Árið 2008 samþykkti Alþingi ný lög um framhaldsskóla, markmið laganna er að hverfa frá samræmingarviðmiðum og miðstýringu, auka sjálfstæði skóla og gera nemendum kleyft að njóta aukins frelsis við val á námi sínu og þar af leiðandi gera það einstaklingsmiðað. Námsbrautarlýsingar verða í höndum skólanna sjálfra og er það von manna að námsframboð verði fjölbreyttara og muni jafnframt fylgja þjóðfélagsbreytingum. Þá er námi öðru en námi á svokölluðum bóknámsbrautum gert hærra undir höfði en áður tíðkaðist og í raun er námstíminn styttur, þar sem hann er hugsaður sem þrjú – þrjú og hálft ár.
Margt jákvætt er að finna í lögunum og felur það í sér allskyns breytingar sem löngu voru tímabærar, enda sú miðstýring sem einkennt hefur framhaldsskóla landsins löngu orðin þreytt. Í lögunum kemur fram að 1.ágúst 2011 skulu allir framhaldsskólar hafa tileinkað sér breytt fyrirkomulag, tveir skólar eru þegar mjög langt komnir og hafa verið í farabroddi við innleiðingu nýrrar námskrár, þetta eru Kvennaskólinn í Reykjavík og Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ. Skólarnir hafa sett upp námskrár sem eru í samræmi við hin nýju framhaldsskólalög og er hægt að kynna sér þær á vefsíðum skólanna.
En þó að lögin eigi að fela í sér aukið frelsi nemenda, einstaklingsmiðaðra nám og meiri fjölbreytni er nauðsynlegt að gleyma ekki til hvers framhaldsskólar eru hugsaðir. Hlutverk framhaldsskóla eru reyndar fjölbreytt, þeir eiga að stuðla að frekari þroska nemenda, efla færni og þekkingu á hinum ýmsu sviðum, undirbúa þá undir atvinnulífið, frekari nám, virka þátttöku í samfélaginu og svo mætti lengi telja. Hafa verður í huga að fólk stundar en nám í framhaldskólum af mismunandi ástæðum en þó að framhaldsskólinn sé stökkpallur í margar áttir verða þeir sem koma til með að semja námsbrautarlýsingar í hverjum skóla að gera sér grein fyrir mikilvægi hans sem undirbúning fyrir áframhaldandi nám á háskólastigi.
Háskóli Íslands hefur nú í þónokkur ár gagnrýnt þá þróun sem virðist eiga sér hjá nemendum, en því er haldið fram að færni nemenda í ýmsum grunngreinum fari síversnandi. Þeir eiga erfitt með að reikna einfalda stærðfræði, skilji litla sem enga fræðilega ensku og séu vart skrifandi á íslensku. Þó að engar rannsóknir sýni í raun fram á þessa þróun, má velta fyrir sér hvort hún birtist ekki í auknu brottfalli við skólann, þar sem nemendur ná ekki að fóta sig í skólanum og að fólk er almennt lengur að klára grunnnám við skólann en áður tíðkaðist. Þó að ekki sé hægt að kenna undirbúningi nemenda alfarið um þessa þróun, því margar aðrar breytur hafa áhrif, hlýtur hluti vandans að liggja að hluta til í því hversu vel eða illa nemendur koma undirbúnir upp úr framhaldsskólunum.
Það er því mikilvægt að framhaldsskólar landsins í samstarfi við æðri menntastofnanir sjái til þess að þeir nemendur sem stefna á háskólanám fá þann undirbúning sem er nauðsynlegur svo þeir komi vel undirbúnir í nám á háskólastigi. Háskólarnir og þá sérstaklega smærri einingar skólanna þyrftu því að gefa út hvað telst nauðsynlegur grunnur fyrir nám við tiltekna deild og jafnvel ekki látið staðar numið þar heldur einnig gefið út hvað telst æskilegur undirbúningur til viðbótar við nauðsynlega grunninn. Þá ættu nemendur að vera betur undirbúnir fyrir nám á háskólastigi.
- Hið pólitíska hlutleysi íþrótta - 11. júlí 2021
- Umræðan innan stafbila - 14. júní 2021
- Uppgjörið sem bíður enn… - 13. maí 2021