Niðurskurðarhnífurinn er kominn á loft og skorið er niður á flestum sviðum samfélagsins, sviðum sem jafnvel voru fjársvelt þegar allt gekk sem best hið herrans ár 2007. Menntakerfið er eitt af þeim sviðum sem sífellt er fjársvelt sama hvernig stendur á efnahagi þjóðarinnar. Allir virðast sammála um mikilvægi menntakerfis og menntaðrar þjóðar, en vandinn virðist alltaf vera sá sami, of litlu fjármagni er veitt í skólakerfið. Háskólastigið er hér engin undantekning og háskólanemar virðast hafa verið síðastir á lista til að njóta lífsgæða góðæris en fyrstir til þess að missa kjör þegar skera átti niður.
Strax í janúar á þessu ári ákvað Háskóli Íslands að axla þá samfélagsábyrgð sem honum ber sem opinber háskóli og opnaði dyr sínar fyrir 1400 nýnemum, á sama tíma og fjárframlög til skólans voru skert verulega. Nú 7 mánuðum síðar hefur háskólinn opnað dyr sínar fyrir 4000 nýnemum, en hinsvegar hefur enn ekkert bolað á auknu fjármagni. Háskóli Íslands býr yfir breidd á námsframboði sem enginn annar háskóli á landinu getur borið sig saman við, hann er fjölmennasti háskólinn og því ljóst að þar fjölgar mest. Innan veggja Háskólans á sér stað rannsóknarvinna og kennsla sem er ómetanleg fyrir íslensku þjóðina og sum mikilvægustu fyrirtæki í íslensku samfélagi í dag eiga rót sína að rekja til Háskóla Íslands.
Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á að fólk mennti sig í stað þess að mæla götur bæjarins á þessum erfiðu tímum og ljóst er að þjóðin sækist eftir því að mennta sig frekar en að þiggja bætur þegar litið er til stóraukins fjölda háskólanema eftir bankahrun. Maður hlýtur þá að velta því fyrir sér hvað stjórnvöld hafa gert til þess að beina fólki í nám frekar en á braut bóta, sérstaklega í ljósi þess að félags- og atvinnuleysisbætur eru 20-50% hærri heldur en námslán.
Stjórnvöld hafa skorið niður til Háskólans sem og til Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN). Minna fjármagni er veitt með hverjum nemenda inn í Háskólann og mánaðarframfærsla hjá LÍN verður sú sama 2009-2010 og hún var 2008-2009, eða 100.600 kr, þrátt fyrir stöðugt hækkandi verðlag. Stöldrum nú við… ætlaði ríkisstjórnin ekki að beina fólki í nám? Var leiðin sú að skera niður það mikið að Háskólinn mun eiga bágt með að sinna hlutverki sínu sem flaggskip íslensks menntakerfis? Var leiðin sú að búa svo bágt um hag námsmanna að þeir hafa mánaðarlegt framfærslulán sem er 20% lægra en grunnframfærsla í landinu?
Stjórnvöld standa nú frammi fyrir því að velja hvort þau ætli að halda uppi þjóð á bótum eða hvort þau ætli að mennta þjóðina. Síðari kosturinn er tækifæri til þess að við komum tvíelfd til baka úr þeim efnahagshremmingum sem ganga nú yfir þjóðina. Í dag eru ótrúleg sóknarfæri til þess að auka menntunarstig þjóðarinnar sem mun styrkja stöðu Íslands þegar efnahagskreppan hefur gengið yfir. Með því að hægja á niðurskurði í menntakerfinu getum við byggt upp öflugt þekkingarsamfélag. Spurningin er því hvort stjórnvöld ætla sér að velja skammtímalausnina og skera niður í menntakerfinu, leið sem felur ekkert annað í sér en að spara eyrinn en kasta krónunni.
- Hvað verður um Evrópusambandið? - 10. desember 2011
- 540 daga stjórnarkreppa á enda – bara efnahagskreppan eftir - 3. desember 2011
- Vald án ábyrgðar - 20. apríl 2011