Á morgun er fyrsti sunnudagur í aðventu. Dagur sem markar upphaf tíma sem er okkur mörgum dýrmætur enda sérstakur andi yfir þessum síðustu vikum fram til jóla. Annríkið mikið og tækifærin til afþreyingar og notalegheita nokkuð meiri heldur en aðra tíma ársins.
Nú er þessi tími að renna upp og fyrsti snjórinn féll meira að segja hér í höfuðborginni í gær, mönnum til mismikillar ánægju. Ætla ég því að nýta það kærkomna tækifæri að helga pistil minn að þessu sinni aðventunni og gleyma um stund þeirri hringavitleysu sem íslenskt samfélag hefur gengið út á síðastliðið ár og er hægt og bítandi að takast að drepa hina innri Pollýönnu landsmanna í eitt skipti fyrir öll.
Oft er bölsótast út í þann asa sem fylgir desembermánuði og fólk hvatt til þess að slaka á og leyfa einstaka rykkornum að halda upp á jólin með fjölskyldunni án þess að slíkt sé tilefni mikilla áhyggja. Er það árviss viðburður að slíku sjónarmiði sé haldið á lofti einhvers staðar með sterkum umvöndunartóni þess sem skrifar hverju sinni. Ég hef talsverða samúð með þessu sjónarmiði en tel þó að við verðum að sýna því ákveðinn skilning líka að fólk gefi sig stressinu á vald frammi fyrir þeim verkum sem fylgja árstímanum. Hvort heldur sem fólk velur að gefa rykmaurunum af jólasteikinni eða hafi sótthreinsað öll horn híbýla sinna þá held ég að hvoru tveggja sé fullkomlega boðlegt. Smá stress drepur engan en slökun og hóflegt kæruleysi gerir það ekki heldur. Hver og einn verður einfaldlega að finna sinn takt fyrir gönguna í gegnum aðventuna. Jafnvægi skiptir þar öllu eins og í öðru sem við tökum okkur fyrir hendur. Á aðventunni reyna menn eftir megni að iðka þessa jafnvægislist, sem getur vissulega reynst nokkuð snúin á köflum.
Í nafni þessara vikna felst nokkur sannleikur um eðli þeirra. Við erum að bíða komu jólanna og búa okkur og umhverfi okkar undir hana. Hvað gerum við ekki þegar gest ber að garði? Jú, við dustum rykið af gestrisninni og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að gera dvöl gestsins sem ánægjulegasta bæði fyrir hann en ekki síður okkur sjálf. Það sama gerum við þegar nálgast komu jólanna. Við gerum umhverfi okkar sem huggulegast og leyfum okkur tilbreytingu sem við gerum ekki hversdags. En ekki er síður mikilvægt að lappa upp á ástand innvolsins og gera það sem huggulegast því upplifun okkar af jólunum og því sem þau hafa að gefa okkur er ekki síður, og sjálfsagt meira, mikilvægt heldur en sá ytri aðbúnaður sem við búum þeim.
Umstangið er því nauðsynlegt í einhverjum mæli til þess að gera upplifun okkar sjálfra sem ánægjulegasta og þannig að við getum gefið okkur þeirri upplifun á vald án teljanlegra vandkvæða vegna áreitis óklálaðra verka.
Nauðsynlegur undirbúningur jólanna felst þannig í þeim hálgildings helgiathöfnum sem hefðirnar bjóða, svo sem bakstri, jólakortaskrifum og gjafainnkaupum. En ekki síður andlegri uppbyggingu sem hægt er að sinna t.d. með tónleikaferðum, lestri einhverra af þeim fjöldamörgu bóka sem gefnar eru út á þessum árstíma eða með samverustundum fjölskyldu og vina við hinar ýmsu athafnir aðventunnar. Hvoru tveggja býr hugann undir upplifun hátíðarinnar og skilar okkur vellíðan að henni lokinni.
Finnum okkar jafnvægi og njótum þess að vera og upplifa þessar næstu fjórar vikur.
Einnig er rétt að skora á þá sem aflögufærir eru um fjármuni eða tíma að leggja þeim samtökum lið sem hafa það að markmiði sínu að létta undir með þeim sem vegna efnahagslegar stöðu þurfa á hjálp að halda en þeir eru fleiri þessi misserin heldur en í oft áður.
- Að vinna að framgangi lífsins - 6. apríl 2012
- Kony 2012 – skilar þetta einhverju? - 21. mars 2012
- Rússnesk varðstaða um einræðisherra - 5. febrúar 2012