Á miðvikudaginn samþykkti öldungadeild Bandaríkjaþings frumvarp um stórkostlega auknar hömlur á fjárframlög til stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka. Hin nýju lög banna hin svokölluðu „mjúku framlög” sem engar reglur hafa hingað til gilt um. Í síðustu forsetakosningum í Bandaríkjunum námu slík framlög 500 milljónum bandaríkjadala. Hér er um lang viðamestu breytingar á löggjöf um fjármögnun stjórnmálaflokka í Bandaríkjunum í aldarfjórðung.
Á Íslandi eigum við oft til að gera grín að þeim farsa sem bandarísk stjórnmál eru. Slíkt grín er vitaskuld ekki að öllu leyti úr lausu lofti gripið. Bandarísk stjórnmál eru á margan hátt afskaplega farsakennd. Oft finnst manni með ólíkindum að þau skuli vikum saman snúast um munnmök forsetans og annað í þeim dúr.
Þegar kemur að reglum um fjármál stjórnmálaflokka eru það hins vegar ekki bandarísk stjórnmál sem eru farsakennd heldur íslensk stjórnmál. Það er hreinlega með ólíkindum að hér á landi skuli ekki gilda neinar reglur um framlög til stjórnmálaflokka. Flokkunum er ekki einu sinni gert að opinbera fjárreiður sínar.
Rökin gegn reglum sem takmarka framlög til stjórnmálaflokka eru í stórum dráttum frelsisrök. Andstæðingar slíkra reglna telja að einstaklingar eigi að hafa frelsi til þess að ráðstafa eignum sinum að vild og koma skoðunum sínum á framfæri án hafta.
Bestu rökin fyrir slíkum takmörkunum eru hins vegar hagkvæmnirök. Eins og George Stigler, professor í hagfræði við Chicago háskóla, bennti á í frægri grein leiðir óheft hagsmunapólitík til óhagkvæmrar niðurstöðu þar sem ójafnvægi skapast milli fárra stórra aðila sem eiga hver um sig mikilla hagsmuna að gæta og margra lítilla aðila sem hver um sig á minni hagsmuna að gæta. Stóru aðilarnir eiga mun auðveldara með að stofna þrýstihópa og hafa áhrif á stjórnvöld en litlu aðilarnir. Þetta leiðir til þess að hagsmunasamtök neytenda og skattgreiðenda eru mun veikari en þau ættu að vera á meðan hagsmunasamtök grænmetisbænda og stórútgerða eru mun sterkari en hagkvæmt væri.
Í þessu máli er því ljóst að frelsi og hagsæld fara ekki saman. Frjálshyggjufólk ætti að hafa þetta í huga þegar það tekur afstöðu til þessa máls. Það er eitt að vera frjálshyggjumaður þegar frelsi og hagsæld fara saman. Það er annað að vera frjálshyggjumaður þegar frelsi og hagsæld stangast á.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009