Til þess að skapa verðmæti þá þarf í langflestum tilfellum fjármagn. Fjármagn er yfirleitt tvenns konar: lán eða eigið fé. Lánin þarf að greiða aftur samkvæmt fyrirfram ákveðnum samningi. Eigið fé sem menn leggja fram sem fjárfestingu getur haft meiri sveigjanleika.
Í dag er enginn erlendur aðili að lána íslensku bönkunum þar sem þeir eru í raun í gjaldþrotaskiptum. Þá er eftir innlent fjármagn en vextir á Íslandi eru svo háir um þessar mundir að fá ef nokkur fyrirtæki geta staðið undir þeim svo vel sé.
Fyrir uppbyggingu á atvinnustarfsemi stendur því aðeins eftir möguleikinn á því að erlendir aðilar komi inn með eigið fé inn í fyrirtæki og fjárfesti.
Það er ekkert undarlegt, hættulegt eða vafasamt við „erlenda fjárfesta“. Allt slíkt tal er hefðbundinn hræðsluáróður notaður til þess að skapa ótta og óróa á meðal almennings.
Fjárfestar sem hafa ekki íslenskt vegabréf eru hvorki betri né verri en íslenskir fjárfestar. Umræða um þá á ekki að falla sjálfkrafa í klisjur um vonda, arðrænandi útlendinga.
Fjárfestar leggja pening til verkefna sem þeir telja að geti skilað þeim ásættanlegri ávöxtun. Þetta er eins sama frá hvaða landi þeir koma.
Erlendar fjárfestingar hjálpa Íslandi á tvennan hátt. Innstreymi fjármagns styrkir gengi krónunnar og fjármagnið nýtist við að skapa verðmæti sem styrkir hagkerfið. Þetta er lykilmálið.
Spurning um hvort það sé betra ef erlendir fjárfestar setji pening í stóriðju eða sprotafyrirtæki er í raun röng spurning. Fjárfestar eru tilbúnir til þess að fjárfesta í stóriðjuverkefnum vegna þess að þeir hafa mikla trú á því að fjárfestingin skili sér til baka. Það er ekkert sem hindrar erlenda fjárfesta í að fjárfesta í sprotafyrirtækjum. Bandaríski áhættufjárfestingasjóðurinn General Catalyst Partners er þannig stór hluthafi í sprotafyrirtækinu CCP.
Það sem þarf að hafa í huga þegar erlendir aðilar koma til landsins til þess að taka þátt í endurreisn efnahags landsins er að gagnsæi gildi í öllum viðskiptum sem þeir eiga við opinbera aðila.
Þannig þarf að gæta þess að það verði opið og gagnsætt ferli þegar eignir ríkisbanka verða boðnar til sölu og öllum leyft að bjóða í þær en ekki sérstökum vildarvinum stjórnvalda eða stjórnenda banka. Einnig væri mjög sniðugt að gerð sé krafa um að allar eignir verði staðgreiddar svo vandræðalaust verði að bera tilboð saman, krónu á móti krónu.
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021