Brasilía er flestum Íslendingum kunn fyrir fótbolta, karnival og sem sumarleyfisstaður þjóðþekktra Íslendinga. Landið er það stærsta í Suður-Ameríku, og einnig það fjölmennasta, þrátt fyrir að stór hluti landsins tilheyri hinum stjrálbýla Amazon-regnskógi.
Greinarhöfundur býr í Ekvador og nýtti sumarfríið sitt í janúar og febrúar í ferðalag um Suður-Ameríku. Frá „heimalandinu“ var farið til Perú og þaðan til Bólivíu, fátækasta lands álfunnar. Frá Bólivíu var farið með hinni svokölluðu dauðalest að landamærum Brasilíu. Þegar inn í Brasilíu var komið var menningarsjokkið þrefalt: a) farið var úr spænsku málumhverfi yfir í portúgalskt b) allt var rosalega dýrt og c) allt virtist svo þróað!
Ástæða þess að allt virtist svo þróað var sú að greinarhöfundur og ferðafélagar dvöldu í São Paulo sem er þróaðasta svæði Rómönsku-Ameríku. Þar eru meiri atvinnutækifæri en jafnan gengur og gerist í álfunni, og lífsgæðin betri eftir því, en til að mynda eru ýmis alþjóðleg fyrirtæki með verksmiðjur og önnur útibú í São Paulo.
En þó Brasilía státi af þróaðasta svæðinu er landið ef til vill þekktara fyrir hin alræmdu fátækrahverfi, „favelas“. Þar er lífið langt frá því að vera dans á rósum; samkvæmt brasilískri vinkonu minni hefur til dæmis lífið í „Borg guðs“ lítið breyst frá því sem sýnt var í samnefndri kvikmynd og gerist á 8. áratug síðustu aldar. Þar að auki er norðaustur hluti landsins með þeim vanþróaðri í Rómönsku-Ameríku og á heildina litið glímir Brasilía við mörg félagsleg vandamál.
Það stærsta er eflaust fátæktin en hlutfallslega má skipta þjóðinni upp á eftirfarandi hátt, samkvæmt innkomu, og þar með stétt: 1%, hástéttin, hafa miklu meira en nóg á milli handanna, 25-30% tilheyra millistéttinni og restin, um 70%, lifir í fátækt. Ástæðuna má að einhverju leyti rekja til lágra lágmarkslauna, um 300 dollarar á mánuði, en í landi eins og Brasilíu, þar sem matur og húsnæði kostar svipað og á Íslandi, er ekki hægt að lifa á jafnlágu kaupi.
Ein besta leiðin út úr fátækt er menntun en í Brasilíu er ekki einu sinni skólaskylda! Því er það gjarnan svo að börnin eru frekar látin vinna fyrir fjölskyldunni heldur en að þau gangi í skóla. Í frítíma sínum spila þau svo fótbolta, auðvitað. Raunhæfasta leiðin sem þau sjá út úr fátæktinni er nefnilega í gegnum fótboltann enda koma flestir bestu knattspyrnumenn landsins úr fátækum fjölskyldum. Það getur þó oft reynst ungum drengjum erfitt að höndla frægðina og alla peningana, og oftar en ekki er leiðin niður af stjörnuhimninum jafnhröð og leiðin var upp.
Það er vegna þessa sem nokkrir Brasilíumenn sem greinarhöfundur ræddi við telja landslið sitt ekki eiga séns í heimsmeistaratitilinn, eða eins og einn þeirra orðaði það: „Núna eru þeir allir svo ríkir og frægir, og með meiri pening í vasanum en þó nokkurn tímann dreymdi um. Þetta snýst ekki lengur um að spila góðan fótbolta. Eða heldurðu virkilega að Ronaldinho sé að spila góðan fótbolta á Ítalíu? Ég held að hann standi sig betur á djamminu og svo vill hann spila fyrir landsliðið á HM…“
Og þá er bara að vona að menntun verði raunhæfur möguleiki á við knattspyrnuna en þó helst ekki á kostnað samba-boltans sem Brasilía er svo þekkt fyrir.
- Án takmarkana - 15. júlí 2021
- Besta fjárfestingin og forréttindin - 21. júní 2021
- Ein þeirra heppnu - 17. maí 2021