Fyrirmæli stjórnvalda um að enginn ríkisstarfsmaður skuli fá hærri laun en forsætisráðherra gætu hafa virst skynsamleg. Stjórnmálamenn standa frammi fyrir þeirri staðreynd að skera verður miskunnarlaust niður í ríkisrekstrinum og þar sem laun eru líklega stærsti kostnaðarliðurinn verður því ekki hjá því komist að lækka þau. Með það í huga, er ekki rétt að taka af allan vafa um að enginn eigi rétt á hærri launum en hæst setti embættismaður ríkisins?
Atvinnuleysi nálgast nú 10% sem er ástand sem varla getur talist ásættanlegt og verður ekki lagað án breytinga í atvinnulífinu. Atvinnurekendur, hvort sem þeir eru í einkageiranum eða ríkið, geta fyllt stöður fyrir minni kostnað en áður og samningsstaða þeirra sem eru nú þegar í vinnu hefur versnað til muna sem óhjákvæmilega veldur því að laun lækka. Því má búast við að ef vinnumarkaðurinn er þokkalega óheftur eigi launakostnaður hins opinbera og einkageirans eftir að lækka töluvert án handafls.
En á móti má ímynda sér að markaðsöflin virka ekki eins vel hjá ríkinu og því sé ekki hægt að gera ráð fyrir því að laun þar leiti í einhverskonar jafnvægi í ljósi þess ástands sem ríkir. Því sé gott að koma þeim skilaboðum skýrt til skila að þeir sem eru með há laun geti ekki búist við að komast upp fyrir eitthvað hámark og ef laun þeirra eru hærri megi búast við lækkunum. Allir þurfa að taka á sig skerðingu og þeir sem fá mest skulu lækka mest í launum.
En hversu gagnlegt er slíkt viðhorf nú þegar mikil hætta er á að vonleysi skjóti rótum í þjóðfélaginu og líklegt er að ungt fólk telji að tækifærin séu annarsstaðar en á Íslandi?
Viðhorf til launa á Íslandi virðist alltaf hafa verið dálítið sérstakt. Það virðist vera ríkjandi skoðun að laun séu einhverskonar skipting á sameiginlegum gæðum og ættu að vera úthlutað samkvæmt þörfum hvers og eins í stað þess að vera áunnin. Kemur þetta berlega í ljós í umræðu um birtingu álagningaskráa þar sem launahæsta fólk landsins má búast við því að sjá nöfn sín á síðum tímarita og dagblaða þar sem hæstu tekjurnar eru skoðaðar í neikvæðu ljósi. Aldrei virðist vera íhugað að einstaklingarnir sem njóta þess heiðurs að birtast á síðum þessara blaða, eigi kannski launin skilið og fái laun í samræmi við getu þeirra og hæfileika. Jafnframt fer ekki mikið fyrir þeirri staðreynd að þeir sem hafa hæstu launin greiða jafnframt mest til samneyslunnar, sem algjör forsenda þess að við getum haldið úti velferðarkerfi. Laun eru og eiga að vera greidd í samræmi við framlag hvers og eins til fyrirtækis eða stofnunar og svo lengi sem fólk kemst ekki upp með óeðlilega sjálftöku launa er eðlilegt að ekki séu takmörk á því hversu há þau geta orðið.
Slíkt hámark virkar letjandi og hæglega má hugsa sér aðstæður sem slíkt fyrirkomulag getur verið skaðlegt fyrir ríkið. Sennilega þarf hið opinbera að ráða til sín sérfræðinga til að leysa úr þeim ótal verkefnum sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir nú um stundir sem gæti skipt sköpum fyrir framtíðarhagsæld á Íslandi. Vel er hugsanlegt að þeir fari fram á laun sem eru hærri en laun forsætisráðherra sem er réttlætanlegt ef ávinningur af vinnu þeirra er meiri en sem nemur laununum. Eins mætti sjá fyrir sér að upp geti komið tilfelli þar sem læknar með margra ára sérfræðinám og tilheyrandi skuldir þyrftu að vinna tvöfalda vinnu t.d. ef farsótt geisaði, og væri umrætt hámark þá beinlínis skaðlegt.
Nú þegar ríkið er komið með stóran hluta atvinnulífsins í fangið og útlit er fyrir að enn fleiri fyrirtæki fari í þrot er nauðsynlegt að horfa til framtíðar og sjá til þess að fólk geti búist við betri tímum þegar fram líða stundir. Hvatinn til að gera betur, stofna fyrirtæki um góðar hugmyndir og skapa svigrúm til að vænka hag sinn eru nokkrar af þeim forsendum sem við verðum að hafa á hreinu til að losa okkur upp úr hjólförum stöðnunar og mistaka fortíðarinnar. Auðvitað er eðlilegt fólk treysti því ekki að tenging sé á milli hárra launa og framlags þeirra sem þiggja þau í ljósi þeirra þóknana og sjálftöku sem var við lýði atvinnulífinu fyrir hrun. Framhjá því verður þó ekki litið að við þurfum að viðhalda tekjustofnum þjóðarinnar á næstu árum til að fjármagna réttlátt og mannlegt samfélag. Það verður ekki gert í sjálfboðavinnu og vel er hugsanlegt að sá einstaklingur finnist hjá ríkinu sem gerir meira gagn en forsætisráðherra. Það er meira að segja mjög líklegt.
- Nýr 100 ára Selfoss - 20. júlí 2021
- Íslensk sumarnótt - 7. júlí 2021
- Skýrar línur í bankasölu - 24. júní 2021