Nú í vikunni riðu hræðilegar náttúruhamfarir yfir Haítí þar sem óttast er að allt að 100.000 manns hafi látist og enn fleiri særst. Þetta fátæka ríki, sem á sér skelfilega sögu blóðsúthellinga og fátæktar, með ónýtar innri stoðir samfélagsins, gat með engu móti tekist á við þetta áfall upp á eigin spýtur. Umheimurinn virðist heldur ekki ætla að láta þá standa eina og hafa hjálpargögn og aðstoð streymt að alla vikuna. Eins og flestir vita var íslenska rústabjörgunarsveitin fyrst allra ríkja á vettvang og hefur það vakið athygli erlendra fjölmiðla.
Þessi erlenda fjölmiðlathygli hefur þó með einhverjum óskiljanlegum hætti vakið upp reiði ýmissa víðsýna neo-alþjóðasinna. Þessi tegund alþjóðasinna telur það iðulega vera hlutverk sitt að koma íslenskum almenningi í skilning um að í raun sé framlag okkar í öllum myndum svo ótrúlega smátt hlutfallslega. Án efa eru greinar þeirra þegar tilbúnar til að útskýra fyrir Íslendingum hvað handbolti sé lítil íþrótt í alþjóðlegu samhengi ef okkur skyldi nú ganga vel á EM.
Þessi hópur fer nú um fullur vandlætingar um að það sé ekki einasta ósmekklegt að vera stolt yfir að hafa íslenskar hjálparsveitir á Haítí heldur séu endursagnir úr erlendum fjölmiðlum sem hafa haft mikinn áhuga á íslensku sveitinni ósiðlegar. Því það er jafnvel sjálfsagt framhald náttúruhamfara í annarri heimsálfu að íslenskir björgunarsveitarmenn hætti lífi sínu og heilsu. Eða eins og skrifað er svo ósmekklega á einum netmiðlinum að það sé „tiltölulega auðvelt fyrir svona lítið samfélag að hóa saman mannskap og koma honum upp í flugvél“.
Allir meðlimir björgunarsveitanna eru sjálfboðaliðar. Þeir eru venjulegt fólk eins og við, með vinnu og afborganir. Með ótrúlegum hætti hefur íslenska björgunarsveitin alltaf getað mannað þessa ómissandi einingu og hefur bjargað fleiri mannslífum en tala er á. Þeir fara í gegnum erfiðar æfingar og í frítíma sínum selja þeir okkur flugelda og neyðarkallinn til að geta fjármagnað tækjabúnaðinn sem er svo notaður til að bjarga fólki þegar á þarf að halda.
Rústabjörgunarsveitin sem fór frá Íslandi er sérhæfð sveit, sérþjálfuð og hefur á að skipa mönnum með víðtæka þekkingu, líkt og verkfræðingar og læknar. Hún fékk alþjóðlega viðurkenningu í fyrra og innan hennar raða er okkar færasta fólk í þessum efnum.
Þegar fréttir af jarðskjálftanum bárust til landsins gaf utanríkisráðherra landsins sveitinni leyfi til að fara utan til að bjarga þeim sem lentu undir rústunum. Þessi hópur íslenskra sjálfboðaliða var fyrsta erlenda hjálparsveitin sem kom á staðinn, þrátt fyrir fjarlægðina og í raun engin tengsl milli ríkjanna tveggja. Eftir svona hamfarir skiptir tíminn öllu máli þegar reynt er að bjarga lífi þeirra sem eru særðir eða fastir í rústunum. Sleitulaust hefur sveitin unnið og bjargað mannslífum í ótrúlega erfiðum aðstæðum og leggja líf sitt og limi í hættu á meðan.
Þjóðremba er að sjálfsögðu ekki til eftirbreytni, en að mega ekki finna til stolts þegar íslenskir sjálfboðaliðar vinna svo óeigingjarnt starf til að hjálpa fólki í ólýsanlega erfiðum aðstæðum er hreint fáránlegt. Það eru einstaklingar á lífi núna sem ella væru látnir vegna þess að sveitin var svo skjót á vettvang og svo vel mönnuð. Þó svo að slíkar dáðir séu nokkrum víðsýnum alþjóðasinnunum lítils virði í hinu stóra samhengi, hlýtur hinn almenni borgari finna til virkilegs stolts að Ísland hafi getað komið til hjálpar með svo glæsilegum hætti þegar neyðin var mest.
- Það rignir góðum fréttum - 9. júlí 2021
- Álhattaveislan verður aldrei haldin - 5. júní 2021
- Sköpum 7.000 störf - 27. mars 2021