Af einhverjum ástæðum virðist persóna Davíðs Oddssonar kalla fram ýmist barnslega aðdáun eða hamslaust hatur hjá töluverðum hluta þjóðarinnar. Aðdáendur hans virðast vart ráða sér af bræði jafnvel þegar fullkomlega eðlileg gagnýni kemur fram á störf hans eða nokkuð sem honum tengist (sjá t.a.m. blogg Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar og Skapta Harðarsonar). Aðrir (svo sem Jóhann Hauksson hjá DV og Jónas Kristjánsson fyrrum ritstjóri) virðast hins vegar svo blindaðir af óbeit út í Davíð að það er nánast sama hvaða óláni þjóðin verður fyrir – það er allt rakið beint til Davíðs. Báðir þessir hópar virðast telja að Davíð Oddsson sé svo óvenjulegur maður að nánast allt sem gerist á Íslandi umhverfist algjörlega um hann, vini hans eða óvini.
Áhrif Davíðs Oddssonar á íslensk stjórnmál frá árinu 1982 eru óviðjafnanleg og verða að líkindum aldrei leikin eftir. En það breytir því ekki að hann er samt sem áður maður af holdi og blóði. Með allri þeirri ábyrgð sem hann hefur borið í gegnum tíðina hefur hann þurft að taka fjöldann allan af ákvörðunum sem eru ýmist réttar eða rangar. Það er auðvitað tóm vitleysa að halda að um þennan eina mann gildi það lögmál að hann geti ýmist ekkert gert rangt – eða ekkert rétt.
Því er sérstaklega haldið á lofti af hörðustu aðdáendum hans að Davíð Oddsson hafi verið eini maðurinn sem „varaði við bankahruninu“ og jafnframt er því haldið fram að ákvarðanir sem hann bar ábyrgð á sem seðlabankastjóri um að taka veð í skuldabréfum frá bönkunum hafi ekki verið rangar. Þessar tvær fullyrðingar geta ekki staðið saman án þess að álykta sem svo að gerð hafi verið mistök. Hvernig fer það saman að hafa þungar áhyggjur af stöðu bankanna en telja jafnframt áhættunnar virði að taka veð í skuldabréfum þeirra?
Það er auðvelt eftirá, þegar allt liggur ljóst fyrir, að gagnrýna ákvarðanir sem teknar eru undir miklu álagi við óvenjulegar aðstæður. Það að neita að horfast í augu við að jafnvel átrúnaðargoð manns geti gert mistök er þó enn meiri barnaskapur.
Það er rétt að Davíð lýsti nokkrum sinnum opinberlega áhyggjum sínum af ofvexti íslensku bankanna. Það er reyndar ekkert sérstakt afrek að hann hafi komist að þeirri niðurstöðu. Jafnvel þeir sem lásu engar fréttir aðrar heldur en skopmyndir Halldórs Baldurssonar vissu að minnsta kosti ári fyrir bankahrun að eitthvað ömurlegt gat gerst og að ójafnvægið í hagkerfinu væri mikið. Hvað skyldi þá sagt um mann af kaliberi Davíðs Oddssonar sem hafði aðgang að öllum mögulegum gögnum og upplýsingum. Það hefði í raun verið algjörlega ótrúlegt ef hann hefði ekki haft áhyggjur af stöðunni.
Það var hins vegar mat flestra að ekkert væri unnið með því að básúna þessar áhyggjur opinberlega. Staðan var einfaldlega þannig að allar efasemdir um heilsu bankakerfisins hefðu getað hrundið af stað atburðarás sem allir vonuðu að hægt yrði að komast hjá. Hvort einhver raunhæf von var til þess eftir Íslandskrísuna 2006 er erfitt að segja um í dag – en það var að minnsta kosti markmiðið – að reyna stöðugt að lengja í hengingaról bankanna í þeirri von að hún myndi á endanum ná allra leið niður í gólf. Þetta tókst ekki.
Eitt af því sem hefði líklega verið gagnlegt á þeim tíma hefði verið raunverulegt traust milli Seðlabankans og atvinnulífsins. Því var hins vegar ekki til að dreifa. Margir forsvarsmenn í atvinnulífinu treystu Davíð illa og álit hans á ýmsum þeim sem umsvifamestir voru í viðskiptalífinu er vel kunn. Það voru mistök að ráða Davíð Oddsson sem seðlabankastjóra, meðal annars af þessari ástæðu.
Á Íslandi hafa rammpólitískar stöðuveitingar í ýmis há embætti lengi tíðkast. Þar á meðal í stöður sendiherra og að sjálfsögðu í Seðlabanka Íslands. Margir sjálfstæðismenn töldu þar af leiðandi það vera skyldu sína að halda áfram að verja Davíð Oddsson eftir að hann varð seðlabankastjóri af sömu ákefð eins og þeir vörðu hann þegar hann tók þátt í stjórnmálum. Mér varð oft hugsað til þess hvernig hefði verið brugðist við því ef það hefði verið Jón Baldvin Hannibalsson, Össur Skarphéðinsson eða Ólafur Ragnar Grímsson sem hefðu verið gerðir að seðlabankastjóra – hefðu þá ekki allir Sjálfstæðismenn verið fullir efasemda? Hefði ekki málflutningur margra umpólast fullkomlega miðað við það sem þeir halda fram nú? Og er það ekki furðulegt að umræða um störf tiltekins embættismanns einkennist ýmist af persónulegri hollustu (sem var eðlilegt að gera kröfu um þegar Davíð var formaður stjórnmálalflokks) eða takmarkalausri óbeit og hefnigirni (eins og einkenndi hegðun vinstri flokkanna í hans garð).
Farsæll ferill einstaklings á einu sviði er ekki endilega vísbending um sambærilega hæfileika á öðrum sviðum. Það dettur til dæmis fáum í hug að Ásgeir Sigurvinsson hefði sjálfkrafa talist sérstaklega hæfur í starf forstjóra Íslandspósts af því hann var svo góður að senda bolta á knattspyrnuvellinum. Hið sama gildir – og jafnvel í meiri mæli – um stjórnmálamenn. Áratugabarátta í stjórnmálum kennir mönnum áreiðanlega ýmislegt sem getur orðið að miklu gagni á öðrum vettvangi. Víða kann slík reynsla og fortíð þó að vera frekar til trafala. Væri ekki nær að viðurkenna þá staðreynd í stað þess að halda áfram að slást um þá hugmynd að Davíð Oddsson sé annað hvort algjörlega óskeikull eða hinn fullkomni skussi?
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021