Stjórnmálamenn og álitsgjafar virðast enn og aftur falla í sömu gröfuna í Icesave-málinu nú í aðdraganda boðaðrar þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-lögin. Stjórnmálaflokkar boða kjósendur á laugardaginn af miklum móð og það er talað er um að sérlega mikilvægt sé að sýna umheiminum í tvo heimana. Íslendingar ætli sko ekki að láta vaða neitt yfir sig.
Allt er þetta gott og blessað þótt varla sé hægt að tala um að mikil spenna sé fyrir kosningunni. Nýleg könnun sýndi að 74% aðspurðra ætla að segja nei við lögunum þannig að nánast er útilokað að svo stór fjöldi breyti um skoðun á þeim örfáu dögum sem eru fram að kosningu að úrslitin verði á annan veg.
Túlkun úrslitanna út á við skiptir meira máli en hvort 80% eða 90% kjósenda segi nei. Eins og fram hefur komið í viðtölum við þá erlendu blaðamenn sem eru hér á landi núna þá sjá þeir málið miklu frekar sem spurninguna um það hvort Íslendingar ætli sér að borga Icesave-skuldina yfirhöfuð eða ekki. Íslendingar sjá hins vegar kosninguna sem spurninguna um það hvort við ætlum að samþykkja samning sem er svo ósanngjarn að ekki er hægt að sætta sig við hann og sjá synjun hans sem ákall um sanngjarnari meðferð.
Þessa misfellu þarf að leiðrétta. Ríkisstjórnin og stjórnvöld almennt hafa margsannað að þau eru fullkomlega ófær um að valda því hlutverki að koma málsstað okkar á framfæri erlendis eða við erlenda fjölmiðla. Þegar forsetinn synjaði Icesave-lögunum staðfestingar fékk ríkisstjórnin tilkynningu þess efnis senda sjö mínútum eftir að blaðamannafundur forsetans hófst og tók á málinu með því að mæta í fýlu á blaðamannafund sem öll heimsbyggðin fylgdist með, með hrakspár um hvað væri framundan eftir þessa vondu ákvörðun forsetans, sem hefur þó sýnt sig vera ein besta ákvörðunin sem tekin hefur verið í öllu málinu.
Hvers vegna er ekki spurt út í viðbragðsáætlun ríkisstjórnarinnar? Megum við eiga von á því að forsætisráðherra mæti úrill í heimspressuna um tíuleytið á laugardagskvöldið þegar fyrstu tölur sýna afgerandi synjun laganna og fabúleri um hvað útlitið sé dökkt framundan fyrir íslensku þjóðina og hvurslags óskynsemi þetta hafi nú verið hjá blessuðum kjósendunum? Slíkt væri afleitt og verður að tryggja að komi ekki upp á.
Raunar væri eðlilegt í ljósi þess hvernig málið hefur unnist á annað borð að formenn allra flokka, sem mynduðu samninganefndina, komi sér saman um hvernig bregðast skuli við málinu. Þar kæmi jafnvel til greina að forsætisráðherra yrði ekki einum eftirlátið að tala máli Íslands út á við, heldur ætti að skoða aðra kosti, t.d. hvort forsetinn myndi fylgja eftir vasklegri framgöngu sinni á vettvangi erlendra fjölmiðla með því að útskýra fyrir erlendu pressunni hvað úrslitin þýða. Núna þarf að horfa til þess að við setjum fólkið sem ræður við verkefnið á oddinn.
- Hröð en ekki óvænt stefnubreyting í málefnum hælisleitenda - 20. febrúar 2024
- Fjölmiðlaóð þjóð - 22. janúar 2021
- Skiljanleg en hættuleg ritskoðun tæknirisanna - 14. janúar 2021