Nú fer að öllum líkindum að styttast í að endanleg ákvörðun verður tekin varðandi byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Heitar umræður hafa spunnist um það í þjóðfélaginu hvort bygging virkjunarinnar sé skynsamleg og sýnist sitt hverjum. Því miður er nánast ógjörningur fyrir leikmenn að taka upplýsta afstöðu um málið, að svo stöddu, þar sem litlar sem engar upplýsingar um arðsemi virkjunarinnar hafa verið gerðar opinberar af hálfu Landsvirkjunar.
Þó svo umræðunni hafi hingað til ekki verið stillt þannig upp þá snýst þetta mál um verðmat á því náttúruraski sem af virkjuninni og álverinu hlýst. Þeir sem eru andvígir virkjuninni eru í rauninni að segja að þeir meti svæðið sem fer undir vatn meira en sem nemur ábatanum sem hlýst af því að nýta það við virkunina. Hinir sem eru hlyntir virkuninni telja að ábatinn sé meiri en verðmæti þeirrar náttúru sem raskast. Rétt er að geta þess að þegar talað er um verðmæti náttúrunnar í þessu sambandi er ekki einungis átt við þær tekjur sem unnt er að hafa af náttúrunni í gegnum ferðaþjónustu og annað heldur einnig tilfinningalegt gildi náttúrunnar í augum þjóðarinnar.
Þegar málinu er stillt upp með þessum hætti er ljóst að eðlilegast væri að löggjafinn tæki beint afstöðu til þess hversu mikils virði náttúran sem raskast er. Búast mætti við miklum deilum um slíkt verðmat. Það er hins vegar kjarni málsins. Þegar það hefur verið ákveðið er eftirleikurinn auðveldur af hálfu ríkisins: Virkanaleyfið ætti einfaldlega að kosta verðmatið (eða meira ef fleiri en einn hafa áhuga á því verði).
Reyndar er þetta ekka alveg svona einfalt. Til þess að tryggt sé að arðsemissjónarmið ráði ákvörðunum um virkjun væri nauðsynlegt að einkavæða Landsvirkun. Annars er viðbúið að byggðasjónarmið ráði að einhverju leyti ferðinni.
Sunnudaginn 28. júlí var opnu viðtal í Morgunblaðinu við Friðrik Sophusson forstjóra Landsvirkjunar. Í viðtalinu er Friðrik meðal annars spurður hvort verðmæti landsins sem fer undir Kárahnjúkavirkjun hafi verið tekið með þegar arðsemi virkjunarinnar var reiknað út. Þessu svarar Friðrik á eftirfarandi hátt: „Landsvirkjun greiðir að sjálfsögðu fyrir vatnsréttindi, önnur eignarréttindi og bætur til landeigenda, eins og tíðkast hefur hér á landi. Verðmætamat á landinu, sem fer undir vatn, með tilliti til þess hvort nota eigi það til annars, hefur hins vegar ekki átt sér stað.”
Af þessu er ljóst að í arðsemisútreikingum Landsvirkjunar er landið sem raskast metið á því sem næst ekki neitt. Annars staðar í viðtalinu segir Friðrik að miðað við útreikinga Landsvirkjunar verður arðsemi virkjunarinnar 12-14% sem Landsvirkjun og Sumitomo-bankinn telja „mjög eðlileg[a]”.
Ef ákvarðanaferlið varðandi þessa virkun hefði verið eins og lýst er hér að ofan er afar líklegt að fáir hefðu sæst á að náttúran sem raskast sé einskis virði. Líklega hefði verðmatið numið milljörðum. En þá væri líka arðsemi virkjunarinnar, að öðru óbreyttu, nokkru lægri, og ef til vill óeðlilega lág.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009