Viku fyrir páskahátíð gyðinga nálguðust tvær fylkingar Jerúsalem. Úr vestri kom landstjórinn Pontius Pílatus og með honum rómverskir hermenn. Þar var gengið í takt og þar voru veifur á lofti og það glampaði á hertygi riddara og fótgönguliða.
Úr austri kom annar hópur. Það var fólk sem var hert í átökum daglegs lífs og var tötrum klætt. En þó að það væri rúnum rist þá var gleði í hópnum og vonarneisti í augum. Fólkið gekk ekki í takt en veifaði pálmagreinum. Dansaði og hrópaði: Hósanna, blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins.
Pílatus var fullrúi valdsins og verkefni hans var að halda friðinn hvað sem það kostaði. Á páskum gyðinga var þess minnst að Drottinn allsherjar hafði leitt Ísraela úr þrælahúsi Egypta til fyrirheitna landsins.
Á hátíðinni bergmálaði sagan í hjörtum gyðinganna og þá dreymdi forna frægð og sjálfstæði. Það vissu Rómverjar og voru við öllu búnir.
Jesús var fulltrúi annars konar valds. Fólkið sem fagnaði honum þekkti líka söguna. Það var eftirvænting og tilhlökkun í hópnum. Fólkið hafði komið og séð Jesú og máttarverkin stór og það hafði líka hlustað á huggunar- og hvatningarorð. Og fólkið fann samstöðu með orðum Jesú þegar hann tók yfirvöldin til bæna.
Hann hafði safnað um sig vinum í Galileu og á leiðinni upp til Jerúsalem. Hann hafði blessað, umvafið og læknað. Hann talaði með öðrum hætti en aðrir og orð hans fengu töfrahljóm og fólkið vænti mikils af honum. Fólkið vonaði að hann væri sá sem myndi frelsa og ríkja í hásæti Davíðs
En það gat ekki gengið að yfirvöldin gætu liðið slíkt. Því hlaut að skerast í odda á milli þessara fylkinga. Skynsemin sagði landshöfðingjunum að betra væri að einn færist en þúsundirnar. Því fór sem fór og Jesús var svikinn, dæmdur og deyddur.
Þessa sögu þekkjum við. Við vitum líka að sagan endaði ekki á krossinum. Ef það hefði gerst þá þá hefði engin kristni orðið til.
Veraldlegt vald vann orrustuna í Jerúsalem í dymbilviku. Sigur kærleikans vannst á páskadag þegar vinir Jesú fundu návist hans og andblæ með þeim hætti að þeir fengu kjark og hugrekki til að breyta heiminum.
Þannig er það enn í dag. Veröldin öll er eins og Jerúsalem þar sem átök eiga sér stað. Það er víða gengið í takt og valdið treður á fólki og hugsjónum og vill viðhalda sjálfu sér. En það er líka fólk sem lætur sig dreyma um frelsi og að hver og einn fái að vera sjálfum sér líkur.
Kirkja Krists skynjar nálægð Guðs í orðum og lífi Jesú frá Nazaret. Trúin gerir kröfu til okkar um að horfa með hjartanu. Að við horfum á hann, göngum með honum og lútum valdi hans, sem kom endur fyrir löngu inn í borgina Jerúsalem ríðandi á ösnufola og -veröldin varð ekki sú sama á eftir.
Við viljum vera í hópnum hans og tökum undir með kristnu fólki og segjum: Hósanna, blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins.
Gleðilega páska.
Kjartan Örn Sigurbjörnsson.
- Jarðnesk trú og/eða himnesk - 23. maí 2021
- Páskadagur árið 2021 - 4. apríl 2021
- Að vesenast á aðventu og jólum - 25. desember 2020