Þegar skammdegið verður sem mest og áhyggjur af íslensku krónunni, Icesave og öðru misskemmtilegu eru að sliga mann er það kærkominn flótti frá raunveruleikanum að stíga inn í undraheim leikhússins og gleyma stað og stund. Borgarleikhúsið býður áhorfendum sínum upp á fjöldann allan af áhugaverðum sýningum í vetur og það á góðu verði.
Fyrir einu og hálfu ári tók Magnús Geir Þórðarson við starfi leikhússtjóra Borgarleikhússins. Hann innleiddi þær nýjungar í leikhúsið að sýna sýningar í stuttan og snarpan tíma en ekki að hafa þær í gangi allan vetur. Þannig er hver sýning keyrð áfram og sýnd ört og svo tekur næsta sýning við. Þetta fyrirkomulag virðist hafa reynst mjög vel og var síðasta leikár það aðsóknarmesta hingað til í Borgarleikhúsinu.
Margar spennandi sýningar verða í gangi í Borgarleikhúsinu næsta vetur en fyrst mætti kannski nefna sýninguna „Söngvaseið“ sem heldur áfram frá fyrra leikári. Fullt var út úr dyrum á flestallar sýningar enda fáir sem vilja láta ævintýrið um Von Trapp fjölskylduna fram hjá sér fara. Stjarna sýningarinnar er að sjálfsögðu Valgerður Guðnadóttir í hlutverki Maríu en hún fer gjörsamlega á kostum í sýningunni. Krakkahópurinn gæðir verkið lífi og stendur sig alveg hreint ótrúlega vel.
Margir muna eflaust eftir þeim félögum Harry og Heimi, sem slógu í gegn á árunum 1988-1992. Þessir eftirminnilegu einkaspæjarar munu stíga á svið í Borgarleikhúsinu strax í haust og skemmta áhorfendum. Það er þríeykið vinsæla úr Spaugstofunni, Sigurður Sigurjónsson, Örn Árnason og Karl Ágúst Úlfsson sem gæða söguna um Harry og Heimi lífi.
Telja má líklegt að „Gauragangur“ eftir Ólaf Hauk Símonarson verði ein af stórsýningum vetrarins. Þó nokkuð mörg ár eru síðan „Gauragangur“ sló í gegn hjá Íslendingum og því tilvalið að endurnýja kynnin við Orm Óðinsson og félaga hans. Athyglisvert verður að sjá þríeykið Guðjón Davíð Karlsson, Ilmi Kristjánsdóttur og Hallgrím Ólafsson spreyta sig á hlutverkum sínum. Svo skemmir tónlist Nýdanskrar ekki fyrir, en hún var samin sérstaklega fyrir verkið á sínum tíma.
Í lok desember verður frumsýnt leikritið „Faust“ en hann þekkjum við til að mynda úr leikriti Goethe og úr bókinni „Meistarinn og margaríta“ eftir Mikhail Bulgakov. Gísli Örn Garðarson, oftast kenndur við Vesturport mun leikstýra verkinu og verður hér öllu tjaldað til en Gísli hefur fengið hinn frábæra Nick Cave til að semja tónlist og söngtexta fyrir verkið. Úrvalshópur leikara fer með hlutverk í sýningunni en gaman er að sjá fjölbreytnina í leikurum fyrir komandi vetur.
Sú sýning sem pistlahöfundur hlakkar mest til að sjá er „Fjölskyldan – ágúst í Osage sýslu“. Verkið er eftir eitt fremsta leikskáld Bandaríkjanna, Tracy Letts og hlaut meðal annars Pulitzer og Tony verðlaun á síðasta ári. Þar munu kunnugir leikarar Borgarleikhússins spreyta sig en af þeim má nefna til dæmis Sigrúnu Eddu Björnsdóttur, Þröst Leó Gunnarson, Margréti Helgu Jóhannsdóttur, Hönnu Maríu Karlsdóttur og Pétur Einarson.
Sýningin „Rautt brennur fyrir“ er sú sýningin sem gæti komið mest á óvart. Verkið er eftir íslenskan höfund, Heiðar Sumarliðason sem nú stundar nám í leikstjórn í London. Þar munu ungir leikarar fá tækifæri til að láta ljós sitt skína og forvitnilegt verður að sjá hvernig til tekst með þetta fyrsta sviðsetta leikrit Heiðars.
Rúsínan í pylsuendanum verður svo í maí þegar þrjár ólíkar uppsetningar á hinu sívinsæla verki „Rómeó og Júlía“ munu standa leikhúsgestum til boða. Sýningar koma frá Litháen og Sviss en einnig mun Vesturport snúa aftur með eftirminnilega uppsetningu sína á verkinu. Ástir og örlög elskenda verða því allsráðandi þegar fer að vora að nýju.
Magnús Geir hefur markvisst styrkt leikarahópinn en gaman verður að fylgjast með leikurum á borð við Nínu Dögg Filippusdóttur úr Vesturporti, Jörund Ragnarssyni úr Næturvaktinni og Dagvaktinni og Hilmi Snæ Guðnasyni en þau ásamt fleirum hafa bæst í hóp samningsbundinna leikara í Borgarleikhúsinu.
Stefna Borgarleikhússins hefur verið að reyna að fá ungt fólk í leikhús með markvissum hætti. Boðið er upp á áskriftarkort fyrir ungt fólk og námsmenn á 4.450 krónur. Fyrir það fást fjórar sýningar sem gera það um það bil 1.100 krónur á sýningu sem er sambærilegt verð og fyrir bíómiða. Bíómiði í Sambíóin t.d. kostar 1.050 krónur. Hér er því kominn raunverulegur valkostur fyrir ungt fólk. Lengi vel var mikið af ungu fólki sem fór aldrei nokkurn tímann í leikhús vegna þess hve dýrt það var. Til viðmiðunar þá kosta leikhúsmiðar á stórar sýningar í London á bilinu 30-100 pund. Á núverandi gengi væri maður þá að borga hugsanlega 15.000 krónur fyrir leikhúsmiða. Þess má einnig geta að áskriftarkortin í Borgarleikhúsið í vetur eru á sama verði og í fyrra og það hlýtur að teljast lúxus miðað við allt.
Gaman verður svo að fylgjast með hvort Borgarleikhúsið stendur undir væntingum. Eftir vel heppnaðan vetur í fyrra bíða margir spenntir eftir næsta leikári og bíður því mikil áskorun leikhússtjóra að sjá til þess að staðið verði undir þessum væntingum.
Hér má lesa meira um dagskrá Borgarleikhússins
- #FreeBritney - 22. júlí 2021
- Næstu skref í fæðingarorlofsmálum - 6. júlí 2021
- Hvað tökum við með okkur úr faraldrinum? - 23. júní 2021