Þann 24. Nóvember eru 150 ár frá því að eitt áhrifamesta vísindarit allra tíma var gefið út, Þróun tegundanna. Í þeirri bók setti Charles Darwin fram þróunarkenninguna sem þótti gífurlega umdeild. Menn máluðu Darwin í skopstíl sem apa með mannshöfuð og kirkjunnar menn gerðu sitt besta til að þagga niður í þessari nýju kenningu. Flestir hafa ábyggilega lesið um þetta í sögutímum og hlæja að fáfræði forfeðra okkar. Við Íslendingar ásamt meirihluta af hinum vestræna heimi lítum í dag á þróunarkenninguna sem trausta kenningu í líffræði. Eða það hélt ég.
Í Bandaríkjunum er stór hreyfing manna sem lítur enn á Darwin og kenningar hans sem trúvillu. Menn reyna hvað eftir annað að seta fram vísindalegar „sannanir“ fyrir sköpunarkenningu Biblíunnar. Þetta er bæði sett fram á beinan hátt og í dulargervi sem Vithönnun (e. Intelligent Design). Þegar litið er nánar á skrif þessara bókstafstrúarmanna kemur bersýnilega í ljós vanþekking þeirra á sviði vísinda. Not þeirra á orðum eins og kenning og sannanir eru út í hött. Svo virðast þeir líka gera ekkert úr þeim framförum sem rekja má beint til kenningar Darwins.
Hvers vegna hefur þessi hreyfing vaxið svona mikið síðustu ár? Líklegasta útskýringin er internetið. Þar er lítið mál að verða sér út um upplýsingar. Gallinn er bara sá að það er líka lítið mál að verða sér út um rangar upplýsingar. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Þessir hópar ofstækismann hópast saman á vefsíður þar sem farið er með ósannindi en neita að líta við sönnunum frá öðrum. Það er oft einfaldara að trúa því sem maður er nú þegar sammála.
En hvers vegna ættum við Íslendingar að hugsa um þetta? Eru ekki allir hér vel menntaðir einstaklingar sem taka engan þátt í svona vitleysu? Það hélt ég en upp á síðkastið hef ég efast. Það er ekki langt síðan að trúarlegir skólar í Danmörku fóru að kenna Vithönnun, svo þessi plága hefur fært sig til Norðurlanda. Svo heyrir maður alltaf af fleiri og fleiri Íslendingum sem hallast í þessa átt. Í fyrstu hélt ég að þetta væri einungis lítill hópur bókstafstrúarmanna sem sækja einstaka trúarsöfnuði en síðan fór maður að verða var við fleiri.
Það virðist vera hópur manna sem dýrkar þennan ofstækisfulla arm repúblikanaflokksins (það skal tekið fram að þessi armur Repúblikanaflokksins hefur ekkert með frjálshyggju að gera). Þessir menn, því að þetta er mestmegnis karlmenn, ætla sér langt og vilja koma hér á trúuðu samfélagi. Við hlæjum kannski flest og höfum ekki áhyggjur af svona vitleysingum. En það er nauðsynlegt að hafa varann á, jafnvel þótt hættan sé lítil eins og er. Við viljum ekki fara þessa leið og því ber að drepa umræðu á þessum nótum strax.
- Af veirum og vöðvabólgum - 19. nóvember 2020
- Minningahöll að molum orðin - 5. október 2015
- Steypum yfir miðbæinn! - 30. september 2015