Nú er tekið að vora, fuglarnir syngja, snjóa leysir og allt er í rjúkandi rúst. Á þessum tíma árs er vorfiðringurinn farinn að kitla flesta, við horfum til sumarsins með tilhlökkun og eftirvæntingu, ef ekki væri fyrir helvítis ástandið – þyngslin sem sliga sálina, áhyggjur af reikningum, afborgunum, skuldum, framtíðinni… Svartar horfurnar kæla sálina og bæla væntingar, við tökum einn dag í einu eins og alkóhólistarnir, meikum ekki að horfa lengra fram í framtíðina en í næstu viku, því að það sem bíður handan við hornið er mjög líklega verra en nútíminn.
Þetta svartsýnishjal er mögulega gróflega ósmekklegt, rof á óskrifuðum samningi að við eigum að peppa hvert annað upp frekar en að sitja og kvarta. En það er ekkert að smávegis kaldri áminningu, sérstaklega á mánudegi, eitthvað til að láta okkur líða aðeins verr í byrjun vinnuvikunnar.
Það skiptir ekki máli í hvaða drullusvað maður er sokkinn, eða hversu djúpt – það er alltaf hægt að finna vonarglætu í hausnum á sér, ástæðu til að spyrna við fótum og krafsa sig upp úr skítnum. Þó ekki sé nema tilhugsunin um andardrátt í hreinna lofti eða rjúkandi kvöldverð. Og við sem troðum marvaða í skuldasúpu landsins leitum í örvæntingu að einhverju til að hjálpa okkur upp.
Vinnan göfgar manninn, sagði geðveikur maður eitt sinn – en þó er sannleikskorn í þessu, og miklu meira en svo. Íslendingar hafa aldrei búið við atvinnuleysi sem heitið gæti, en við erum nú í fyrsta sinn að upplifa gríðarlega aukningu þess og bágari atvinnuhorfur en nokkurn tímann. Menn eru sviptir starfinu, og þar með ekki aðeins laununum heldur líka ákveðnum fasta í lífinu, öryggi, og í mörgum tilfellum stoltinu. Þá er lítið eftir. Eini haldbæri punkturinn í kenningasmíð Sovétríkjanna heitinna var sá að maðurinn þarf þrjá grunnþætti svo hann sé tiltölulega sáttur; mat, húsnæði og atvinnu. Þetta er laukrétt, þegar menn missa vinnuna er fokið í flest skjól.
Ungt fólk á Íslandi, allt frá gagnfræði- upp í háskóla, vinnur á sumrin. Þannig hefur það alltaf verið, og þannig vonuðumst við til að það yrði áfram. Í þrjá mánuði er maður vanur að strita duglega fyrir brauðinu, fá starfsreynslu og sumarhýru sem dugar fyrir skólabókum og nokkrum kaffibollum. En nú er öldin önnur, og atvinnuhorfur stúdenta vægast sagt dapurlegar. Það er einfaldlega litla sem enga vinnu að fá, og þau fáu epli sem eru í boði er dreift á milli þeirra sem eru rækilega vel tengdir inn í fyrirtæki eða stofnanir – á Nýja Íslandi færðu ekki vinnu nema með vinum á réttum stöðum og öflugu tengslaneti. Minnir um margt á það gamla. Við þessu er lítið að gera, annaðhvort leita á skandinavískar náðir og skella sér í byggingarvinnu til Malmö eða vinna á bar í Kaupmannahöfn, eða þá vera heima og nýta þá í það minnsta tímann í eitthvað uppbyggilegt. Þokast fram á við, þroskast, þróa sig og bæta. Til dæmis með því að læra.
Síðastliðið sumar var boðið upp á sumarannir við HÍ, uppátæki sem var þrususniðugt og nýttist 1000 nemendum, sem annars hefðu líklega setið aðgerðarlausir og þegið atvinnuleysisbætur. Þetta fannst mér stórkostlegt, ekki bara að því augljósa leyti að þarna er háskólanemendum gefið færi á að mennta sig, sem er alltaf af hinu góða, heldur vegna þess að þar er þeim forðað frá því skrefi að byrja að þiggja bætur frá ríkinu. Það hefur nefnilega víðtæk áhrif að rjúfa þann múr, að sleppa takinu á viðleitninni til að framfleyta sér sjálfum, og leggja hana í hendur ríkinu hefur djúpstæðari áhrif á hugsunarhátt og sálarlíf manna en virðist í fyrstu. Án þess að hljóma eins og fulltrúi Hitlersæskunnar vil ég meina að menn eigi að forðast að taka þetta skref í lengstu lög, þeirra sjálfra vegna.
En nú er komið vor á ný, annað vor Eftir Hrun, og horfurnar eru sem fyrr segir hroðalegar. Og stjórnvöld virðast vera nokkurn veginn samtaka um að strá salti í sárin, því að nú er þvertekið fyrir að aftur verði boðið upp á sumarannir við Háskólann, þar með stoðinni kippt undan þeim þúsund nemendum eða fleirum sem hefðu nýtt sér þetta úrræði – en ekki nóg með það heldur kom nýlega í ljós að stúdentar verða sviptir rétti til atvinnuleysisbóta í ofanálag, og þá er eina tekjulind námsmanna yfir sumartímann félagsbætur frá sveitarfélagi, sem enn er óljóst hvort verði veitt, þrátt fyrir framfærsluskyldu þeirra.
Það er gagnrýnivert að stjórnvöld skuli ekki ætla að fjármagna sumarannir aftur. Varhugavert er að venja fólk á að þiggja bætur svo snemma á lífsleiðinni, í staðinn fyrir að veita þeim námslán yfir sumartímann, sem ríkið fær svo endurgreiddar í fyllingu tímans. Það er skynsamleg og hagkvæm lausn fyrir alla.
Þessi hópur fólks er oft stimplaður sem ofdekraður og of góðu vanur, sem er reginmisskilningur. Stúdentar eru meira en til í að vinna baki brotnu á sumrin, ef atvinnutækifærin byðust – og ef ekki, þá eru þeir allir af vilja gerðir til að hala inn einingar og læra, en nú er hvorugt í boði. Meira að segja atvinnuleysisbæturnar eru ætlaðar öðrum þjóðfélagshópum, og nú þurfa stúdentar að sækja um félagslegar bætur. Þetta er hroðaleg þróun og sendir okkur hættulega vonleysisleg skilaboð, á tímum þar sem við þurfum síst á slíku að halda. Spurning um að taka skoðanalega U-beygju og byrja að hygla Sovét, þar fengjum við í það minnsta pláss í gúlaginu.
- Vil ég tortíma Reykjavík? - 19. maí 2010
- Vinsælasta stúlkan - 7. apríl 2010
- Bætur og bölsýni - 8. mars 2010