Stjórnvöld, taumhald, einokunarverslun, hækka verð, stýra neyslu. Orð sem að láta hárin rísa á hnökkum og handabökum víða, og öll stóðu þau í frétt sem birtist í gær á Eyjunni um niðurstöður starfshóps um áfengisstefnu stjórnvalda. Samkvæmt fréttinni vill hópurinn hækka verð á áfengi enn meir en orðið hefur með aukinni skattlagningu. Töluvert svigrúm sé til hækkunar miðað við vísitölu neysluverðs. Ennfremur að ekki skuli líta á skattlagninguna einungis sem tekjuöflun heldur einnig sem tæki til að stýra neyslu í samræmi við áfengisstefnu stjórnvalda.
Af einhverjum ástæðum virðist stefna stjórnvalda varðandi áfengi miðast við misnotkun áfengis og það böl sem henni fylgir fyrir einstaklinga, fjölskyldur og samfélag. Hér er alls ekki verið að gera lítið úr þeim mikla vanda sem alkóhólismi er. En þessari nálgun er hægt að jafna við það að stefna varðandi bíla myndi miðast við þann hóp sem lendi í bílslysum eða stefna varðandi mat miðist við þann hóp sem þjáist af átröskun. Í þessum ýktu dæmum þá væri til dæmis hægt að hækka álagningu á bíla upp úr öllu valdi til að reyna að takmarka fjölda þeirra á götunum. Og varðandi matinn þá væri hægt að selja þessar helstu lífsnauðsynlegu og næringarfræðilega samþykktu matvörur í verslunum en óhollar vörur ættu helst að vera það dýrar að fólk hafi ekki efni á að spilla líkamanum.
Það sorglega við þessa stefnu er hversu ólíklegt það er að aðgerð sem snýst um að hækka áfengisverð til að vinna gegn misnotkun, virki gagnvart þeim hópi sem helst misnotar áfengi. Starfshópurinn gefur sér að með auknum álögum sem “töluvert svigrúm” sé fyrir þá verði hægt að “ná taumhaldi á áfengisdrykku í landinu.” Ef fólk glímir við áfengissjúkdóm, sjúklega löngun í áfengi sem það ræður illa við, þá er líklegt að áfengiskaup verði sett í fyrsta sætið á undan öðru sem kaupa þarf inn til heimilisins. Það þarf önnur ráð en dýrara áfengi til að vinna bug á þeirra vanda.
Væri heimurinn betri ef að enginn drykki áfengi? Kannski. En það gæti reynst snúið að meta það með óyggjandi hætti. Virtur hjartalæknir í Bretlandi lagði til á dögunum að stjórnvöld myndu banna smjör með þeim rökum að þúsundir mannslífa myndu bjargast. Hver vill hafa þúsundir mannslífa á samviskunni? En hvar eru mörkin?
Áfengi er til staðar og því miður fylgja því miklar skuggahliðar. En það má ekki verða þannig að tilgangurinn helgi meðalið og stjórnvöld taki sér of mikið vald til neyslustýringar. Andstaða fólks við hugmyndir á borð við þær sem starfshópurinn talar fyrir snýst ekki um trú á óbeislað frelsi eða blindni gagnvart vandamálum sem fylgja misnotkun á áfengi. Hún snýst um þá grundvallarafstöðu að stjórnvöld eigi ekki að leitast við að stýra hegðun og neyslu fólks út frá því sem þau skilgreina sem óæskilegt eða óhollt. Einstaklingnum er betur til þess treystandi heldur en ríkinu.
- Vinnum upp mannfagnaði - 11. maí 2021
- Sameiginlegir hagsmunir - 6. apríl 2021
- Draumaverksmiðju-kryddið - 9. mars 2021