Orðið útrás hefur undanfarið fengið á sig nokkuð neikvæða merkingu og hefur nánast orðið hálfgert bannorð. Það þarf enda ekki að fara mörgum orðum um að hinir títtnefndu útrásarvíkingar íslenska fjármálalífsins áttu ekki erindi sem erfiði í sinni vegferð. Gamla máltækið „brennt barn forðast eldinn“ kemur strax upp í þessu samhengi. Kannski ættu íslensk fyrirtæki bara að læra af reynslunni og forðast þennan eld sem gæti brennt aftur litlu útrásarbörnin. Það er sennilega bara best fyrir hvítvoðungana norðan úr Atlantshafinu að halda sig heima.
Nei. Þvert á móti þurfum við að bretta aftur upp ermarnar og fara í útrás sem aldrei fyrr.
Við megum ekki falla í þá gryfju að stimpla þá einstaklinga sem nú eru í eða hyggja á útrás með sín fyrirtæki sem „útrásarvíkinga“ í neikvæðri merkingu þess orðs. Það þýðir ekki að við eigum bara að halda ótrauð áfram án þess að hugsa vandlega um hvert skref. Við þurfum að staldra við og læra af mistökunum sem hér voru gerð, en að sama skapi nýta okkur þá reynslu sem hefur orðið til og halda ótrauð áfram.
Við megum heldur ekki falla í þá gryfju að stimpla öll fyrirtæki og einstaklinga sem mögulega hafa einhver tengsl við „útrásarvíkingana“ sem slæm fyrirtæki og óheiðarlega einstaklinga. Þær nornaveiðar sem við höfum orðið vitni að undanfarið geta hæglega orðið að krabbameini sem dreifir meira úr sér í samfélaginu og heftir einstaklingsframtak og athafnasemi. Slíkt krabbamein afturhaldssemi og framtaksleysis er mun verra til lengri tíma litið en sú þolraun sem við höfum nú þegar farið í gegnum.
Það er alveg ljóst að hægt er að tengja svo til hvert einasta fyrirtæki landsins og frammámenn í viðskiptalífinu á einhver mögulegan eða ómögulegan hátt við útrásarævintýrið. Við þurfum að sjálfsögðu að draga þá til ábyrgðar sem fóru of geyst og brutu lög en við þurfum einnig að kunna okkur hóf. Á réttum tímapunkti þarf að hætta að hugsa um nornaveiðarnar og fortíðina, finna núllpunktinn og gefa þeim sem hafa stundað sín viðskipti á heiðarlegan hátt tækifæri og frið til að byggja upp án þess að fá á sig ómálefnalegar og vafasamar tengingar sem engu máli skipta.
Þrátt fyrir að nokkur stór fyrirtæki hafi rúllað harkalega á hliðina og dregið enn fleiri með sér í fallinu eru fjölmörg fyrirtæki sem hafa staðið sig frábærlega í útrásinni undanfarin ár. Enn fleiri hafa vaxið rólega og hyggja á útrás á næstunni. Enn önnur er verið að stofna og ætla strax í útrás. Það er algjörlega nauðsynlegt að við látum neikvæða umræðu um skuldsetta útrás eignarhaldfélaga og fjármálastofnana ekki skemma fyrir jákvæðri og mikilvægri útrás stórra sem smárra fyrirtækja í öllum geirum atvinnulífsins.
Á Íslandi er agnarsmár heimamarkaður og það er flestum fyrirtækjum lífsnauðsynlegt að hugsa hnattrænt frá upphafi og fara í útrás. Við megum ekki hefta þann hugsunarhátt heldur þurfum við að hvetja fyrirtæki til athafna og útrásar sem byggir á nýjum og stöndugri grunni en áður. Þannig sköpum við gjaldeyristekjur, sköpum hálaunastörf og tryggjum að ungt menntafólk flytji aftur heim eftir nám erlendis.
Gangi ykkur vel kæru útrásvíkingar.
- Fjárfestingar í sprotafyrirtækjum - 11. nóvember 2010
- Störfin sem vaxa ekki á trjánum - 22. september 2010
- Viðhorf á villigötum - 11. ágúst 2010