Málefni Íslands voru loks tekin fyrir á fundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í gær og var endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands afgreidd sama dag eða 8 mánuðum á eftir áætlun. Þessi niðurstaða felur í sér að að Íslendingar fá nú 168 milljónir bandaríkjadala að láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og 675 milljónir bandaríkjadala frá Póllandi og Norðurlöndununum eða í heild um 100 milljarða króna lán. Upphaflega þegar samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn var undirritað var ekki hægt að gera sér í hugarlund að Íslendingar þyrftu að undirgangast mörg milljarða ríkisábyrgð gegn því að fá aðgang að fjárhagsaðstoð sjóðsins.
Það kom hins vegar á daginn að Icesave samningurinn og aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins voru tengd órjúfanlegum böndum. Undirskrift ríkisstjórnarinnar undir sameiginlegt samkomulag Íslands, Bretland og Hollands um Icesave í síðastliðinni viku staðfesti endanlega að það var það sem þurfti til þess að málefni Íslands væru tekin fyrir hjá sjóðnum. Hollendingar og Bretar fengu sínu framgegnt í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og því miður ákvað ríkisstjórn Íslands að gefa eftir réttinn til þess að sækja málið fyrir dómstólum í síðustu lokasamningalotunni. Stefnt er að því að afgangurinn lánsins verði greiddur við næstu sjö endurskoðanir. Það er óskandi að það dragist ekki jafn mikið á langinn og sú greiðsla sem nú síðast var afgreidd.
Líf ríkisstjórnarinnar hangir á því að nú fari að birta til í íslensku efnahagslífi. Staðan hefur lítið eitt breyst þá 8 mánuði sem stjórnin hefur verið við völd, stýrivextir eru enn í tveggja stafa tölu, gjaldeyrishöftunum hefur ekki verið aflétt, atvinnuleysi er enn verulegt og svo mætti lengi telja. Vinstristjórnin hefur hengt mikið á þessa endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og margt af því er ekki á færi framkvæmdavaldsins að framkvæma, en ráðherrarnir hafa nú ekki látið það takmarka sig hingað til. Vonir eru bundnar við að nú verði gjaldeyrishöftunum aflétt, stýrivextir lækkaðir, að krónan styrkist og hjól atvinnulífins fari að snúast á ný.
Það nægir þó ekki að fá greiðsluna frá AGS. Það verður ekkert velferðarsamfélag á Íslandi eins og ríkisstjórnin lofaði í vor ef Vinstristjórnin heldur áfram á braut aðgerðarleysis og ákvarðanafælni hvað niðurskurð í ríkisfjármálum varðar. Einstaklingar og fyrirtæki þola ekki mikið lengur við. Nú þegar hefur fjöldi fyrirtækja farið í þrot vegna hás vaxtastigs og takmarkaðs aðgengis að lánsfé. Segja má að ríkisstjórnin hafi viðhaldið háu vaxtastigi með því að draga lappirnar í að fara í þann niðurskurð sem nauðsynlegur er til þess að ná endum saman. Þjóðhagslega hagkvæm fyrirtæki (að mati Vinstristjórnarinnar) hafa verið ríkisvædd og keppa við fyrirtæki á markaði, atvinnuleysi stendur í stað og ríkisstarfsmönnum fjölgar í kjölfar fjölda ríkisvæðingar. Tekjur ríkisins hafa dregist verulega saman og útgjöld aukist á sama tíma, neysluvísitala hækkar vegna aukins álags ríkisins á nauðsynjavörur og þar með hækka verðtryggð lán líka. Húsnæðisverð lækkar og fasteignalán hækka. Almenningur hefur orðið fyrir gífurlegri kaupmáttarskerðingu undanfarið ár og allt lítur út fyrir að sú þróun sé ekki að fara að breytast í bráð.
Og hvernig ætlar Vinstristjórnin að leysa þann stóra fjárhagsvanda sem blasir við íslenskri þjóð:
• með tekjuskattshækkun á íslenskan almenning
• með hærri skatt á þau fyrirtæki sem eftir standa
• með sérstökum orku-og umhverfissköttum
• með launalækkun opinberra starfsmanna, bæði embættismanna og stjórnmálamanna, sem ekki voru nú margir hverjir með há laun fyrir
• með upptöku ríkisins á aflaheimildum
• með hækkun fjármagnstekjuskatts
• með því að ganga í Evrópusambandið
Það er veruleg ástæða til þess að hafa áhyggjur af því hversu hægt gengur hjá Vinstristjórninni að ganga í verkin. Tíminn sem farið hefur til spillis hefur kostað ríkissjóð og skattgreiðendur miklar fjárhæði. Það að ætla að skattleggja sig út úr kreppunni er leið sem ekki er vænleg til árangurs, heildarkakan minnkar og það gera tekjur ríkissjóðs líka. Það væri óskandi að ríkisstjórnin endurskoði afstöðu sína í skattamálum, sem dregur ekki eingöngu úr kaupmætti almennings heldur setur fjölmörg verkefni í uppnám.
- Þessi blessaða veira er fordómalaus, reynum að vera það líka - 30. mars 2021
- Má ég faðma þig? - 13. janúar 2021
- Til hamingju Frú Vigdís - 15. apríl 2020