Menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, hefur kynnt nýtt frumvarp til fjölmiðlalaga sem áætlað er að leggja fram í næsta mánuði. Í auglýsingu á vef Menntamálaráðuneytisins kemur fram að „Með frumvarpinu [sé] stefnt að setja í fyrsta sinn heildarlöggjöf um fjölmiðla og starfsemi þeirra“.
Þó vissulega sé verið að steypa fleiri en einum lagabálki saman í einn þá er slík yfirlýsing náttúrulega dálitlar ýkjur í ljósi þess að ekki er einu orði minnst á umdeildasta atriðið sem snýr að fjölmiðlum og tengist hámarki á eignarhaldi þeirra. Það er ljóst að menntamálaráðherra hefur ekki nýtt síðustu fimm ár til að móta sér stefnu í því máli því hún hefur ákveðið að setja saman starfshóp sem á að skoða samþjöppun á eignarhaldi fjölmiðla og skila á af sér áliti í vor.
Flestir þekkja söguna á bak við fjölmiðlalögin sem samþykkt voru á Alþingi árið 2004 en síðar felld úr gildi vegna synjunar Forseta Íslands. Á þeim tíma sem liðinn er frá þessum eftirminnilega atburði hefur síður en svo dregið úr nauðsyn þess að einhver slík löggjöf verði samþykkt.
Umræða um fjölmiðla, sjálfstæði þeirra og ábyrgð á ríkt erindi, nú sem áður, við fólk sem lifir og hrærist í heimi þar sem fjölmiðlar gegnumsýra alla umræðu. Það er því jákvætt að í þessu nýja frumvarpi er gert ráð fyrir að fjölmiðlum verði skylt að upplýsa hverjir eigendur þeirra eru og hvernig ábyrgð fjölmiðlafólks verði skilgreind. Önnur veigamikil atriði í frumvarpinu eru innleiðing á nýjum tilskipunum Evrópusambandsins og kostnaðarsamari liðir sem snúa að skráningarskildu fjölmiðla sem ekki eru leyfisskildir. Setja á lágmarksreglur um auglýsingar í fjölmiðlum og samræma á stjórnsýslu með því að setja á fót litla stofnun, Fjölmiðlastofu, til að eftilit nái til allra fjölmiðla.
Eitt ákvæði nýju fjölmiðlalaganna hafa vakið athygli fyrir tilgangsleysi sitt. En það er ákvæðið um að fjölmiðlaþjónustuveitendur setji sér reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði. Í sérstakri samantekt á vef Menntamálráðuneytisins sem ber titilinn „Hvað fellst í nýju fjölmiðlafrumvarpi?“ er reynt að svara spurningunni um nauðsyn þessa ákvæðis.
Þar segir:
„Ákvæðið er í samræmi við tillögur hinnar þverpólitísku fjölmiðlanefndar frá árinu 2005 en þar var lagt til að fjölmiðlaþjónustuveitendur settu sér reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra starfsmanna sem sinna fréttum og fréttatengdu efni. Í skýrslu nefndarinnar er tekið fram að slíkar reglur hafi e.t.v. ekki úrslitaáhrif um ritstjórnarlegt sjálfstæði einar sér en með öðrum úrræðum gegni slíkar reglur þó ákveðnu hlutverki til bóta. Brot á þessum fyrirmælum varða þannig ekki sjálfstætt viðurlögum samkvæmt frumvarpinu. Á hinn bóginn bæri Fjölmiðlastofu að taka það fram á vef sínum hafi slíkar reglur ekki verið settar. Tilætlunin er jafnframt sú að tilvist slíkrar lagareglu reynist nauðsynlegur hvati þess að fjölmiðlar setji sér almennt reglur um sjálfstæði ritstjórna. Þess er vænst að það aðhald sem viðkomandi starfsmenn, eftir atvikum stéttarfélag þeirra en síðast en ekki síst almenningur, veiti verði öllum viðurlögum öflugri. Það gefur auga leið að almenningur hlýtur að treysta betur fréttaflutningi og hlutlægni fjölmiðils sem starfar í samræmi við slíkar reglur fremur en þess fjölmiðils sem það gerir ekki.“ (*)
Af þessu má lesa að hér er verið að setja reglur til að setja reglur. Innihaldið er aukaatriði. Það er ómögulegt að sjá hvernig slíkt á að auka aðhald og traust á fjölmiðlum. Í jafn litlu landi og á Íslandi þar sem fjölmiðlastéttin er fámenn og flestir eru tengdir mönnum, stjórnmálaflokkum, málefnum eða hagsmunabandalögum einhvers konar þá stríðir það gegn almennri skynsemi að halda að slíkar reglur verði einhver stimpill fyrir sjálfstæði eða hlutleysi fjölmiðla.
(*)http://www.menntamalaraduneyti.is/media/MRN-pdf/Helstu_nyjungar_fjolmidlafrumvarps.pdf
- (Háskóla)menntun sem nýtist í starfi - 28. janúar 2021
- Spurðu lögmanninn - 29. september 2020
- Blómaskeið netverslunar loksins runnið upp? - 2. apríl 2020