Sem fyrr er um fátt meira rætt í samfélaginu en pólitík. Allir hafa skoðun og eru tilbúnir að tjá sig á kaffistofunum, nafnlausum bloggum og við barborðin um helgar. Því fólki sem tekur hins vegar virkan og raunverulegan þátt í stjórnmálum virðist því miður fara fækkandi.
Álit og áhugi fjölda ungra manna og kvenna hefur farið dvínandi á stjórnmálum og ástæðan er einföld; slæmar fyrirmyndir, lítil hreinskilni og ekkert gegnsæi. Þetta gerir það að verkum að öflugt ung fólk dettur smám saman út og missir áhugann á virkri pólitískri þátttöku.
Það hefur lengi loðað við íslenska stjórnmálamenn í öllum flokkum að hagsmunir flokksins, nú eða popúlismi, eru iðulega ofar á blaði heldur en hugsjónir og málefnaleg sannfæring. Stjórnmálamenn virðast almennt þeirrar skoðunar að það sé afmarkaður þröngur hópur flokksmanna sem muni tryggja þeim framgang í flokknum en grasrótin og almennir kjósendur skipti líklega ekki jafn miklu máli. Fáir þora ófeimnir að segja sínar skoðanir og standa á þeim. Enda eru íslensk stjórnmál í molum – og rótin er mun dýpri en okkar guð blessuðu Icesavesamningar.
Alþingismenn eru gott fólk, fínasta fólk, duglegt fólk. En því miður er staðreyndin sú að það eru allt of fáir framúrskarandi einstaklingar á alþingi sem kallast geta heiðarlegir vinnuþjarkar sem eru samkvæmdir sjálfum sér. Þannig fólk þurfum við á Alþingi. Upp til hópa myndi stór hluti Alþingismanna standa sig frábærlega sem embættismenn en embættismenn eiga ekki heima á Alþingi.
Við þurfum fleiri stjórnmálamenn sem setja málefnin ofar flokkum og eigin starfsöryggi. Það er því gaman að sjá þegar slíkir tilburðir skjóta örsjaldan upp kollinum. Undirritaður hefur seint verið mikill fylgismaður Ögmundar Jónassonar og mun líklega seint verða honum sammála um mörg mál. Við skulum þó gefa okkur að rétt sé að Icesave samningarnir hafi verið ástæða þess að hann sagði sig frá ráðherrastóli – en ekki hræðsla við að beita niðurskurðarhnífnum á velferðarkerfið eins og pólitískir andstæðingar vilja meina. Þá verður að viðurkennast að Ögmundur fær stóran plús í kladdann fyrir að standa við eigin sannfæringu og setja málefnin ofar pólitískum flokkshagsmunum. Halda sannfæringu sinni í Iceesave málinu og fórna ráðherrastólnum. Síðan má svo sem vel vera að um pólitíska „PR-leikfléttu“ sé að ræða, en nóg um það – við þurfum klárlega að sjá mun meira af því í íslenskri pólitík að málefnin séu sett ofar flokkum og einstaklingum. Ögmundur fær að njóta vafans hjá undirrituðum og plúsinn í kladdanum stendur.
Við þurfum minna af pólitískum þvingunum Samfylkingarinnar, eiginhagsmunsemi Framsóknarflokksins, óheiðarleika Sjálfstæðisflokksins, óraunsæi Vinstri grænna – og við þurfum ekki ruglið í Borgarahreyfingunni, punktur.
Við þurfum fleiri öflugar fyrirmyndir sem ganga fram af heilindum. Það á jafnt við í viðskiptum, íþróttum, pólitík og lífinu að jákvæðar fyrirmyndir eru nauðsynlegar til að næstu kynslóðir á eftir feti í sömu fótspor – og bæti um betur. Það þarf svo sannarlega að bæta um betur í íslenskum stjórnmálum.
- Fjárfestingar í sprotafyrirtækjum - 11. nóvember 2010
- Störfin sem vaxa ekki á trjánum - 22. september 2010
- Viðhorf á villigötum - 11. ágúst 2010