Í hvert sinn sem ég verð vör við lögregluna athuga ég ósjálfrátt hvort ég sé ekki örugglega að fylgja öllum lögum og reglum. Ég hugsa að þetta hafi byrjað þegar lögreglan heimsótti bekkinn minn í einum af yngstu bekkjum grunnskólans. Einkennisklæddir lögreglumenn mættu í tímann og fóru yfir reglur sem okkur bar að fylgja og vöruðu okkur við stóralvarlegum afleiðingum þess að fylgja ekki lögum. Ég gleypti hvert orð og sannfærðist um að fylgja yrði fyrirmæla lögreglunnar, því annars gæti maður lent í steininum.
Væntanlega hafa margir fengið heimsókn frá lögreglunni á sínum yngri skólaárum og trúað því staðfast að þeim bæri að fylgja eftir fyrirmælum hennar. Með aldrinum virðast þó sumir hafa misst þessa trú á lögreglunni. Þetta sást hvað best í mótmælunum í fyrra, en þótt flestir hafi fylgt lögum og reglum voru nokkrir sem tóku upp á því að ráðast á lögregluna, og einn gekk svo langt að kasta hellu í höfuðið á lögreglumanni. Um svipað leyti fór hópur manna að mótmæla handtöku manns fyrir utan lögreglustöðina í Reykjavík. Almenningur var farin að efast um réttmæti athafna lögreglunnar, og hann var ekki einn um það því einn þingmaður gekk svo langt að gefa það í skyn að lögreglan væri í hefndarhug í störfum sínum.
Eins alvarlegt og það er að almenningur treystir ekki lögreglunni, er enn verra þegar þingmenn gefa það í skyn að lögreglan starfi eftir geðþótta en ekki lögum. Þegar þingmenn tala með þetta óvarfærnum hætti, getur orðið ákaflega erfitt fyrir lögregluna að fylgja eftir lögum sem þingmenn hafa sett. Lögreglan er stjórnvald og þarf því að fylgja reglum sem settar eru til þess að vernda hinn almenna borgara í samskiptum sínum við stjórnvöld. Ein þessa reglna er meðalhófsreglan, sem felur það í sér að lögreglan má aldrei ganga lengra í störfum sínum en nauðsyn krefur til þess að ná fram tilteknu markmiði sem byggist á hlutlausu mati á aðstæðum og hagsmunum. Lögreglan verður að gæta hófs í valdbeitingu sinni og viðurlög liggja við broti á því. Ef lögreglan hefði í raun verið í hefndarhug og gengið lengra en nauðsyn krefði, hefði mátt höfða mál vegna þess fyrir dómstólum. Þegar lögreglan gefur fyrirmæli í málum innan síns valdsviðs geta hvorki almenningur né einstaka þingmenn ráðið því hvenær fylgja ber fyrirmælunum eftir og hvenær ekki.
Fyrir utan virðingarleysið sem fólst í orðum umrædds þingmanns í garð manna sem gættu hennar og starfsfélaga hennar dag eftir dag meðan vegið var að þeim bæði líkamlega og andlega, verður að teljast undarlegt að þingmaður geti með hreinni samvisku látið svona út úr sér. Í viðtali á Visi sagðist þingmaðurinn ekki hafa gefið upp stjórnarskrárvarinn rétt sinn til tjáningarfrelsis þegar hún settist á þing og neitaði með þeim hætti að draga orð sín tilbaka. Tek ég undir með henni, þingmenn njóta tjáningarfrelsis sem og aðrir í þessu landi. Aftur á móti má setja spurningarmerki við trúverðugleika hennar sem þingmanns, og nú ráðherra ef hún telur að lögreglan sé í hefndarhug í löggæslustörfum sínum.
Með lögum skal land byggja en með ólögum eyða.
- Hvað verður um Evrópusambandið? - 10. desember 2011
- 540 daga stjórnarkreppa á enda – bara efnahagskreppan eftir - 3. desember 2011
- Vald án ábyrgðar - 20. apríl 2011