Í þeim efnahagslegu hörmungum sem íslendingar ganga nú í gegnum hefur fjöldi fyrirtækja lent í umsjón bankanna. Allir þessir bankar eru undir stjórn skilanefnda sem eru skipaðar af Fjármálaeftirlitinu, sem heyrir undir Viðskiptaráðherra.
Sumir atvinnuvegir hafa hreinlega horfið undan ratsjá gagnsæis og ábyrgðar. Eitt dæmi um slíkt er bókverslun á Íslandi en þar eru Penninn og A4 gjaldþrota en rekin áfram af viðskiptabönkunum sínum. “Nýji Penninn” er í eigu Nýja Kaupþings, “Nýja A4” er í eigu Sparisjóðabankans. Þá er Office1 farið í greiðslustöðvun og í umsjá viðskiptabanka síns, Nýja Landsbankans.
Hvers eiga litlir bóksalar á borð við Bjarna Harðar og Braga Kristjónsson að gjalda í keppni við þessa skuldlausu kennitöluflakkara?
Kjartan Örn Sigurðsson, forstjóri Office 1 skrifaði grein um hina mismunandi aðstöðu ritfangaverslana á Íslandi þar sem hann bendir á hvað hafi gerst í kjölfar ríkisvæðingar ritfangaverslananna (1):
“Kaupþing stofnaði félag um rekstur Pennans/Eymundssonar og Griffils, skipti um mann í brúnni sem síðan hefur opnað nýja Griffilsverslun á hinum „vinsæla“ Laugavegi, lokað Máli og menningu á Laugavegi og opnað nýja Eymundsson-verslun á Skólavörðustíg. Á sama tímabili síðan 1. apríl hefur skilanefnd Sparisjóðabanka Íslands stutt A4-Skólavörubúðina í því að opna stærstu skrifstofuvöruverslun landsins á Smáratorgi.„
Stuttu eftir að Sparisjóðabankinn yfirtók A4, þá sagði Morgunblaðið frá því að nokkur tilboð hefðu borist í fyrirtækið; en í dag, nóvember, hafa engin tíðindi borist af þeirri sölu.
Ekkert hefur frést af því hvenær og hvernig þessi fyrirtæki eiga að færast úr höndum ríkisbanka. Það eina sem virðist vera á hreinu er að það á að gerast á bak við luktar dyr og án gegnsæis. Þeir sem voru vel tengdir inn í spillingu fyrir hrun, eru fremstir í röðinni eftir gjaldþrota, kennitöluþvegnum fyrirtækjum eftir hrun.
En hvernig ætti þá að selja þau fyrirtæki sem hafa lent í eigu ríkisbanka? Hér kemur ein tillaga sem, ef væri framkvæmd myndi tryggja að almenningur, sem hefur tapað miklu á bankahruninu, myndi hafa ljósa mynd af því hvernig að sölu fyrirtækja væri staðið:
1. Fyrirtækin ættu að vera auglýst til sölu
2. Það ætti að vera tilgreindur tilboðsfrestur og að honum loknum tilgreindur (stuttur) frestur til þess að fara yfir tilboðin
3. Það ætti að vera gefið upp fyrirfram hversu miklar skuldir myndu fylgja fyrirtækinu frá bankanum sem selur (þ.e. hversu miklar afskriftir skulda)
4. Farið ætti fram á staðgreiðslu, í íslenskum krónum
5. Taka ætti fram að hæsta tilboði verði tekið að uppfylltum öðrum skilyrðum
6. Bankinn mætti setja sér lágmarksverð (sem hann þarf ekki að gefa upp), ef lágmarksverð næst ekki þá getur hann hafnað öllum tilboðum
7. Eftir að hæsta tilboði hefur verið tekið (eða öllum hafnað), þá er birt á heimasíðu bankans öll tilboð og tilgreindir tilboðsgjafar
Ef ekkert af þessu verður að veruleika og við höldum áfram á þeim veg þar sem fyrirtæki eru seld í óskýru söluferli (eins og í tilfelli Morgunblaðsins) eða jafnvel boðin fyrri eigendum með lægri skuldir gegn smá eiginfjárframlagi (eins og tilfelli Haga), þá er ljóst að það verður aldrei sátt um þær tilfærslur á fyrirtækjum sem eiga sér hér stað.
(1) heimild: http://www.amx.is/vidskipti/9019/ upprunalega greinin í heild sinni birtist upprunalega á vef Vísis www.visir.is en er ekki lengur aðgengileg.
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021