Mikið hefur verið fjallað um mál hins dæmda hryðjuverkamanns Abdelbaset Ali Mohmed Al Megrahi. Hann var árið 2001 fundinn sekur um hryllilegt ódæði, þegar hann var dæmdur fyrir að hafa sett sprengju í farþegaflugvél frá bandaríska flugfélaginu Pan Am árið 1988 en sprengjan sprakk svo yfir skoska bænum Lockerbie og dreifðist brakið yfir bæinn. Sofandi bæjarbúar áttu sér einskis ills von þegar vélin hrapaði og varð fjölmörgum bæjarbúum að bana auk farþegum og áhöfn. Hryðjuverkið kostaði um 270 manns lífið. Al Megrahi var dæmdur í 27 ára fangelsi og hefur setið í fangelsi í Skotlandi.
Deilur hafa risið síðustu vikur vegna ákvörðunar skosku heimastjórnarinnar um að láta Al Megrahi lausan úr haldi af mannúðarástæðum en hann þjáist af krabbameini og er sagður dauðvona. Það er vissulega meiri mannúð en hann sýndi saklausum fórnarlömbum sínum. En það sem vekur einna mesta furðu er vandræðagangur Gordons Brown, forsætisráðherra Bretlands, og bresku ríkisstjórninnar við að reyna að hylma yfir það að lausn Al Megrahis væri ætlað að liðka fyrir viðskiptum þeirra við Líbýu.
Ákvörðun skosku heimastjórnarinnar um að láta hryðjuverkamanninn lausan vakti upp hávær mótmæli í Bandaríkjunum, en langflestir farþegar vélarinnar voru bandarískir. Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagðist telja að hann ætti að afplána sinn dóm jafnvel þótt það þýddi að hann myndi deyja í skosku fangelsi. En Al Megrahi var látinn laus og hélt heim til Líbýu þar sem honum var fagnað sem þjóðhetju, Bandaríkjunum og fleirum til mikillar gremju, en sérstaklega hafði verið óskað eftir því að móttökurnar yrðu hógværar.
Mjög fljótlega fór sá orðrómur á kreik að sú ákvörðun að leysa Al Megrahi úr haldi hefði aldrei verið tekin nema í samráði við Downingsstræti 10 og að Gordon Brown hafi beitt sér fyrir því að skoska heimastjórnin leysti hann úr haldi. Brown harðneitaði þessu og sagði meðal annars að ekkert samsæri hefði verið í gangi, engir olíusamningar lægju að baki og bresk stjórnvöld hefðu svo sannarlega ekki þrýst á skosku heimastjórnina. Sú skýrings Browns, sem sjálfur er nú Skoti, hélt ekki lengur en í nokkra daga því þá viðurkenndi Jack Straw, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands, að viðskiptahagsmunir hefðu vissulega verið stór þáttur í þeirri ákvörðun að sleppa þessum dæmda hryðjuverkamanni úr haldi. Samkomulagið virðist því hafa verið að gegn því að sleppa manni dæmdum fyrir hroðaleg fjöldamorð úr haldi, fengju bresk fyrirtæki að vinna olíu í Líbýu. Þetta er að sjálfsögðu í hrópandi mótsögn við það sem Brown sjálfur sagði aðeins nokkrum dögum fyrr.
Til að kóróna svo niðurlægingu Browns í þessu máli hefur hann neyðst til að verða við beiðni um að bresk stjórnvöld aðstoði fjölskyldur fórnarlamba hryðjuverka írska lýðveldishersins (IRA) við að ná fram bótum frá stjórnvöldum í Líbýu. Almennt er talið að þarlend stjórnvöld hafi fjármagnað hryðjuverkastarfsemi IRA. Hann hafði áður neitað slíkri aðstð. Til að klóra í bakkann og reyna að verja algjöran viðsnúning Browns í þessu máli hafa aðstoðarmenn hans útskýrt málið þannig að nefndinni sem hafi verið stofnuð um þetta sé einungis ætlað að „veita ráðgjöf“ en ekki stýra samningaviðræðum. Ágætis útúrsnúningur það.
Gordon Brown hefur áskotnast sá vafasami heiður að beita umdeildum hryðjuverkalögum, sem ganga óeðlilega langt inn á persónulegt frelsi borgaranna (líkt og fjallað var um á Deiglunni fyrr í vikunni), á mjög lúalegan hátt gegn vopnlausri vinaþjóð, Íslandi. Nú hefur hann bætt um betur og frelsað raunverulegan hryðjuverkamann úr fangelsi til að liðka fyrir olíuviðskiptum við Líbýu. Hver næstu skref hins skoska leiðtoga Verkamannaflokksins verða í baráttunni við hryðjuverk hefur pistlahöfundur ekki ímyndunarafl til að spá fyrir um.
- #FreeBritney - 22. júlí 2021
- Næstu skref í fæðingarorlofsmálum - 6. júlí 2021
- Hvað tökum við með okkur úr faraldrinum? - 23. júní 2021