastjóra sé sambærilegt við forstjórastöður í öðrum ríkistofnunum eða jafnvel bankastjórastöður í viðskiptabönkunum.
Bankastjóri í Seðlabankanum þarf að hafa yfirgripsmikla þekkingu og djúpan skilning á gangi hagsveiflunnar. Hann þarf að vera vel að sér í hagfræði en einnig hafa mikla praktíska þekkingu á fjármálamörkuðum og gangi mála í mikilvægustu átvinnugreinum landsins.
Á laugardaginn birtist viðtal við Davíð Oddsson í DV þar sem hann segir að vanur stjórnmálamaður eða stjórnandi úr viðskiptalífinu eða stjórnmálalífinu komi helst til greina í stöðu Seðlabankastjóra en síður maður úr háskólalífi. Davíð rökstyður þetta með því að marga menntamenn vanti stjórnunarreynslu og séu úr takt við þjóðlífið.
Það er hárrétt að óæskilegt er að í stöðu Seðlabankastjóra veljist maður sem ekkert kann nema kennisetningar og hefur takmarkaða tilfinningu fyrir því hvernig hagkerfið virkar í raun og veru. Það er einnig rétt að sumir aðilar í viðskiptalífinu, og jafnvel sumir stjórnmálamenn, eru fullkomnlega hæfir til þess að verða Seðlabankastjórar, sérstaklega þeir sem hafa mikla reynslu af fjármálageiranum eða hafa gegnt starfi fjármálaráðherra.
Flestir í viðskiptalífinu og lang, lang flestir stjórnmálamenn eiga hins vegar ekkert erindi í stöðu Seðlabankastjóra. Þeir sem ekki hafa góðan skilning á sambandi vaxta, gengis, verðbólgu og landsframleiðslu eru algerlega óhæfir til þess að gegna stöðu seðlabankastjóra hversu mikla stjórnunarreynslu sem þeir kunna að hafa. Þar að auki er það ekki stjórnmálamönnum eðlislægt að taka óvinsælar ákvarðanir. En það er einmitt hlutverk Seðlabankans þegar þensla fer að grafa um sig.
Að lokum vil ég segja að í öllu þessu tali um hæfni manna úr viðskipta-, stjórnmála- eða háskólalífinu eru menn að leita langt yfir skammt. Innan Seðlabankans starfa fleiri en einn og fleiri en tveir aðilar sem eru hæfari til þess að gegna stöðu Seðlabankastjóra en flestir ef ekki allir aðrir Íslendingar. Lang besti kandídatinn sem við eigum í stöðu Seðlabankastjóra er Már Guðmundsson, aðalhagfræðingur Seðlabankans. Már hefur gegnt lykilhlutverki í uppbyggingu fjármálamarkaða hér á Íslandi á síðustu tíu árum og einnig í þeim breytingum sem orðið hafa á starfsemi og stefnu Seðlabankans. Enginn hefur jafn mikla reynslu, jafn góða þekkingu og jafn mikinn skilning á gangi hagsveiflunnar á Íslandi og Már. Frá mínum bæjardyrum séð ætti hann að vera augljós kandídat í stöðu Seðlabankastjóra.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009