Eitt af stóru vandamálunum sem blöstu við eftir að bankarnir hrundu var hvernig ætti að leysa uppgjör vegna Icesave-reikninganna. Landsbankinn safnaði miklu fé inn á þessa reikninga árin 2006-8, eins og raunar Kaupþing og Glitnir gerðu á sambærilegum reikningum hjá sér þótt í minna mæli væri. Þar sem stjórn Landsbankans hafði ekki komið þessari starfsemi í dótturfélög og þar með undir breska og hollenska ábyrgð, ólíkt bæði Glitni og Kaupþingi, sat íslenska ríkið uppi með þann svartapétur að gera málið upp.
Ísland hafði lítil tök á þeirri atburðarrás sem við tók dagana eftir hrun Landsbankans. Vegna taugatitrings á fjármálamörkuðum um allan heim var reynt að leysa málið sem fyrst og fljótlega tóku bresk og hollensk stjórnvöld ákvörðun um að bæta reikningana að fullu með því að veita íslenska tryggingarsjóðnum lán. Í kjölfarið var því sjónarmiði lýst við íslensk stjórnvöld að yrði skuldin ekki greidd upp á myndarlegum vaxtakjörum fengjum við enga frekari aðstoð. Jafnvel var ýjað að því að EES-samningurinn yrði settur í uppnám ef íslensk stjórnvöld sýndu ekki auðmýkt í þessu máli. Þessi afgreiðsla málsins var ekki ósvipuð því sem íslenskir skuldarar lenda stundum í, að bankinn ákveður einhliða að greiða inn á skuldir með því að opna yfirdráttarreikning á himinháum vöxtum og taka út fyrir skuldinni.
Úr þessari erfiðu stöðu höfum við þurft að vinna. Því miður hefur árangurinn verið lítill og ekki er hægt að segja að baráttugleði eða taktísk hugsun hafi einkennt viðbrögð stjórnvalda í málinu. Heima fyrir hafa myndast tveir pólar; annars vegar þeirra sem telja málið ekkert koma okkur við og hins vegar þeirra sem telja að við verðum að ganga að öllum kröfum Breta í málinu.
Því miður hefur lítið farið fyrir því sjónarmiði að afla þurfi málsstað Íslands aukins fylgis meðal þjóða heims. Þvert á móti eru það sjálfstæð rök stuðningsmanna ríkisábyrgðar í málinu að sjónarmið Íslendinga njóti svo lítils skilnings úti í heimi að ekkert sé hægt að gera frekar í málinu. Svo má vel vera, en ástæða þess er auðvitað sú að hollenskir og breskir embættis- og stjórnmálamenn hafa unnið heimavinnuna sína og sagt öllum þeim sem heyra vilja að Icesave-málið snúist um hvort Íslendingar komist upp með að greiða til baka þá peninga sem Landsbankinn hafði af breskum og hollenskum sparifjáreigendum. Á meðan hefur rödd Íslands verið þögul og hjáróma og okkar hlið málsins hefur ekki náð í gegn. Hvers vegna hefur ekki verið sett upp skipulögð fundarherferð um alla Evrópu þar sem stjórnmálamönnum, embættismönnum og fjölmiðlum er gerð grein fyrir okkar hlið málsins? Hvar eru harðorðu blaðagreinarnar um þær byrðar sem Icesave-samkomulagið kann að setja á íslensku þjóðina, hvernig hryðjuverkalögum var beitt gegn okkur, hvernig aðstoð og liðsinni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var skilyrt við það að gengið yrði að kröfum Breta og Hollendinga? Hvers vegna er ekki á það bent að óháð því hvernig heimtur verða af útlánasafni Landsbankans munu breska og hollenska ríkið hagnast um hundruði milljarða króna á samningstímanum vegna vaxtamunar?
Þetta eru atriði sem verður að horfast í augu við. Með því að kynna okkar málsstað og vinna honum fylgis er möguleiki á að opna málið að nýju. Okkar bestu hagsmunir í málinu væru að fá þriðja aðila til að miðla málum og gera nýtt samkomulag ellegar að fá að leggja málið í dóm og fá niðurstöðu í því máli. Þetta myndi án efa styrkja stöðu okkar og gera niðurstöðuna betri þótt ástæðulaust sé að gera sér þær væntingar að skuldbindingar okkar yrðu úr sögunni með þessum hætti en hún yrði hagfelldari.
Það verður ekki framhjá því litið í málinu að íslenska ríkið tók á sig ýmsar skuldbindingar varðandi innistæðuvernd sem ekki verður hlaupið frá svo glatt. Þar á meðal er yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um vernd innistæðna hér á landi en óvíst er að slík afmörkun standist bann EES-samningsins við mismunun eftir þjóðerni. Að sama skapi innleiddi Alþingi ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins um innistæðuvernd fyrst með lögum árið 1996 og síðar með lögum frá 1999 og var þar gert ráð fyrir því að innistæðutryggingarsjóðurinn myndi þurfa að bæta innistæðueigendum tjón sitt upp að 20.887 evrum, jafnvel þótt ekki væri nægt fé í sjóðnum. Í því skyni var sett ákvæði um að lántökuheimild væri til staðar hjá sjóðnum.
Lagalega er því ýmislegt sem vinnur gegn þeirri skoðun að íslenska ríkið hafi enga ábyrgð borið á innistæðum þótt varla sé hægt að jafna þessum ákvæðum saman við það að íslenska ríkið eigi að veita ríkisábyrgð fyrir endurgreiðslu á öllum Icesave-innistæðunum. Ýmislegt mælir með því að aðstæður í þessu máli séu slíkar að þær falli undir force majure, þ.e. ófyrirsjáanlegar aðstæður sem gera það að verkum að ábyrgðin eigi ekki við í þessu tilfelli. Á þetta reynir t.d. iðulega í tryggingarmálum þar sem meta þarf hvort aðstæður hafi verið svo ófyrirséðar að tryggingin eigi ekki við í því tilfelli. Um það þarf vart að deila að innistæðutryggingar voru ekki hugsaðar til þess að setja þjóðríki á aðra hliðina. Það kaldhæðnislega í málinu er hins vegar að hver sem afstaða manna er til lágmarksábyrgðarinnar þá gengur samningurinn sem gerður var í júní út á að við tökum á okkur alla ábyrgð af endurgreiðslum til sparifjáreigenda, óháð því hvort þeir áttu 20.887 evrur eða hærri upphæð.
Í Icesave-málinu blandast saman lögfræði og pólitík, ekki síst þar sem deilt er um hvaða skilning beri að leggja í regluverkið. Í slíkri stöðu gengur ekki að vera passívur og gefa sér niðurstöðuna fyrirfram heldur þarf að fara út og berjast. Burtséð frá niðurstöðu málsins þá er það lágmarksskylda að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til þess að koma okkar áherslum á framfæri.
- Hröð en ekki óvænt stefnubreyting í málefnum hælisleitenda - 20. febrúar 2024
- Fjölmiðlaóð þjóð - 22. janúar 2021
- Skiljanleg en hættuleg ritskoðun tæknirisanna - 14. janúar 2021