Í dag birtist grein í Fréttablaðinu um fyrirtækið E.C.A. Program sem hefur óskað eftir starfsleyfi á Keflavíkurflugvelli fyrir óvopnaðar orrustuþotur sem nota á í heræfingum. Í greininni er því haldið fram að veiting starfsleyfis til handa fyrirtækinu „myndi brjóta í bága við stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar þar sem segir að gera eigi Ísland að vettvangi fyrir friðarumræðu og leggja áherslu á baráttu fyrir friði og afvopnun í heiminum.“ Í þessum pisti verður spurt hvort þessi fullyrðing standist.
Áður en lengra er haldið er rétt að benda á að samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar – Græns framboðs frá því í maí á síðasta ári er pólitísk yfirlýsing ekki lagaleg. Þeir sem bærir eru til að túlka samstarfsyfirlýsinguna eru því væntanlega þeir sem eru í forystu flokkana tveggja. Þrátt fyrir það ætla ég að leyfa mér að rýna í textann og athuga hvort fullyrðingin hér að ofan sé rétt. Til að nálgast viðfangsefnið er heppilegt að brjóta fyrrnefnda fullyrðingu niður í nokkra búta.
1. Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar segir að gera eigi Ísland að vettvangi friðarumræðu.
2. Í stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar kemur fram að Ísland eigi að leggja áherslu á baráttu fyrir (a) friði og (b) afvopnun í heiminum
Það er rétt að í samstarfsyfirlýsingunni kemur fram að gera eigi Ísland að vettvangi friðarumræðu. Nánar tiltekið segir: „Ísland verði boðið fram sem vettvangur fyrir friðarumræðu, þar á meðal fyrir alþjóðlegar ráðstefnur og fundi fræðimanna og stjórnmálaleiðtoga um þau efni.” Undirritaður á erfitt með að sjá hvernig veiting starfsleyfis til fyrirtækis sem ætlar að bjóða upp á einhvers konar útleigu á óvopnuðum flugvélum mönnuðum óbreyttum borgurum til herja NATO ríkja og bandamanna komi í veg fyrir að Ísland verði boðið fram sem vettvangur fyrir friðarumræðu. Ég veit ekki betur en að friðarumræður fari fram víðs vegar um heim óháð heræfingum.
Það er rétt að það kemur fram í umræddri samstarfsyfirlýsingu að Ísland eigi að leggja áherslu á baráttu fyrir friði og afvopnun í heiminum. Nánar tiltekið kemur fram í samstarfsyfirlýsingunni að „[r]íkisstjórnin leggur áherslu á baráttu fyrir […] friði og afvopnun.” Til að skoða þetta atriði nánar er heppilegt að greina á milli baráttunnar fyrir friði og baráttunnar fyrir afvopnun.
Varðandi baráttuna gegn afvopnun þá á undirritaður erfitt með að sjá hvernig starfsemi E.C.A. Program hamli þessu áhersluatriði í utanríkisstefnu íslenska ríkisins. Nokkrar ástæður eru fyrir þessari skoðun. Í fyrsta lagi þá eiga flugvélar E.C.A. Program að vera óvopnaðar. Í öðru lagi verða væntanlega ekki sérstaklega framleidd vopn til notkunar í þessum æfingum. Í þriðja lagi er ekkert sem kemur í veg fyrir að Ísland beiti sér á alþjóðavettvangi fyrir afvopnun þrátt fyrir þessa starfsemi. Minna má að Bandaríkjaforseti hefur talað fyrir kjarnorkuafvopnun þó svo að hann sé æðsti yfirmaður bandaríska heraflans sem eins og kunnugt er á í vopnuðum átökum í Afghanistan og Írak.
Varðandi það atriði að ríkisstjórnin leggi áherslu á baráttuna fyrir friði þá verður að benda á að líta má á heræfingar sem æskilegt fyrirbæri til að æfa sjálfsvörn og koma í veg fyrir að ófriður brjótist út. Taka má sem dæmi að stofnsáttmáli Sameinuðu þjóðanna gerir ráð fyrir að hægt sé að beita hervaldi til að tryggja frið og stöðugleika. Stundum getur verið nauðsynlegt að beita slíku valdi ef önnur úrræði duga ekki. Nauðsynlegt er að herir séu vel æfðir til að geta sinnt því hlutverki.
Í titli þessarar greinar er spurt hvort fyrirætlanir E.C.A. Program fari gegn samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Eins og bent hefur verið á hér að ofan þarf það ekki að vera. Það er eins og um margt annað túlkunaratriði og fyrir þá sem fara um þessar mundir með stjórn ríkisins að ákveða.
Kannski er það svo að þeir sem tala hvað hæst gegn fyrirætlunum E.C.A. Program. líti svo á að hlutir sem hægt sé að nota til illra verka séu þar af leiðandi ilir. Undirritaður deilir ekki þeirri skoðun.
- Fara fyrirætlanir E.C.A. Program gegn samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar? - 24. mars 2010
- …að vera eða vera ekki herloftfar… - 23. mars 2010
- Friðlýsingahugmyndir stangast á við hafréttarsamning SÞ - 19. maí 2009