Ein af ótrúlegustu fréttafyrirsögnum sem höfundur hefur séð á hinni virtu vefsíðu visir.is var hin háfleyga fyrirsögn „Evrópusambandið flengir Grikki“. Það er ekki oft sem visir.is kemur með neikvæðar tilkynningar um ESB og því vakti athygli hin harða áhersla á þá staðreynd að ESB tók hreint og beint ákvörðunarvaldið af einu af sambandsríki sínu.
Grikkland glímir við verulegan vanda. Eins og Írland, Spánn og Portúgal er landið ekki að koma vel út úr hinni sterku efnahagslægð sem geisað hefur. Er fjárlagahallinn um 13 % og er því 10 % hærri enn sá halli sem þau ríki sem eru meðlimir í EMU eiga að halda sér innan á hvert. Í raun er Grikkland ekki eina ríkið sem er með tveggja stafa halla á sínum fjárlögum, en Grikkland er eina landið sem er komið upp í 120% skuldsetningu af vergri landsframleiðslu.
Viðbrögð Evrópusambandsins eru söguleg. Í fyrsta sinn í sögu sambandsins er ákvörðunarréttur heillar þjóðar tekinn af henni og 26 erlend ríki setjast niður og ákveða neyðarpakka fyrir heilt hagkerfi án atkvæðisréttar þjóðarinnar. Þessi ríki hóta að grípa til 126 gr. Lissabon sáttmálans til að fyrirskipa grískum stjórnvöldum að skera niður næstu árin líkt og ESB leggur til. Er talað um það mikinn niðurskurð að halli fjárlaganna verði undir 3% á árinu 2012. Til að ná hallanum niður fyrir þessa tölu mun það kosta gífurlegan niðurskurð og skattahækkanir.
Langflestir sammælast um það að ástæða þessara harkalegu aðgerða er að viðhalda jafnvægi á evrusvæðinu. Grikkland á víst að hafa hulið raunverulegu skuldastöðu sína og eftir inngöngu í myntbandalagið hafa vextir verið of lágir. Skuldsetningin jókst stöðugt og má meðal annars rekja það til sterkrar stöðu evrunnar, en ríkisstjórn Grikklands gat aldrei almennilega brugðist við breyttum aðstæðum, til dæmis með hærri stýrivöxtum eða öðrum stýritækjum.
Efnahagsástandið hér á Íslandi er ekki ósvipað ástandinu í Grikklandi. Fjárlagahallinn verður um 19% af fjárlögum árið 2010 og hefur AGS útbúið áætlun um hvernig við náum hallanum niður fyrir velsæmandi mörk. Icesave-deilan er búin að lama stjórnkerfið nú í heilt ár og hefur komið í veg fyrir að stjórnmálahreyfingar hér á landi fari að vinna raunverulega að hag heimilanna og viðskiptalífsins.
Höfundur spyr sig hvort við Íslendingar hefðum fengið svipaða útreið frá Evrópusambandinu ef Ísland hefði verið hluti af sambandinu þegar hrunið gekk yfir? Og ef svo hefði verið, hefðum við haft eitthvað val hvernig væri best að komast úr stöðunni eða hefðum við þurft einfaldlega að hlýða stóra bróður?
Afleiðingar niðursveiflunnar á ríki Evrópusambandsins eru ekki komin hundrað prósent fram. Langflestar tölur gefa til kynna að hin unga mynt, €vran, sé ekki enn búin að festa sig nógu vel í sessi til að geta tekið fullkomlega á ástandinu. Hin ólíku efnahagskerfi innan myntbandalagsins eru enn of ólík til þess að geta sveiflast saman í takt við hinar mismunandi aðstæður landanna. Er því með aðgerðum ESB gagnvart Grikklandi ljóst að þegar hagsmunir stærri aðildarríkjanna eru í húfi þá er ekki mikil virðing borin fyrir minni aðildarríkjum.
Fyrir einstakling sem trúir því að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan sambandsins hefur áðurnefnd atburðarrás ekki aukið þá trú að von sé á miklum skilningi stærri ríkja innan sambandsins, fyrst að ESB er það ósvífið að traðka svo harkalega á þjóð sem telst sem smáþjóð innan sambandsins með „einungis“ 11 milljónir íbúa.
- Blygðunarkennd þjóðarinnar - 30. október 2010
- Mikilvægi frelsisins - 30. ágúst 2010
- Fyrningarleiðin frá sjónarhóli landkrabba - 29. apríl 2010