Draumaskattkerfið

Skattakerfið okkar er mörgum ofarlega í huga þessa dagana, sérstakalega þar sem þegar landsmenn eru nú í óðaönn að skila framtölum sínum til ríkisskattstjóra. Mörgum finnst kerfið okkar flókið og ógagnsætt og ekki bættu þær breytingar sem gerðar voru á því um síðustu áramót úr skák.

Skattakerfið okkar er mörgum ofarlega í huga þessa dagana, sérstakalega þar sem þegar landsmenn eru nú í óðaönn að skila framtölum sínum til ríkisskattstjóra. Mörgum finnst kerfið okkar flókið og ógagnsætt og ekki bættu þær breytingar sem gerðar voru á því um síðustu áramót úr skák. Bætt var inn nýjum þrepum á tekjuskatt einstaklinga sem gerir kerfið enn flóknara auk þess sem settur var á sérstakur auðlegðarskattur. Jafnframt var fjármagnstekjuskattur hækkaður enn meira sem og virðisaukaskattur.

Segja má að tekjustofnar ríkisins gegnum skattakerfið séu að meginstefnu til fjórir:

1) Tekjuskattur einstaklinga með laun að 2,4 millj. er 37,22%
2,4 til 7,8 millj. er 40,12% og laun yfir 7,8 mill. 46,12%.

2) Tekjuskattur lögaðila 18%.

3) Fjármagnstekjuskattur 18%.

4) Virðisaukaskattur 25,5%.

Eins og sést er skattprósentan mismunandi eftir launum og skatttegundum og síðan bætast við ýmsir afslættir s.s. persónuafsláttur, sjómannaafsláttur o.s.frv. og frádráttarliðir að ógleymdum ýmsum bótum s.s. barnabótum og vaxtabótum.

Þeirri spurningu hefur oft verið velt upp meðal áhugamanna um einfaldara, betra og skilvirkara skattakerfi, hvort ekki væri hægt að smíða kerfi sem byggði á einni prósentutölu, þ.e.a.s að ákveðin föst prósentutala væri lögð á alla innheimtu skatta, hvort sem um væri að ræða tekjuskatt einstaklinga eða lögaðila, fjármagnssekjuskatt eða virðisaukaskatt.

Ef við gæfum okkur að þessi tala yrði t.d. 20% þá sjá menn hversu gífulega einföldun og hagræðingu þetta hefði í för með sér. Þannig væri hægt að afnema alla skattstiga, allir frádrættir heyrðu sögunni til og allir greiddu sama skatt, 20%, hvort sem menn hefðu háar eða lágar tekjur og enginn munur gerður á einstaklingum og lögaðilum eins og nú er gert. Síðan væri hægt að smíða einfalt bótakerfi á móti einföldu skattakerfi sem tæki við af núgildandi vaxtabóta og barnabótakerfi.

Að sjálfsögðu yrðu að fara fram viðamiklir útreikningar á því hver prósentutalan ætti að vera nákvæmlega. Útgangspunktarnir yrðu þó að vera tveir, annars vegar að skatttekjur ríkissjóðs yrðu svipaðar og skv. núgildandi kerfi og hins vegar að skattprósentan yrði hófleg því það er mat margra að sé skattprósentun hófleg þá stækkar skattstofninn, undanskotum fækkar og talsverður hluti svarta hagkerfisins, sem því miður er gífurlega umfangsmikið hér á landi og er talið skipta allt að 40 milljörðum, kæmi að einhverju leyti upp á yfirborðið.

Sjálfur er ég sannfærður um að þetta verður framtíðin og það er aðeins tímaspursmál hvenær gerð verður alger grundvallar breyting á gildandi kerfi í átt til þess sem hér hefur verið fjallað um. Ef skattprósentan er hófleg og sanngjörn mun það örugglega leiða til þess að fólk vill borga skatta og verður stolt af því að leggja sitt að mörkum til samfélagsins, öfugt við það sem verið hefur undanfara áratugi þar sem menn hafa reynt flest ráð til að komast hjá því að borga skattana vegna þess hversu háir og ósanngjarnir þeir eru og jafnvel verið stoltir af því.