Dominique Strauss-Kahn staðfesti grun margra þegar hann, í bréfi sínu til Gunnars Sigurðssonar leikstjóra, útskýrði að Ísland myndi ekki fá endurskoðun hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fyrr en lausn fengist í Icesavemálinu. Sú krafa hafi þó ekki verið sjóðsins, heldur okkar svokölluðu vinaþjóða í Skandinavíu. Norðurlöndin neita nefnilega að afgreiða lán til vinaþjóðarinnar Íslands fyrr en við höfum gengist að fullu við ríkisábyrgð gagnvart tryggingasjóði innistæðueigenda.
Furðu sætir að mati höfundar hversu litla athygli þetta hefur vakið hér á landi, en sérstaka athygli vekur algert viðbragðssleysi ríkisstjórnarinnar við þessari yfirlýsingu Strauss-Kahn. Báðir aðildaflokkar ríkisstjórnarinnar hafa sérstaka tengingu við skandinavísku systurflokkanna og því væri þeim í lófa lagið að taka upp hanskann fyrir þjóð sína. Allt frá lýðveldisstofnun hafa þjóðir Skandinavíu haft sérstakan sess hjá íslensku þjóðinni. Sögulega, menningarlega og landfræðilega eigum við mun fleira sameiginlegt með þessum vinaþjóðum heldur en öðrum þjóðum. Hafa það verið óvéfengd sannindi í utanríkisstefnu landsins að þarna fari sérstakar vinaþjóðir okkar.
Eftir að hvirfilbylur lausarfjárkreppunnar skall á Íslandi líkt og öðrum vestrænum markaðshagkerfum lét Gordon Brown, formaður breska Verkamannaflokksins, hné fylgja kviði og beitti hryðjuverkalögum á Ísland og íslensk fyrirtæki. Máttum við sætta okkur við að vera sett í flokk með fjöldamorðingjasamtökum líkt og Al Kaída. Ísland sem hafði með virkum hætti tekið þátt í alþjóðavæðingu markaðshagkerfisins, sem Bretar og þá sérstaklega „new labour“ stjórn Browns og Blair höfðu talað fyrir áratuginn á undan, mátti nú þola það að hafa fjármálakerfið á hliðinni og mannorð sitt í rúst.
Þetta vinabragð Bretans kom mörgum skringilega fyrir sjónir, meðan aðrir sáu glytta í gamlan hefndarþorsta úr þorskastríðunum. En fyrir mörgum var það morgunljóst, að þó að gamla breska heimsveldið myndi koma fram við okkur af megnustu ósvífni, þá ættum við vísa vini í Skandinavíu. Fyrirmyndaríkjunum sjálfum.
Það fékkst fyrir stuttu staðfest að strax eftir síðasta kosningasigur Anders Fogh Rasmussen í Danmörku hafi vinna hafist við að koma honum í stærra embætti á alþjóðlegum vettvangi. Þeirri vinnu lauk loks með því að hann var gerður að framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, NATO. Það embætti er með stærstu embættum okkar heimshluta og því gegnir enginn án samþykkis áhrifaríkis líkt og Bretlands.
Rasmussen var heldur ekki lengi að þakka fyrir traustið því í fyrstu opinberu heimsókn sinni sem var til Reykjavíkur fann hann ekkert athugavert við það að Bretar skyldu setja hryðjuverkalög á aðra bandalagsþjóð þegar hann var spurður. Aldrei fyrr né síðar mun slík aðstaða koma upp að bandalagsþjóðir NATO lýsi hvorri annarri sem hryðjuverkaríki og í leiðinni kollsteypi lífsviðurværi annarra þjóða með jafn óforskömmuðum hætti án þess að það hafi meiriháttar afleiðingar í för með sér.
Svo nú, kemur í ljós í orðum sjálfs Strauss-Khan að allar norðurlandaþjóðirnar sem standa að lánveitingum til okkar í gegnum sjóðinn, hafa það sem skilyrði að fyrst verði gengist við Icesave skuldbindingunum áður en lán geta borist. Með öðrum orðum, samþykki Íslendingar ekki þann samning sem fyrir liggur, sama hversu íþyngjandi hann yrði fyrir íslenska þjóð, þá verður ekkert af lánum IMF til landsins.
Þessi atburðarrás hlýtur að vekja spurningar hjá þjóð sem hefur skilgreint Norðurlönd sem sérstakar vinaþjóðir sínar, hvort utanríkisstefna landsins sé í réttum farvegi þegar leitað er í skjól þessara þjóða á alþjóðavettvangi. Einnig hlýtur utanríkisráðherra landsins að þurfa að svara því, í kjölfar þessara frétta, hvers vegna utanríkisráðherra landsins og ríkisstjórnin í heild sinni skuli ekki krefja ríkisstjórnir þessara landa opinberra skýringa á þessu framferði.
- Það rignir góðum fréttum - 9. júlí 2021
- Álhattaveislan verður aldrei haldin - 5. júní 2021
- Sköpum 7.000 störf - 27. mars 2021