Nú þegar vel er liðið á janúarmánuð eru flestir búnir að fá smávegis veruleikaspark í rassinn og eru dottnir aftur inn í hversdagslega rútínu skammdegisins. Þó eimir kannski enn af hátíðleika jólanna og notalegheitunum sem fylgja hátíðarhaldinu. Á þeim tíma fjölgar samverustundum með fjölskyldu og vinum sem kalla fram bestu hliðar fólks og kærleikurinn fær að ríkja, þó ekki sé nema í stutta stund. Það er ekki annað hægt en að hafa dálæti á þeim tíma árs, þar sem öll þau gildi sem samkvæmt bókinni skipta mestu máli fá það vægi sem þau raunverulega eiga skilið.
Yfir jól og áramót heyrir maður fjöldann allan af hugvekjum og ræðum sem flestar eiga það sameiginlegt að minna mann á nákvæmlega þessi gildi; kærleikann, óeigingirnina og friðinn. Það síðastnefnda er hugtak sem erfitt er að skilgreina fyllilega, eða ná utan um. Það eru sennilega fá orð sem er hent fram í jafn miklum mæli til að skapa jákvæð hughrif og öryggistilfinningu. Allir geta verið sammála um að friður er eftirsóknarverður, eitthvað verðmætt og jákvætt. Markmið sem er þess virði að færa fórnir og berjast fyrir. Sannanlega er það rétt þegar kemur að manninum og hans sálarlífi, óteljandi hugleiðslu- og jóganámskeið hafa inrætt mér mikilvægi þess að hafa hemil á átökum sálarinnar og reyna að beisla óróleikann sem býr í hjörtum okkar mannanna.
En í þeirri innri baráttu er ekkert mannfall, því fylgir engin eyðilegging að skapa friðsæla sál og enginn frekari stríðskostnaður fellur til í baráttu okkar við eigið sálarlíf. Hare krishna og om shanti krefjast engra blóðsúthellinga. En því er ekki á sama veg farið með ytri stríð, þau stríð sem menn herja sín á milli og þjóðir hver við aðra. Óteljandi illskuverk og ódæði hafa verið drýgð í skjóli þess æðra markmiðs sem við köllum frið.
Barack Obama tók við friðarverðlaunum Nóbels á dögunum og sagði við það tilefni að stríð væri í sumum tilfellum ekki aðeins réttlætanlegt heldur nauðsynlegt. Það er fulljóst að í samskiptum manna verður ekki komist hjá átökum, og stríð hafa geysað frá því að mennirnir byrjuðu að ganga um lönd jarðar. Árekstrar eru hluti af lífinu. Við berjumst fyrir mismunandi hagsmunum og ekki verður komist hjá því að einhvern tímann rekist barátta eins manns við annan. En sá kjarni og frumástæða átaka veitir takmarkaða skýringu eða ástæðu fyrir þeim hrottalegu stríðum, mannfalli og harmleikjum sem hafa átt sér stað í gegnum tíðina.
Það er auðvelt að verðmerkja líf fólks með friði, olíauðlindum eða landspildu sérstaklega ef það er gert með yfirvarpi á borð við trúarsannfæringu eða þjóðarstolt. Obama sagði enn fremur að markmiðið væri ekki aðeins að berjast fyrir friði, heldur einnig réttlæti því að aðeins réttlátur friður gæti verið varanlegur. Þar hitti kallinn naglann á höfuðið, eins og oft áður (stórkostlegra sándbæt hef ég ekki heyrt í langan tíma). Þetta er einfaldlega hárrétt hjá honum, og mýkir jarðveginn fyrir umdeildasta punktinn í sömu ræðu, að stundum þurfi að beita hervaldi til að stuðla að friði og öryggi í heiminum.
Þegar tekið er mið af þeim apaköttum og villimönnum sem náð hafa völdum sums staðar í heiminum og stjórnað þjóðum sínum með ægivaldi getur maður skilið hvað Obama á við, það þarf stundum harkalegt meðal til að helga tilganginn. Ídelistískar hugmyndir um alheimsfrið fyrir hvert mannsbarn eru því miður ekki raunhæfar. Ég held að eina krafan sem við getum raunverulega gert gagnvart stríðsrekstri sé að hann sé að minnsta kosti háður í hlutfalli við það markmið sem barist er fyrir.
Það verður alltaf, og það er ófrávíkjanlegt skilyrði í mínum huga, að berjast fyrir hagsmunum þegnanna, ekki stjórnvalda. Fyrir hagsmunum borgaranna – þeirra sem leggja til mannafla og taka á sig raunverulegan fórnarkostnað stríðsástands, ástvinamissi, óöryggi og á tíðum örbirgð.
Í jólaávarpi sínu sá ástkær Englandsdrottning ástæðu til að minnast á sama málefni. Hún þakkaði þjóðinni fyrir að leggja sitt af mörkum til stríðsrekstrar í Írak, og sagði að fórnir ,,hermanna hennar” væru ómetanlegar. Fyrir þjóð sem er blessunarlega frjáls undan konungsvaldi er ef til vill erfitt að skilja þá hughreystingu að Drottningin sjálf vísi til sona, bræðra og eiginmanna bresku þjóðarinnar sem ,,sinna manna”, en það er víst huggun harmi gegn hjá sumum.
Ég ætla ekki að tjá mig um stríðsrekstur Bandaríkjamanna í Írak, þó að hátíðarnar séu samt sem áður sérlega heppilegur tími til að velta fyrir sér hugmyndinni um frið. Ísraelskur vinur minn sagði eitt sinn að við Íslendingar, (algjörir grænjaxlar þegar kemur að stríðsþáttöku, þorskastríð telst ekki til almennilegra átaka) ættum að skella okkur í almennilegt stríð ef við vildum auka samkenndina og þjóðarstoltið.
Það er ekkert sem þjappar saman íbúum og eflir þjóðerniskennd eins og þátttaka í orrustu að hans mati. Blóðlykt í loftinu og sífelldur ótti er eins og undralyf fyrir þjóðaranda hvaða lands sem er. Ég tek þessari hæðni hans sem ágætis stílbragði og þakka fyrir að litla skerið okkar í norður Atlantshafi hafi nokkurn veginn fengið að vera í friði, en get ekki varist þeirri hugsun að deilur síðastliðinna missera um Icesave og stjórnarhættina sem hér hafa ríkt hafi óneitanlega þjappað þjóðinni saman.
Meðal stórra hópa hefur ríkt áður sjaldséð eining og samstaða. Það er heldur dapurleg tilhugsun að við séum svo frumstæð að efnahagshrun þurfi til að við getum staðið saman. Friðsama eyjan í útnára alheims. Um leið og við þökkum fyrir milliþjóðafriðinn sem hér hefur ríkt, ættum við einnig að leiða hugann að því hvernig við getum stuðlað að hinum ,,réttláta friði” Obama innan okkar eigin landhelgi. Það stuðlar nefnilega hvorki að friði né réttlæti að skattpína hvert annað, stunda tengslaráðningar eða hneppa þjóðina í skuldaánauð sem hún kemst ekki út úr. Það er þá allavega fjári skammvinnur og óréttlátur friður.
- Vil ég tortíma Reykjavík? - 19. maí 2010
- Vinsælasta stúlkan - 7. apríl 2010
- Bætur og bölsýni - 8. mars 2010