Í Deiglupistli á mánudaginn var vikið að Lífeyrissjóðunum á Íslandi og hlutverki þeirra í breyttri heimsmynd á Íslandi.
Hér kemur ein lítil hugmynd sem gæti bæst í hóp annarra.
Fólki sem greiðir í lífeyrissjóð verði gert kleift að stýra litlum hluta af mánaðarlegum greiðslum sínum (t.d. 5%) í fjárfestingar í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum.
Útfærslan gæti verið eitthvað á þessa leið. Hver sjóður myndi þá stofna sérstaka framtaksdeild sem iðgjaldsgreiðendur myndu þá sjálfir velja að greiða í (en hefðu um það frjálst val). Þessi sjóður gæti þá keypt sig inn í fjárfestingasjóði sem þegar fjárfesta í nýsköpunar og frumkvöðlafyrirtækjum og eru viðurkenndir. Slíkir sjóðir eru til dæmis: Frumtak, Nýsköpunarsjóður Atvinnulífsins, Thule Investments og Bjarkarsjóðurinn.
Hugmyndin á bak við þetta er sú að fólk geti valið sjálft hvort það vilji að hluti af sparnaði þess fari í atvinnuuppbyggingu á frumkvöðlastigi, þetta væri s.s. valkvætt. Þannig getur fólk ákveðið hvort það sé nógu framarlega í sparnaðarferlinum sínum til þess að þola sveiflur í ávöxtun (sé fólk bráðlega að fara að nýta sér lífeyrinn þá væri þetta ekki ráðlegt þar sem óvíst er hvenær ávöxtun verður jákvæð).
Inngreiðslur í lífeyrissjóði á hverju ári eru um 150 milljarðar svo að ef allir launþegar myndu kjósa að verja hluta af lögbundnum sparnaði sínum í áhættusamari fjárfestingar á sprotafyrirtækjum þá gætu 7,5 milljarðar árlega verið komnir í fjárfestingasjóði sem miðuðu að nýsköpun.
Ef af þessu gæti orðið væri því um að ræða mikla framför í umhverfi sprotafyrirtækja á Íslandi.
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021