Í fjárhagslegum erfiðleikum er nauðsynlegt að skera niður. Flestir byrja á því að skera burt allan óþarfa og fara síðan út í erfiðari ákvarðanir. Ríkisstjórn Íslands stendur frammi fyrir þessum erfiðleikum í dag en gallinn er að það hefur ekki verið farið nógu djúpt í fjárlögin. Í staðinn hefur verið ákveðið að taka auðveldu leiðina og skera bara flatt á alla og er niðurskurðurinn alls ekki nægilegur þegar öllu er á botninn hvolft.
Þegar ég þarf að skera niður í útgjöldum ákveð ég ekki að skera flatt niður. Eyða 10% minna í matarinnkaup og 20% minna í skemmtanir. Nei, flestir líta frekar á einstakahluti og dæma út frá þeim hvort þeir séu þarfir eða óþarfir. Margir hafa bent á útgjaldaliði ríkissjóðs sem eru algjörlega óþarfir upp á síðkastið. En er ekki eitthvað meira sem hægt er að skera niður? Er ekki nauðsynlegt á tímum sem þessum að taka erfiðar ákvarðanir fyrir alla þjóðina?
Í ríkiskerfinu er til mikið af undanþágum og sérlögum fyrir einstaka atvinnuhópa. Þetta er upplagður staður til að byrja á. Sjómannaafslátturinn ætti að vera augljóst dæmi. Skattafsláttur fyrir hálauna stétt á engan rétt á sér, alla veganna ekki á þessum tímum. Þegar hart er í ári þarf öll þjóðin að leggja sitt af mörkum og ættu sjómenn að vera þar fremstir í flokki.
Aftur á móti er landbúnaður einn af þeim atvinnuvegum sem fær hvað mest af ríkisstyrkjum. Tugir milljarða renna beint til bænda á ári hverjum og þegar hart er hjá okkur hinum er nauðsynlegt að skera fituna frá. Margir segja samt að það sé alls ekki hægt að skera niður landbúnaðarstyrki, því að það verður að vernda fæðuöryggi landssins. Merkilegt að sú þjóð sem flytur hvað mest út af mat fyrir hvern þegn skuli þurfa passa sérstaklega upp á matvælaöryggi.
Við verðum líka að líta á umheiminn þegar að þetta er rætt. Aðeins eitt ríki hefur hætt að veita landbúnaðarstyrki, Nýja Sjáland. Hvað gerðist þar? Var matvælaöryggi þeirra þjóðar ógnað? Nei, landbúnaður Nýja Sjálands er einn stærsti útflytjandi landbúnaðarvara í heiminum. Lambakjöt þaðan er borið fram í næstum öllum löndum heimssins. Er því ekki líklegra að íslenskur landbúnaður muni frekar hagnast á því missa ríkisstyrki? Til er aðeins eitt dæmi og það gekk einstaklega vel upp. Er þá ekki líklegast að það sama muni gerast hér.
Það er nauðsynlegt að skera niður erfiða útgjaldaliði og taka erfiðar ákvarðanir ef við ætlum, sem þjóð, að komast í gegnum þessa kreppu. Útgjaldaliður jafn stór og landbúnaðarstyrkir eru akkurat dæmi um það sem við ættum að vera horfa á. Sérstaklega þar sem líkur eru á að atvinnugreininni muni vera betur borgið án styrkjanna.
- Af veirum og vöðvabólgum - 19. nóvember 2020
- Minningahöll að molum orðin - 5. október 2015
- Steypum yfir miðbæinn! - 30. september 2015