Ný verið hefur nokkuð verið rætt um alls konar hópa sem til eru á www.facebook.com. Það virðist sem álit flestra hafi loksins komist upp á yfirborðið. Íslendingar hafa nefnilega verið mjög duglegir á þessum nýja miðli. Samkvæmt síðustu tölum eru meira en 46% landans með síðu á fésbókinni. Fólk hefur svo verið að búa til alls konar síður til að sýna ákveðnum málstað, einstaklingum eða bara hverju sem er stuðning.
Til að mynda hafa magir hópar verið stofnaðir vegna ástandsins í þjóðfélaginu. Hér eru til dæmis nokkur dæmi þar sem mótmælt er fyrir huguðum breytingum á fjárlögum:
http://www.facebook.com/group.php?gid=151690912481&ref=ts (Skerum niður hjá RÚV áður en við skerum niður hjá Landspítalanum)
http://www.facebook.com/group.php?gid=39520320813&ref=ts (Ég mótmæli skattahækkunum!!!)
http://www.facebook.com/group.php?gid=222865210294 (Við höfnum hverskonar skerðingu á fæðingarorlofi)
http://www.facebook.com/group.php?gid=189917677331 (Stöndum vörð um sjómannaafsláttinn)
Af þessum fjórum hefur nokkuð verið rætt um hópinn „Stöndum vörð um sjómannaafsláttinn“ nýverið. Þessi umræða hefur svo leitt til þess að ný síða, „Burt með sjómannaafsláttinn“, hefur verið stofnuð. Þannig að landinn reynir með öllu móti að koma skoðunum sínum beint fram og raðar sér í hópa eftir málefnum, ekki stjórnmála flokkum. Er þetta ekki jákvætt? Er þetta ekki sú breyting sem menn hafa verið að biðja um?
En er eitthvað að marka þetta. Að einhverju leiti en ekki öllu. Sjálfur hef ég til dæmis skráð mig í hóp fyrir slysni og ekki nennt að skrá mig úr honum síðar. Einnig hef ég lent í að fá ótal beiðnir um að styðja ákveðin málefni, jafnvel eftir að hafa neitað oft þá koma þær aftur og aftur. Að lokum gefst maður upp og segir já bara til að losna undan áreitinu. Svo eru enn aðrir sem skrá sig í hópa sem þeir eru á móti einungis til þess að geta tekið þátt í umræðum um viðkomandi málefni. Þannig að ekki eru allir meðlimir stuðningsmenn. Samt hlýtur yfirgnæfandi meirihluti að vera hlynntur þeim málstað sem hópurinn stendur fyrir, er það ekki?
Hvað afleiðingar hefur þetta í för með sér? Ef við lítum á þessi fjögur dæmi að ofan sjáum við að þeir eiga allir eitt sameiginlegt. Þetta eru allir hópar sem vilja ekki breyta núverandi ástandi. Enginn virðist vera tilbúinn að greiða þær skuldir sem ríkið er búið að koma sér upp. Þannig að það hlýtur að vera hætta á nýrri tegund lýðskrumms þar sem stjórnmálamenn fylgja skoðun nethópa í stað sinnar eigin sannfæringar. Verður þá ekki ómögulegt að taka erfiðar og óvinsælar ákvarðanir?
Þetta nýja tæki er fjöldans er sniðugt og mun líklega verða mikið notað í framtíðinni. Við verðum þó að skilja hvernig fjöldinn hagar sér og ef hann mætti ráða yrðu ríkisútgjöld allaf meiri og skattar alltaf lægri. Menn vilja nefnilega alltaf fá meira fyrir minna.
- Af veirum og vöðvabólgum - 19. nóvember 2020
- Minningahöll að molum orðin - 5. október 2015
- Steypum yfir miðbæinn! - 30. september 2015