Nú á dögum lifum við í heimi þar sem menn nota tæki og aðferðir sem þeir skilja ekki, en treysta engu að síður. Flestir Íslendingar horfa á sjónvarp, ferðast í flugvél, keyra bíl og borða slátur, en hafa einungis takmarkaða þekkingu á því hvernig þetta varð allt saman til. Það er ekki gott að allir viti allt um allt, sérhæfing er lausnin. Íslendingar veiða fisk og Spánverjar framleiða vín, svo skiptumst við á vörum og allir hagnast.
Til að skilja hvernig aðferðir, tól og tæki verða til er gott að byrja á grunninum. Við byrjum að læra frádrátt og samlagningu, næst margföldun og nokkrum kennslubókum síðar byggjum við brýr sem við vitum að standast álag, því við reiknuðum það út.
Til að útskýra stjórnmál er gott að taka dæmi um íbúa eyjunnar, nokkurskonar frádrátt og samlagningu stjórnmála, sem getur hjálpað við að greina hvort um skynsamlegar ákvarðanir sé að ræða.
Ímyndum okkur að við búum á eyju með 100 íbúum. Þessir 100 íbúar sjá að betra er að einhverjir taki að sér að sjá um grunnþjónustu sem ekki er arðbær. Þetta getur til dæmis verið að tryggja öryggi íbúa með því að vara þá við ef það kemur eldgos, óviðri eða flóðbylgja. Þá ná íbúarnir einnig samkomulagi um fleiri þætti, til dæmis um sameiginlegt vatnsveitukerfi úr helsta stöðuvatni eyjunnar og umferðareftirlitsmann sem sektar alla sem aka ekki á hægri akrein. Alltaf þegar ákveðið er að gera meira en liggur í augum uppi að sé æskilegt fyrir íbúa eyjunnar (öryggi, ákveðnar grunnreglur), þarf að vera afar góður rökstuddur grunnur að baki. Tökum dæmi, það þarf að sannfæra smiðinn um að greiða hluta af sínum tekjum svo að allir aðrir fái ókeypis menntun. Þá þarf að sannfæra hraustan einstakling um að greiða fyrir þjónustu þeirra sem ekki eru hraustir. Jón Rawls myndi reyna að sannfæra íbúa með eftirfarandi rökum: „Áður en þú fæðist veistu ekki hver þú verður í þessum heimi, betra sé því að hafa versta lífernið eins gott og mögulegt er“. Ef íbúar eru sannfærðir af rökum Jóns, eða öðrum, geta þeir haft heilbrigðis- og menntakerfi á kostnað allra, en ekki eingöngu þeirra sem nýta sér þjónustuna.
Ég efast um að íbúar eyjunnar skilji af hverju Íslendingar borgi sérstakri þulu laun til að lesa dagskránna hjá ríkissjónvarpinu. Ég hef í það minnsta aldrei heyrt frá Jóni Rawls hvað það varðar. Þá efast ég einnig um að íbúar eyjunnar skilji alla okkar innflutningstolla eða ríkisgreiðslu vegna mjólkur-, sauðfjár- og grænmetisframleiðslu. Að lokum stórlega efast ég um að þeir hefðu samþykkt að ef bankakall bæjarins kæmi stórskuldugur heim frá útlöndum, skyldu allir íbúar eyjunnar, og börnin þeirra, næstu áratugi greiða fyrir hans óreiðu.
Íbúarnir á eyjunni samþykkja nefnilega ekki að gera eitthvað í sameiningu nema að tillagan sé skynsamleg og gangi upp. Að sama skapi byggir verkfræðingur ekki brú nema að útreikningarnir standist, því þá gæti hún brostið.
Í fjárlagafrumvarpi Íslendinga 2010 er ríkið að setja töluvert fjármagn í verkefni sem erfitt er að skilja að séu innan verkahring þess. „Af hverju“ er spurning sem er ekki spurð nægilega oft, og ef svarið er ekki sannfærandi á að skera burt. Í því samhengi myndu íbúar eyjunnar halda beittum hnífum á lofti.
Fjárlagafrumvarp 2010 hjá data market
Deiglupistill eftir Hafsteinn Gunnar Hauksson, þar sem bent er á ýmislegt vafasamt í frumvarpinu
- Fjárhættuspil á Íslandi? - 24. febrúar 2010
- Tiger Woods hélt framhjá! - 17. desember 2009
- Alþjóðleg Athafnavika er hafin! - 18. nóvember 2009