Fyrir viku var lokahóf KSÍ haldið í Háskólabíói með þó nokkuð minni viðhöfn en undanfarin ár. Fátt kom á óvart við val á leikmönnum ársins, úrvalsliðum og vonarstjörnum framtíðarinnar en hér á eftir fer eigið uppgjör pistlahöfundar á Pepsideild karla árið 2009.
Hæsta fallið: Fjölnir lauk tímabilinu að þessu sinni í síðasta sæti og spila því á ný í fyrstu deildinni eftir tvö tímabil í úrvalsdeildinni. Síðastliðið sumar komu þeir á óvart og enduðu í 6. sæti en í kjölfarið gengu margir af bestu leikmönnum félagsins í raðir annarra liða og því fór ef til vill sem fór.
Minnst á óvart: Það kom ekki beint á óvart að Þróttur skyldi falla. Þeir voru ekki langt frá því í fyrra, þá nýkomnir upp úr 1. deild, og í ár virtist leiðin liggja beint niður frá byrjun, því miður. Það er vonandi að þeir nái að styrkja sig fyrir næsta tímabil og geti þá sýnt eilítið betri hliðar en á liðnu sumri.
Reddingin: Það blés ekki byrlega fyrir Eyjamenn framan af sumri og voru þeir í bullandi fallbaráttu. Þeim tókst þó að bjarga sér fyrir horn og halda sér uppi en miðað við baslið má líkja árangri þeirra við ágætis reddingu.
Baráttuglaðasta liðið: Grindavík byrjaði tímabilið ekki gæfulega en skipt var um þjálfara nokkuð snemma og það skilaði sér. Liðið komst hjá falli þrátt fyrir ýmsar hindranir í leið að settu marki en þar bar án efa hæst hinn ógurlega svínaflensufaraldur sem dundi á herbúðum liðsins síðsumars.
Mesta dramað: Á Hlíðarenda var drama á drama ofan og það ofan í öll vonbrigðin með gengi liðsins. Skipt var um þjálfara á miðju tímabili, nýir leikmenn fengnir og aðrir látnir fara en hvorki gekk né rak. Valsmenn enduðu tímabilið í áttunda sæti og vonast án efa eftir betri árangri á næsta ári með nýjan þjálfara í brúnni.
Spútnikliðið: Stjarnan kom eins og stormsveipur upp í úrvalsdeildina og átti nokkuð epískt tímabil framan af. Svo fór að halla undan fæti og endaði liðið í sjöunda sæti en þjálfarinn, Bjarni Jóhannsson, var þrátt fyrir það valinn sá besti á lokahófi KSÍ.
Mestu vonbrigðin: Af einhverjum ástæðum var ég nokkuð spennt að sjá hvernig Keflavík myndi ganga þetta sumarið eftir að hafa veitt FH-ingum harða keppni um titilinn síðasta sumar. Keflvíkingar voru síðan hvorki fugl né fiskur og hafa nú skipt um þjálfara til að koma í veg fyrir önnur eins vonbrigði á næsta tímabili.
Mest á óvart: Breiðablik kom pistlahöfundi mest á óvart þetta sumarið enda ekki jafn stjörnum prýtt og sum önnur lið deildarinnar. Þeir bættu sig þó nokkuð frá síðasta tímabili og enduðu fyrir ofan miðja deild auk þess sem þeir unnu bikarmeistartitilinn, fyrsta titil karlaliðs félagsins í meistaraflokki.
Týnda liðið: Einhvern veginn týndist Fram á þessu Íslandsmóti sem þeir hefðu getað reddað með því að vinna Blika í bikarnum. Það mistókst þeim og tímabilið hlýtur að vera vonbrigði fyrir Safamýrapilta því hvað er fjórða sætið fyrir eitt af stóru Reykjavíkurliðunum?
Mestu framfarirnar: Árbæingar gerðu sér lítið fyrir og hirtu bronssæti Íslandsmótsins. Eftir að hafa verið nálægt falli síðasliðið sumar mættu þeir tvíefldir til leiks með herforingjann og knattspyrnuþjálfarann Ólaf Þórðarson í broddi fylkingar. Hann sneri blaðinu þrisvar sinnum við og þriðja sætið var Fylkismanna.
Þeir sem eltu: Sanna stórveldið, Knattspyrnufélag Reykjavíkur, var í eltingarleik allt sumarið á eftir FH-ingum. Enginn titill endaði í Vesturbænum þetta árið og er það ömurlegur árangur en Björgólfur Takefusa reyndi að bjarga því sem bjargað varð með því að rúlla prívat og persónulega yfir Val í seinustu umferðinni og hirða þannig markakóngstitilinn.
Meistararnir: Að lokum ber að telja Íslandsmeistarana sjálfa, Fimleikafélagið úr Hafnarfirðinum, en þeir áttu úrvalsdeildina með húð og hári frá upphafi til enda. Þeir sundurspiluðu öll lið deildarinnar á einhverjum tímapunkti og áttu titilinn svo sannarlega skilinn.
Það hefði klárlega verið skemmtilegra Íslandsmót ef eitthvert hinna liðanna ellefu hefði veitt FH alvöru keppni um Íslandsmeistaratitilinn. Hver veit nema að Ingó Veðurguð og félagar hans hjá Selfossi komi á óvart næsta sumar undir stjórn Gumma Ben. og hleypi nýju lífi í titilbaráttuna? Það er að minnsta kosti vonandi að FH verði ekki Rosenborg Íslands og drottni yfir úrvalsdeildinni næsta áratuginn eða svo…
- Án takmarkana - 15. júlí 2021
- Besta fjárfestingin og forréttindin - 21. júní 2021
- Ein þeirra heppnu - 17. maí 2021