Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hlaut nýlega friðarverðlaun Nóbels mörgum til mikillar undrunar. Ekki aðeins vegna þess að hann hefur haft aðsetur í skamman tíma í Hvíta húsinu, heldur standa Bandaríkin í hernaðaraðgerðum í Írak og Afganistan. Obama hefur gefið það út að hann vilji kalla herliðið heim frá Írak en litla eftirgjöf er að finna þegar kemur að Afganistan. Þvert á móti hefur æðsti hershöfðingi bandaríska hersins beðið Obama um 40.000 hermenn til viðbótar við þá sem fyrir eru í landinu. Það sé nauðsynlegt til að sigra hryðjuverkasveitir Talíbana og tryggja öryggi landsins.
Þau sjónarmið hafa heyrst að það sé ekki við hæfi að nýbakaður friðarverðlaunahafi Nóbels sendi tugi þúsunda fullvopnaðra samlanda sinna til fjarlægra landa. Það muni reynast forsetanum myllusteinn um háls að þurfa taka þessa erfiðu ákvörðun með nóbelinn í hillunni. En er það svo ?
Saga Afganistan síðustu áratugi er harmasaga. Í lok árs 1979 réðust Sovétríkin sálugu inn í Afganistan og var ætlunin að styðja við marxíska byltingarsinna sem höfðu gert sig gildandi í landinu. Innrásin gekk ekki eins og áætlað var og börðust sveitir Sovétmanna og Afgana ,sem aðallega voru mannaðar íslömskum skæruliðum og höfðu litla reynslu af bardögum sem þessum. Níu sársaukafullum árum og allt að 2 milljónum fórnarlamba síðar hurfu Sovétmenn af vettvangi. Upp frá þeim tíma geisuðu mikil átök milli íslamista og veraldlegra þenkjandi afla sem lauk með sigri íslamista. Í lok árs 1996 höfðu íslamistar, betur þekktir sem Talíbanar, tekið völdin í höfuðborginni Kabúl.
Snemma eftir valdatöku Talíbana voru Sharía-lög tekin upp. Konum var þar með til dæmis bannað með lögum að sækja sér menntun. Konur urðu réttindalausar með öllu og hafði trúarlögreglan fullt umboð til að berja konur á götum úti sem ekki þóttu hylja líkama sinn nóg með hinum ógnvekjandi búrkum. Fótboltavellir urðu að aftökustöðum fyrir harðlínumenn þar sem fólk var tekið miskunnarlaust af lífi með viðbjóðslegum aðferðum að áhorfendum viðstöddum. Vinsælast var að konur sem höfðu drýgt hór væru grýttar með hnefastórum steinvölum meðan aðrir voru hengdir í slám fótboltamarkanna.
Þetta hryllilega skeið í sögu Afganistan fór að mestum hluta fram án vitundar vesturlanda. Eftir að Sovétmenn höfðu hörfað til síns heima var lítil sem engin umræða um það skelfingarástand sem hafði skapast. Augu alþjóðasamfélagsins beindust ekki aftur að landinu fyrr en Mullah Omar, leiðtogi talíbana, fyrirskipaði eyðileggingu á tveimur fornum styttum. Á þessum tímapunkti hafði Omar vingast við ríkan Sádi-Araba, Osama Bin-Laden að nafni, sem fékk að æfa morðsveitir sínar innan landamæra Afganistan. Afleiðing þeirrar vináttu endaði svo að lokum með hryðjuverkaárásinni þann 11.september 2001 þegar sveitir Bin-Ladens flugu farþegaflugvélum á bandarískar byggingar.
Bandaríkjunum tókst á undraskömmum tíma að fá þjóðir heims til liðs við sig í því verkefni að koma ógnarstjórn Talíbana frá, en þeir höfðu hýst þjálfunarbúðir og helstu stjórnendur Al-Kaída. En verkefnið átti ekki að einskorðast við að hrekja Mullah Omar og Osama Bin Laden frá völdum, heldur átti að aðstoða við framtíðaruppbyggingu landsins. Undir forystu Bandaríkjanna átti að uppræta þann jarðveg sem hafði alið af sér fjöldamorðingja Talíbana. Koma átti á starfshæfri stjórn sem tryggði mannréttindi kvenna jafnt sem karla. Konur fengju kosningarétt og tækifæri til að leita menntunar, byggja átti upp samgöngukerfi landsins, sem var í molum og tryggja átti borgurum landsins möguleika á framtíð án ótta við morðótt yfirvald.
Nú, tæpum átta árum síðar hefur ekki allt tekist eins og til var ætlast. Konur ganga þó um stræti Kabúl án barsmíða trúarlögreglunnar sökum fatavals eða annarra ditta. Þær ganga í skóla og kjósa í lýðræðislegum kosningum til jafns við karlmennina. Hamid Karzai forseti starfar með lýðræðislegt umboð og undir stjórnarskrá. Nýafstaðnar kosningar voru þó langt frá því lýtalausar og ekki alveg það sem við eigum að venjast. Abdullah Abdullah mótframbjóðandi Karzai hefur sakað hann um kosningasvindl og virðist að á sumum stöðum hafi hann haft nokkuð til síns máls. Eftirlitsmenn kosninganna véfengdu marga kosningakassa sem varð til þess að kjósa þarf aftur milli þeirra tveggja. Hryðjuverkamenn Al Kaída gera reglulega árásir á samborgara sína og hermenn uppbyggingarlandanna. Mannfall hefur síst farið minnkandi meðal þessara hópa síðustu ár og á sumum stöðum í landinu hefur þeim vaxið ásmegin sem og hinum megin við landamæri Pakistan.
Ástandið í Afganistan hefur því orðið sífellt erfiðara pólitískt fyrir ráðamenn vesturlanda. Andstæðingum stríðsins í Afganistan hefur fjölgað og telja þeir veru fjölþjóðasveita í landinu vera tákn um heimsvaldsstefnu Bandaríkjanna, en þau sömu sjónarmið voru einnig uppi þegar NATO stöðvaði fjöldamorð sveita Milosevic á íbúum Kosovo en það hefur síðan verið talið skólabókardæmi um vel heppnaða íhlutun af mannúðarástæðum. Afganistan krefst sífellt meira fjármagns, mannafla og því miður mannslífa. Auknar óvinsældir verkefnisins gera það síst auðvelt fyrir stjórnmálamenn að tryggja uppbyggingu landsins.
Nú hefur Barack Obama verið tjáð af McChrystal hershöfðingja að til þess að ná tökum á ástandinu í landinu þurfi hann 40.000 manna herlið til viðbótar við þá sem fyrir eru í landinu. Mörgum þykir það til háðungar fyrir friðarverðlaunahafa Nóbels að senda slíkan fjölda hermanna til fjarlægs lands. Fram hjá því sjónarmiði verður hins vegar ekki horft að það hlýtur að vera verkefni fyrir friðarverðlaunahafa Nóbels að taka svo erfiða og óvinsæla ákvörðun til að freista þess að koma í veg fyrir að Talíbanar nái fótfestu í landinu á nýjan leik. Nú reynir á að sameina þjóðir heimsins aftur um það verkefni að byggja upp Afganistan og uppfylla þau loforð sem gefin voru þjóðinni við innrásina. Það er kjörið tækifæri fyrir Obama til að vinna fyrir nóbelnum.
- Það rignir góðum fréttum - 9. júlí 2021
- Álhattaveislan verður aldrei haldin - 5. júní 2021
- Sköpum 7.000 störf - 27. mars 2021