Það er margt sem gerir Ísland einstakt og mikið af því er erfitt að uppgötva fyrr en flutt er til annars lands. Augljósu hlutirnir eins og myrku veturnir, björtu sumrin, hreina vatnið beint úr krananum, náttúrufegurðin og svo lengi mætti telja verða enn einstakari þegar þeir eru ekki innan handar í daglegu lífi. Í viðbót eru svo ótrúlegustu litlir hlutir sem eru svo sjálfsagðir að þeir uppgötvast ekki fyrr en úr fjarlægð.
Aftur á móti eru líka ýmsar bábiljur sem eru fastar í íslensku þjóðinni en enginn haldbær rök eru fyrir. Veðrið er svo slæmt að það er algjör fásinna að ganga, hjóla eða taka almenningssamgöngur. Jú, það er augljóst að almenningssamgangnakerfið virkar ekki sem skildi á höfuðborgarsvæðinu og þarfnast algjörrar endurskoðunar og skipulag borgarinnar hefur nánast frá upphafi snúist kringum bílinn en ekki fólk. En það sem greinahöfundur heldur að sé einnig mjög stór þáttur er hugarfarið. Fólksfjöldinn, eða réttara sagt, hversu fá við erum, verður auðvitað alltaf eitt það sem gerir okkur sérstök og þar af leiðandi ekki mögulegt að koma á jafn öflugum samgöngum og aðrar stærri evrópskar borgir geta státað af. Þó er margt sem við getum lagað, með því að byrja hægt og bítandi að breyta hugarfarinu í rétta hátt. Það eru til mun veðurbarðari borgir sem ekki eru undirlagðar einkabílnum.
En hvað er það sem gerir íslensku þjóðina sérstaka? Hinn skapandi hópur eða „The Creative Class“ eins Richard Florida, bandarískur prófessor og rithöfundur* talar um er eitt af því sem drífur borgir áfram. Kjarni hins skapandi hóps, verandi vísindamenn og verkfræðingar, prófessorar, ljóðskáld og rithöfundar, listamenn, skemmtikraftar, leikarar, hönnuðir, arkitektar og svo fram eftir götunum. Greinahöfundur er staddur við mastersnám í Þýskalandi, þar sem næstum 82 milljón manns búa og langflestum finnst þeim vera maurar og dreymir um að komast ofar. Eitt lifandi nærtækt dæmi er þegar einn kennarinn, í stað þess að halda fyrirlestur, setti á vídeó, úr sjónvarpinu, þar sem kennarinn sjálfur var í viðtali. Á Íslandi hefði þetta þótt vægast sagt púkalegt en í Þýskalandi þykir eðlilegt að hampa sjálfum þegar stigið er upp úr mauraþúfunni. Það sem mörgum Þjóðverjum þykir einmitt merkilegast við íslensku þjóðina er hin skapandi hugsun sem virðist búa í landanum og fór greinahöfundur að velta þessu fyrir sér um daginn eftir að tveir prófessorar höfðu orð á því í óspurðum fréttum, hversu skapandi þeim þætti Íslendingar vera. Aðeins þarf að gera einn léttan samanburð, það þekkja nánast allir í heiminum okkar frægustu söngkonu Björk, enda með sanni heimsfræg. Þegar leitað er að svipuðum kandídata innan raða Þjóðverja verður leitin löng, ströng og án árangurs.
Það sem gerir íslensku þjóðina einstaka er einmitt ógrynni af skapandi hugsun. Florida talar um að skapandi fólk þyrpist saman í borgir, og eru New York og San Francisco nefndar sem dæmi um skapandi miðpunkta í Bandaríkjunum. Að mati höfundar er Reykjavík mjög skapandi miðpunktur og með sköpunina að leiðarljósi talar Florida um að efnahagurinn fylgi. Með því að hlúa að þessum skapandi hópi og draga að fleiri úr öllum áttum, ætti að vera gott tækifæri fyrir Ísland að komast hraðar upp úr efnahagslægðinni. Íslendingar vita jú best, að lægðir koma og fara.
*http://www.creativeclass.com/
- Orðum fylgir ábyrgð - 22. apríl 2015
- The Pain of Paying - 9. febrúar 2015
- 105 er nýi 101 - 20. október 2014