Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp um persónukjör sem stefnt er að verði að lögum fyrir komandi sveitastjórnarkosningar næsta vor. Skiptar skoðanir eru á Alþingi um ágæti slíks persónukjör en sumir telja að með því sé verið að færa lýðræðið í hendur kjósenda meðan aðrir telja að með þessu sé aðeins verið að fresta prófkjörum fram á kjördag. Stærsta spurningin hlýtur svo að vera hvort sanngjarnt sé að breyta leikreglum eftir að leikurinn er hafinn.
Áður en lengra er haldið skal nú tekið fram að mjög umdeilt er að nota orðið persónukjör yfir þær breytingar sem umrætt frumvarp boðar, en orðið persónukjör hefur nú þegar náð ákveðinni fótfestu og verður það notað hér. Helstu rökin sem heyrst hafa með því að taka upp persónukjör eru þau að þá fá kjósendur raunverulegt vald til að velja þá frambjóðendur sem þeim hugnast best í kosningum. Fólk þarf því ekki að vera flokksbundið og taka þátt í prófkjörum til að hafa áhrif á val á frambjóðendum flokkanna eins og tíðkast hefur, þó með einhverjum undantekningum eins og opnum prófkjörum. Það er gott og vel að auka vald kjósenda en þó er það þannig í frumvarpinu að fólk mun aðeins geta raðað upp frambjóðendum hjá þeim flokki sem það gefur atkvæði sitt.
Þær eru því skiljanlegar þær athugasemdir um að frumvarpið geri lítið annað en að fresta prófkjörum flokkana fram að kjördegi, því þá mun kosningabaráttan fyrir frambjóðendur ekki aðeins snúast um að sannfæra fólk um ágæti síns flokks heldur einnig um sitt persónulega ágæti. Slagur milli einstakra frambjóðenda myndi því teygjast fram á kjördag. Einnig má sjá fyrir sér að röðun kjósenda á frambjóðendum gæti orðið mjög tilviljunarkennd þar sem fæstir kjósendur munu vera búnir að kynna sér alla þá frambjóðendur sem í boði eru. Hætta er á að endurnýjun verði enn minni en nú þegar er í prófkjörum. Þeir sem eru þekktari, líkt og sitjandi þingmenn eða sveitastjórnarmenn, munu standa mun betur að vígi en þeir sem koma nýir inn.
Prófkjör stjórnmálaflokka eru þó langt frá því að vera fullkomin og ala mjög á innanflokkadeilum. Það má þó segja með innanflokkadeilur að prófkjör fara fram talsvert löngu fyrir kosningar og tími gefst fyrir flokkana til að grafa þær deilur sem rísa í prófkjörum þannig að hver flokkur geti gengið sem ein heild inn í kosningabaráttuna, eða allvega á yfirborðinu. Í prófkjörum er einnig sama vandamál og minnst var á að ofan í persónukjörinu að þekktara fólk og sitjandi þingmenn standa betur að vígi en þeir sem eru nýir. Þó má ætla að tækifæri nýrra frambjóðenda sé meira í prófkjörum þar sem kjósendur þar þekkja betur innviði og grasrót flokkana en almennir kjósendur þeirra á landsvísu. Það er mjög algengt að þekkt fólk í samfélaginu eigi greiða leið í prófkjörum stjórnmálaflokkana. Samfylkingin er sér á báti þegar kemur að þessu en prófkjör hennar eru kjörinn vettvangur fyrir uppgjafarfréttamenn á Stöð 2 til að komast á þing. Nú bíða menn bara spenntir eftir því að vita hvort Logi Bergmann, sjarmatröll Stöðvar 2, skelli sér ekki bara í næsta prófkjör.
Þau sjónarmið hafa einnig heyrst að það fyrirkomulag um persónukjör sem frumvarpið boðar tryggi ekki jafna skiptingu kynjanna á framboðslistum og að konur muni beinlínis koma illa út úr persónukjöri. Í fyrsta lagi tryggir núverandi fyrirkomulag á engan hátt jafna skiptingu kynjanna á framboðslistum heldur hefur það verið verkefni stjórnmálaflokkanna sjálfra að tryggja nægt framboð af körlum og konum á sínum listum. Árangur flokkanna í því efni hefur að sjálfsögðu verið mjög misjafn en það er efni í annan pistil. Í öðru lagi þykir höfundi ansi lítið gert úr kjósendum að halda því fram að þeir muni ekki kjósa konur til starfa fái þeir tækifæri til þess.
Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, viðraði nýlega þá skoðun sína að íslenska fulltrúalýðræðið hafi orðið fyrir áfalli vegna bankahrunsins og að umræða um persónukjör væri jákvætt innlegg þegar rætt væri um taumhald flokka á þingmönnum. Höfundur verður að vera ósammála Gunnari Helga um að fulltrúalýðræðið sem slíkt hafi orðið fyrir miklu áfalli vegna þess að fólk hafi misst traust sitt á því. Því ekki var að sjá annað á kosningunum 2009 að fólk kynni hreint ágætlega við fulltrúalýðræðið en þær kosningar fóru nákvæmlega eins fram og áður, kosningaþátttaka var svipuð, umgjörðin var eins, áfram buðu sömu stjórnmálaflokkar fram fulltrúa sína og kjósendur kusu þá flokka sem þeim hugnaðist best. Það sem naumur meirihluti kjósenda vildi voru aðrir stjórnmálamenn og það fengu þeir. Ef fólk hefði gjörsamlega misst trú á stjórnkerfið, hefði kosningaþátttaka þá ekki hrapað? Það sem hefur nú gerst, ári eftir hrunið, er að samkvæmt könnunum er fylgi stjórnmálaflokkana orðið svipað og það var fyrir hrun. Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur, svo Samfylking, þar næst Vinstri Grænir og Framsókn. Aðrir flokkar mælast vart og hin nýja von í íslenskum stjórnmálum, Borgarahreyfingin, er dauð.
Höfundur getur þó tekið undir með skoðunum Gunnars Helga um að flokksræði hafi hugsanlega staðið í vegi fyrir gagnrýnni umræðu um samfélagið og hvert það stefndi. Hugsanlega voru stjórnmálaflokkarnir margir hverjir of uppteknir af því að standa með sínu liði í staðinn fyrir að horfa gagnrýnið á stöðu mála. Það er holl lexía að læra fyrir alla stjórnmálamenn úr hvaða stjórnmálaflokki sem er. Það er þó mikill misskilningur að halda að með persónukjöri heyri flokksræði sögunni til, þar sem kjósendur munu aðeins raða fólki á lista hjá þeim flokki sem þeir kjósa. Raunverulegt persónukjör væri miklu frekar að kjósa frambjóðendur þvert á flokka. Þannig væru einstaklingar kosnir en ekki flokkar.
Hvort sem menn eru fylgjandi persónukjöri sem slíku eða ekki og vissulega eru jákvæðar og neikvæðar hliðar á báðum afstöðum þá hlýtur stóra spurningin að vera hvort núna sé rétti tíminn fyrir slíkar breytingar. Á að eyða mikilvægum tíma Alþingis í þetta mál þegar mun stærri mál bíða og þingmenn og ríkisstjórn standa frammi fyrir erfiðum verkefnum. Einnig eru örfáir mánuðir í að sveitastjórnarkosningar fari fram og hafa nú þegar prófkjör hjá einhverjum flokkum farið fram. Fólk hefur því bæði lagt tíma og peninga í prófkjörsbaráttu til kannski þess eins að heyja aðra prófkjörsbaráttu á kjördag. Það hlýtur að vera augljóst mál að það er ekki sanngjarnt að breyta leikreglum þegar leikmenn eru komnir inn á völlinn og flautað hefur verið til leiks.
- #FreeBritney - 22. júlí 2021
- Næstu skref í fæðingarorlofsmálum - 6. júlí 2021
- Hvað tökum við með okkur úr faraldrinum? - 23. júní 2021