Kæru stúdentar,
Á dag og á morgun verður kosið um hverjir leiða hagsmunabaráttu stúdenta á næsta starfsári, og verður hægt að kjósa rafrænt í fyrsta skipti. Þetta heyrir til stórra tíðinda þar sem þetta þægilega fyrirkomulag mun vonandi auka kjörsókn til muna og færa okkur þannig öflugra og lýðræðislegra Stúdentaráð með stærri hóp stuðningsmanna á bak við sig.
Í ár eru þrjár fylkingar sem bjóða fram til Stúdentaráðs, Vaka, Röskva og Skrökva. Á meðan stór hluti baráttumála þessara fylkinga er sá sami eru nokkur veigamikil atriði sem greina á milli. Þar má helst nefna nálgun fylkinginganna á hvernig standa skuli að framkvæmd kosningaloforða og almennrar gæslu hagsmuna nemenda skólans. Á meðan fylkingarnar beita sér sem þrýstiöfl gagnvart skólayfirvöldum leggur Vaka áherslu á að vera þar að auki virkt framkvæmdaafl, sem grípur til aðgerða þegar þrýstingurinn einn og sér nægir ekki til þess að fá í gegn mikilvæg hagsmunamál.
Einnig er það trú Vöku að mestur árangur náist þegar kröftum Stúdentaráðs er ekki beint um víðan völl, Vaka vill einbeita sér að þeim málefnum sem snerta stúdenta beint í stað þess að dreifa athyglinni á pólitísk þrætuepli eða þjóðfélagsumræðu sem ekki kemur stúdentum beint við, auk þess sem Stúdentaráð ætti ekki sem lýðræðislegur samráðsvettvangur að mæla einum rómi fyrir hönd þess fjölbreytilega og innbyrðis ólíka samfélagshóps sem háskólanemar eru.
Á meðan mörgum gæti ekki staðið meira á sama um hver situr við stjórnvölinn í Stúdentaráði eða hvað fer þar fram, eru aðrir sem átta sig á því hvað það skiptir gríðarlegu miklu máli. Háskólasamfélagið er ekki lengur smátt í sniðum og fámennt, heldur telur það tæplega 15.000 manns, og hagsmunir þessa hóps eru í höndum fólksins sem mannar Stúdentaráð. Það er mikil ábyrgð sem sett er þeirra herðar, nánast ógnvekjandi mikil – en Vaka er hræðist hana ekki. Það hefur sýnt sig á síðastliðnu starfsári að þvert á móti þá eru Vökuliðar uppfullir af dirfsku og framkvæmdavilja, þeir láta ekki svartsýnishjal, neikvæðni eða rótgróna og harðneskjulega skrifræðisstjórnsýslu stöðva sig í að ná í gegn þeim hagsmunamálum sem skipta stúdenta mestu máli. Vaka lítur á slíkt sem yfirstíganlega þröskulda, það er enginn vandi án lausnar og neitandi svar kallar ekki á uppgjöf heldur ný úrræði, nýjar lausnir.
Í upphafi árs var okkur tilkynnt að sumarannir yrðu aldrei að veruleika, að engir peningar væru til og draumurinn um kennslu að sumri til væri töpuð barátta. En viti menn, með smávegis útreikningum og hugsun úr fyrir kassann fundum við glufu og tókum stjórnvöld á eigin bragði – bentum þeim á hagræði sem fylgir þessu fyrirkomulagi og bentum þeim á vænlegri leið til að drýgja sjóði ríkissjóðs, og draumurinn varð að veruleika! Þessi áfangasigur tvíefldi starfsgleði Stúdentaráðs undir stjórn Vöku og er skýrt dæmi um hvernig Stúdentaráð á að starfa – það á að vera öflugur, óhræddur og virkur vettvangur fyrir raunverulega hagsmunabaráttu stúdenta.
Síðastliðið ár var Vaka í meirihluta, og hóf árið uppfull af eldmóði og vilja til að keyra í gegn mál sem höfðu um árabil brunnið á fylkingarmönnum og ekki stóð á afrakstrinum – 20% hækkun námslána, niðurfelling vanefndaálags á skólagjöld, endurútgefin réttindaskrá stúdenta, áberandi sterk rödd stúdenta í þjóðfélagsumræðunni að ógleymdum rafrænum kosningum – sem er nú blásið til í fyrsta sinn. Það er eitthvað sem Stúdentaráð má vera stolt af, að gera sem flestum kleift að kjósa í þessum mikilvægu kosningum, svo að Stúdentaráð hafi raunverulega lýðræðislegt umboð til að starfa í nafni nemenda og geri það í þeirra trausti. Þennan eldmóð hefur hvergi nærri lægt, það er margt gott sem getur gerst á einu ári – en líka margt sem krefst lengri tíma og Vaka er tilbúin og gott betur til að leiða áfram meirihluta Stúdentaráðs undir sömu formerkjum, hugmyndaauðgi, hugrekki og framkvæmdagleði.
Oft var þörf, en nú er nauðsyn að stúdentar standi saman, það er dapurleg ný staða að háskólasamfélagið þurfi að heyja sífellda varnarbaráttu gegn niðurskurðarhnífum en þannig er staðan og Vaka er reiðbúin að vera málsvari allra nemenda, halda áfram kraftmiklu starfi sem er rétt að byrja. Ég hvet alla háskólanema að gefa sér fáein andartök í að kjósa, aðeins nokkrir smellir á Uglunni til þess að sýna þeim stuðning sem er að ykkar mati best treystandi til að leiða hagsmunabaráttu stúdenta á næstkomandi starfsári.
- Vil ég tortíma Reykjavík? - 19. maí 2010
- Vinsælasta stúlkan - 7. apríl 2010
- Bætur og bölsýni - 8. mars 2010