Í þessum skrifuðu orðum er pistlahöfundur á leið sinni frá New York til fiskimannaþorps í Ekvador þar sem hún mun dvelja næsta árið eða svo. Í aðdraganda ferðarinnar hefur vinum og vandamönnum orðið nokkuð tíðrætt um það hvers vegna ég vilji yfirgefa Ísland; er ég kannski bara að flýja kreppuna?
Vafalítið hlýtur ástandið á Íslandi að vera orðið ansi slæmt þegar fólk er farið að flýja kreppuna til Suður-Ameríku. Sem betur fer er það nú líka ekki orðið svo slæmt enda flótti frá skuldum þjóðarbúsins ekki ástæða ferðar minnar. Stundum er bara kominn tími til að takast á við eitthvað nýtt. Það má heldur ekki verða þannig að við hættum að láta drauma okkar rætast, hversu stórir eða smáir sem þeir eru, vegna tímabundinna efnahagsþrenginga. Við megum ekki leggja árar í bát og gefast upp fyrir kreppunni heldur þvert á móti halda áfram að lifa lífinu þrátt fyrir ástandið.
Því er hins vegar ekki að neita að tilfinningarnar eru blendnar við brottför. Ég vil ekki „beila“ á landinu mínu, missa trúna á framtíð þess og búast við því versta fyrir hönd þjóðarinnar. Hálft í hvoru finnst mér ég vera að svíkja lit og þjóðerniskenndin vaknar. Það er jafnvel að ég vilji ekkert frekar en að hjálpa til við að borga Icesave. Skrýtið, ekki satt?
Jú, vægast sagt mjög skrýtið og stöldrum því aðeins við. Einu sinni var það ekki höfuðsynd að flytja til útlanda og fara í nám eða sækja vinnu, þvert á móti var litið á það sem þjóðhagslegan ávinning að Íslendingar öfluðu sér sem víðtækastar þekkingar og öðluðust sem mesta reynslu. Í dag horfir þetta aðeins öðruvísi við því eðlilega óttast stjórnvöld og almenningur að meirihluti þeirra sem flytja á annað borð úr landi, til lengri eða skemmri tíma, komi aldrei aftur til með að lifa og starfa í heimahögunum.
Þjóðerniskenndin er ekki jafnsterk í öllum, eðlilega. Sumum finnst það ekkert tiltökumál að flytjast búferlum frá Íslandi og það er þeirra ákvörðun. Samt sem áður leyfi ég mér að trúa því að margir, og ef til vill meirihluti þeirra sem flytja nú úr landi, hvort sem það er vegna kreppunnar eða einhvers annars, komi til baka og taki hér þátt í að byggja upp nýtt samfélag. Ég veit það að minnsta kosti að ég kem aftur, og ekki út af því að ég verð svo æst í að borga Icesave, heldur vegna þess að hér á ég heima, hér býr fjölskyldan mín og flestir vina minna… ennþá. Mér þykir líka vænt um landið mitt og þjóðina mína og mig langar að leggja eitthvað af mörkum fyrir þetta samfélag. Ég vil taka þátt.
Ég held að allir Íslendingar geti sammælst um að hér þarf að taka til, breyta ýmsu og bæta og einhvern veginn efast ég um að það verði gert fyrir tilstilli skeleggra stjórnvalda. Íslenska þjóðin mun á endanum sjálf rífa sig á lappir, byrja að byggja upp og ég tel að fleiri munu taka þátt í því en nokkurn grunar núna.
- Án takmarkana - 15. júlí 2021
- Besta fjárfestingin og forréttindin - 21. júní 2021
- Ein þeirra heppnu - 17. maí 2021