Töluverð harka er nú að færast í baráttuna í kring um seinni þjóðaratkvæðagreiðslu Íra um Lissabonnsáttmálann, en hún mun eiga sér stað 2. október. Evrópusambandið leggur nú allt kapp á að Írar samþykki sáttmálann og hafa gripið til þess ráðs að greiða fyrrum starfsmönnum DELL á Írlandi, sem allir misstu vinnuna, 14,8 milljónir €. Er þetta gert undir þeim formerkjum að Evrópuríkin standi saman þegar erfiðleikar koma upp og að þetta sé til marks um evrópska samkennd og hjálpsemi sem einkenni Evrópusambandið. Talið er að slíkar ráðstafanir séu nauðsynlegar þar sem andstæðingar Lissabonnsáttmálans hafa heldur verið að styrkja stöðu sína undanfarna daga og mælast nú í kring um 30%, sem er svipað og hlutfall þeirra sem ekki hafa gert upp hug sinn.
Andstæðingar Evrópusambandsins, undir forystu Nigel Farage á Evrópuþinginu, hafa látið prenta og dreifa í öll hús á Írlandi, bæklingnum The Truth about the Treaty. Á bæklingurinn að lýsa áhrifum Lissabonnsáttmálans á Evrópusambandið og írskt samfélag og þótt heldur frjálslega sé farið með staðreyndir að þá skýrir hann ágætlega hræðslu manna við ýmsar breytingar sem sáttmálinn mun hafa í för með sér fyrir Evrópusambandið verði, hann að lögum. Hvað sem öðru líður er þó ljóst að kosningarnar á Írlandi munu verða gríðarlega spennandi, sérstaklega í ljósi þess að þær gætu haft mjög ófyrirséðar afleiðingar.
Það er ljóst að Evrópusambandið ætlar að vera undirbúið fyrir þann möguleika að Írar kjósi nei, en síðastliðinn föstudag lýsti Silvio Berlusconi því yfir, að hafni Írar Lissabonnsáttmálanum ættu ákveðin Evrópusambandsríki að taka sig saman og mynda kjarnaríki Evrópusambandsins. Þessi ríki myndu starfa saman á grundvelli Lissabonsáttmálans og ekki láta sig neinu skipta þótt önnur ríki kysu ekki að vera með. Er því mögulegt að sú staða gæti komið upp að kjósi Írar nei 2. október að þá muni Evrópusambandið klofna með ófyrirséðum afleiðingum. Gerist slíkt, bendir það þó þó frekar til þess að ekki yrði af frekari stækkunum sambandsins í lengd og bráð.
- Evrópulaun - 18. janúar 2010
- Bókadómur: Frá Evróvision til evru – allt um Evrópusambandið - 14. október 2009
- Sannleikurinn um sáttmálann - 22. september 2009