Árið 2007 auglýsti íslenskt par eftir staðgöngumóður í Morgunblaðinu. Vakti auglýsingin talsverða umræðu í þjóðfélaginu en þar sem lög um tæknifrjóvganir heimila ekki staðgöngumæðrun á Íslandi var ætlunin að framkvæma aðgerðina erlendis. Nú, þremur árum síðar, hefur sama umræða skotið aftur upp kollinum í kjölfar áfangaskýrslu sem lögð var fyrir heilbrigðisráðherra á dögunum um staðgöngumæðrun á Íslandi. Með skýrslunni var ætlunin að skoða siðfræðileg, lögfræðileg og læknisfræðileg álitaefni varðandi staðgöngumæðrun og skapa grunn upplýstrar umræðu áður en ákveðið yrði hvort slíkt fyrirkomulag skyldi leyft á Íslandi.
Lengi hefur tíðkast að konur gangi með og ali börn fyrir aðrar konur. Sú aðferð að nota staðgöngumóður til að bæta úr barnleysi getur farið fram með tæknisæðingu, heimasæðingu eða glasafrjóvgun en þess ber þó að geta að ekkert er því til fyrirstöðu að staðgöngumóðir sé frjóvguð með náttúrulegum hætti, þ.e. samförum. Félagsleg og siðfræðileg viðhorf gera það þó að verkum að fyrstu þrír möguleikarnir verða oftast fyrir valinu þegar um staðgöngumæðrun er að ræða.
Þegar rætt er um staðgöngumæðrun og hvort slíkt fyrirkomulag skuli lögleitt á Íslandi skjóta fjölmörg álitaefni upp kollinum. Hvernig skal með fara ef væntanlegir foreldrar neita að taka við barninu? Geta þeir hætt við reynist barnið fatlað eða ef um óvænta fjölbura er að ræða? Varla væri gott að þvinga væntanlega foreldra til að taka við barninu enda væri slík ráðstöfun sjaldnast í samræmi við hag eða þarfir barnsins. Einnig gæti staðgöngumóðir neitað að gefa barnið frá sér til væntanlegra foreldra og er þá óljóst hver réttur þeirra væri en samkvæmt barnalögum telst sú kona sem elur barn sem getið er við tæknifrjóvgun vera móðir þess. Eins fengist enginn lögmætur grundvöllur undir ákvörðun á faðerni barnsins þar sem yfirlýsing manns um faðerni hefur ekki sjálfstæða þýðingu nema móðir hafi lýst hann föður að barninu.
Þau eru mun fleiri, álitaefnin sem menn deila um í umræðunni um staðgöngumæðrun á Íslandi. Ætti ríkið að taka þátt í kostnaði við staðgöngumæðrun? Mun staðgöngumóðirin eiga rétt á fæðingarorlofi? Hverjir eiga að fá að nýta sér þjónustuna? Verða það einungis íslenskir ríkisborgarar eða verður ríkisborgurum annarra þjóða heimilt að óska eftir staðgöngumóður hérlendis? Ef þjónustan yrði opin fólki úr öllum heimshornum, erum við þá að opna fyrir eins konar ,,læknisfræðilegan túrisma” á Íslandi? Gæti slíkt jafnvel orðið að arðbærri atvinnugrein? Er þetta siðferðislega rétt?
Það álitaefni sem þó er hvað áhugaverðast í þessari umræðu er hvort heimila ætti greiðslur fyrir staðgöngumæðrun, aðrar en eðlilegar greiðslur fyrir tekjumissi, lækniskostnað og annað sem fylgir meðgöngu. Myndi slíkt opna fyrir þann möguleika að staðgöngumæðrun yrði að atvinnugrein á Íslandi? Myndu börn ganga kaupum og sölum og konur leggja stund á að ganga með annarra manna börn í hvívetna? Hvað þetta álitaefni varðar skiptist fólk yfirleitt í þrjá hópa.
Fyrst eru það þeir sem vilja heimila staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni og telja eðlilegt að konur fái rausnarlegar greiðslur fyrir svo krefjandi verkefni. En svo eru það annars vegar þeir sem leggjast alfarið gegn slíkum aðgerðum á Íslandi og hins vegar þeir sem vilja einungis heimila staðgöngumæðrun í greiðaskyni án nokkurs hagnaðar. Sumir þeirra sem tilheyra tveimur síðargreindu hópunum hafa jafnvel gengið svo langt að líkja staðgöngumæðrun við vændi þar sem kona selur aðgang að líkama sínum – menn eigi ekki að hagnast á börnum og barneignum og því sé siðferðislega rangt að þiggja greiðslur fyrir staðgöngumæðrun.
Hvað sem öllu þessu líður er nokkuð ljóst að rétturinn til að stofna fjölskyldu og fjölga sér ætti að vera öllum tryggður – með einum eða öðrum hætti. Staðgöngumæðrun er ein leið til að tryggja þann rétt en áður en ákveðið verður hvort slíkt fyrirkomulag skuli leyft á Íslandi þarf að mynda ákveðinn lagaramma og svara öllum álitaefnum með skýrum hætti. Umræða þarf að fara af stað í þjóðfélaginu og menn þurfa að mynda sér skoðanir á því hvort staðgöngumæðrun skuli heimiluð á Íslandi og þá hvernig slíkt fyrirkomulag skuli útfært. Hvað er siðferðislega rétt og hvað er siðferðislega rangt? Hagnaður eða greiði? Vændi eða grundvallarréttindi? Af eða á? Já eða nei?
- Hjólaborgin - 16. júní 2021
- Brúarsmíði í borginni - 18. maí 2021
- Eftir hverju erum við að bíða? - 14. apríl 2021