Nú þegar prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík, er lokið vakna upp margar spurningar hvað hafi valdið því að eins lítil endurnýjun hafi átti sér stað, eins og raun ber vitni. Úrslitin hljóta að vera mörgum Sjálfstæðismönnum mikil vonbrigði og því má velta fyrir sér hvort að breytinga sé þörf á því hvernig sé valið á lista Sjálfstæðisflokksins.
Úrslit prófkjörsins hafa eflaust ekki komið mörgum á óvart. Mjög lítil endurnýjun átti sér stað, en það voru einungis tveir einstaklingar af þeim sem lentu í tíu efstu sætunum sem hafa ekki verið viðloðandi borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili. Geir Sveinsson, sem lenti í sjötta sæti og Hildur Sverrisdóttir sem lenti í því níunda. Núverandi borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins röðuðu sér meðal annars í efstu fimm sætin og því má ætla að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins verði lítið breyttur eftir kosningar í vor.
En hvað er það sem veldur því að svona lítil endurnýjun átti sér stað? Er það virkilega svo að kjósendur Sjálfstæðisflokksins séu ánægðir með störf núverandi borgarfulltrúa að þeir hafi ákveðið að veita borgarfulltrúunum umboð á ný? Eru kjósendur Sjálfstæðisflokksins svona íhaldssamir og ragir við að gefa nýjum einstaklingum tækifæri? Er það kannski vöntun á frambærilegu fólki að bjóða sig fram? Eða er það kannski núverandi prófkjörsfyrirkomulag sem gerir nýliðun of erfiða?
Það eru eflaust allir þættir sem nefndir voru hér að ofan sem spila inn í. En það er þó erfitt að þræta fyrir það, að stærsti áhrifavaldurinn er eflaust prófkjörið sjálft. Bæði nú í prófkjörinu á laugardaginn og í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir alþingiskosningarnar í fyrra, var nánast engin endurnýjun þrátt fyrir að sitjandi fulltrúar hafi sætt töluverðri gagnrýni fyrir störf sín.
Þegar rýnt er í reglur prófkjörsins í Reykjavík þá stendur að kjósa þurfti níu frambjóðendur, hvorki fleiri né færri. Sú regla getur eflaust reynst nýliðum mjög erfið. Margir kjósendur mæta á kjörstað oftast með það að leiðarljósi að styðja einungis einn, tvo eða þrjá frambjóðendur. Þegar kjósendur eiga síðan að merkja við níu frambjóðendur í kjörklefanum verður að teljast líklegt að þeir merki við nöfn sem kunnugleg eru. Því er spurning hvort að með að fækka þeim fjölda sem kjósa þyrfti, myndi breyta einhverju og auðvelda nýliðun.
Þó að þetta sé einungis tilgáta, þá er að minnsta kosti ljóst að breytinga er þörf á því hvernig valið sé á lista Sjálfstæðisflokksins. Ekki getur talið ásættanlegt að jafn lítil endurnýjun eigi sér stað ár eftir ár. Tryggja þarf að allir frambjóðendur eigi jafna möguleiki til að komast áfram og að endurnýjun sé að minnsta kosti eitthvað sem er mögulegt.
- Vanhugsuð friðun - 10. janúar 2012
- Obama náði Osama - 5. maí 2011
- Stjórnlagaþingsklúður - 29. nóvember 2010