Skuldbreyting, skuldaaðlögun, greiðsluaðlögun, greiðslujöfnun, skilmálabreyting, lánalenging. Úrræðin eru mörg, og geta komið ýmsum að gagni sem lenda í erfiðleikum. En nauðsynlegt er fyrir skuldara að kynna sér úrræðin vel áður en til aðgerða er gripið, því í sumum tilfellum geta þau verið dýrkeypt. Eins er nauðsynlegt að sem flestir kynni sér þær lausnir sem lánastofnanir bjóða upp á, til að styðja við upplýsta umræðu um uppbyggingu efnahagslífsins eftir áfall síðasta hausts. Þetta er ekki skemmtilegasta kaffiborðsumræða sem til er, an nauðsynleg engu að síður.
Eitt þessara úrræða er svokölluð „skuldaaðlögun“ Kaupþings, sem felst í því að íbúðaláni sem er hærra en markaðsvirði fasteignar er skipt í tvennt. Annars vegar verður til nýtt fasteignaveðlán, að upphæð sem svarar 80% af markaðsvirði, sem greiða þarf af rétt eins og áður. Hins vegar verður til „biðlán“ sem ekki þarf að greiða af í þrjú ár. Nýju lánin eru í öllum tilfellum í íslenskum krónum. Til viðbótar er útbúið „tryggingabréf“ sem er fasteignaveðbréf að upphæð 30% af markaðsvirði fasteignar. Bankinn á því eftir skuldaaðlögunina veðkröfu á hendur skuldaranum sem svarar 110% af núvirði fasteignar.
En þótt nýja fasteignaveðlánið sé mun lægra en uphaflega lánið þá er heildarskuldin eftir skuldbreytinguna nákvæmlega sú sama og fyrir skuldbreytinguna. Hins vegar hafa vaxtakjör lánanna breyst umtalsvert.
Sá hluti lánsins sem „fer í bið“ er á mjög hagstæðum vaxtakjörum, til skemmri tíma að minnsta kosti: Af biðláninu reiknast engir vextir, og engar verðbætur. Þetta er óumdeilanlega hagstæðasta lán sem býðst í dag.
Á móti kemur að vaxtakjör nýja fasteignaveðlánsins eru að öllum líkindum nokkuð verri en þess gamla: Kaupþing lánaði umtalsverðar upphæðir á 4,15% föstum vöxtum á sínum tíma, en af nýja láninu reiknast „breytilegir kjörvextir sem eru nú 5,80%“. Ekki hefur reynst mjög hagstætt að skulda Kaupþingi kjörvaxtalán, en neytendastofa úrskurðaði í mars að meðhöndlun (hækkun) bankans á kjörvöxtum útistandandi lána hefði verið ólögleg. Þótt batnandi mönnum sé best að lifa og líklegt sé að betur verði fylgst með kjörvaxtaþróun bankanna í framtíðinni, er afskaplega ólíklegt að vextirnir nálgist 4,15%.
Eins ríkir mikil óvissa um hvað verður um biðlánið að þremur árum liðnum. Lögfræðilega er krafa bankans um fulla endurgreiðslu biðlánsins nákvæmlega jafnrétthá og krafan um að einstaklingar greiði sín yfirdráttarlán til baka. Í samtali við pistlahöfund tók fulltrúi Kaupþings reyndar fram að mjög ólíklegt væri að gengið yrði fram af sömu hörku við innheimtu biðlána og við innheimtu yfirdráttarlána. Það kann að vera rétt mat og um málið ríkir mikil óvissa, meðal annars vegna þess að ríkisvaldið hefur ekki enn kveðið á um með óyggjandi hætti hvernig landslagið verður á næstu árum. Pistlahöfundur er þó ekki jafnbjartsýnn og Kaupþing um að biðlánin séu einhvers konar „súkkulaðikúlulán“ enda markmið fjármálastofnana að hámarka heimtur lána sinna (eins og vera ber), hvort sem þær eru í eigu innlenndra aðila eða erlendra.
En vaxtamunur á nýju og gömlu verðtryggðu láni vegur ekki þungt í samanburði við þá líklegu kjararýrnun sem felst í myntbreytingu gjaldeyrislána. Þeir sem tóku gjaldeyrislán á meðan raungengi krónunnar var í hæstu hæðum hafa nú orðið fyrir gríðarlegum búsifjum, við það að gengi krónunnar féll. Raungengi krónunnar er nú í sögulegu lágmarki, og þótt raungengi landa geti haldis lágt í nokkurn tíma eftir bankakreppur er nánast útilokað annað en að á næstu árum muni annaðhvort gengisstyrking eða há verðbólga þrýsta raungenginu uppávið. En hvort sem um gengisstyrkingu eða verðbólgu verður að ræða munu þeir sem myntbreyta lánum í dag nánast örugglega taka á sig tvöfalt högg.
Hugmyndir fjármálastofnana um að „leysa“ fjárhagsvanda einstaklinga með því að myntbreyta gjaldeyrislánum í dag ganga raunar algerlega í berhögg við málflutning sömu fjármálastofnana þegar þær markaðssettu lánin á sínum tíma. Grundvallarforsendan að baki lánunum var að 15 til 40 ára lánstími væri svo langur að gengissveiflur jöfnuðust út (þar sem reynslan sýnir langtímaraungengi gjaldmiðla er nokkuð stöðugt). Það skýtur því skökku við að sjá þessar fjármálastofnanir, tveimur til þremur árum síðar, þrýsta skuldurum til þess að myntbreyta lánum beint í kjölfar einhvers mesta gengishruns Íslandssögunnar.
Skuldaaðlögun er því einna helst „aðlaðandi“ kostur fyrir einstaklinga sem:
1. Hafa lán í íslenskum krónum, svo skuldaaðlögunni fylgi ekki dýr myntbreyting láns.
2. Skulda fjárhæðir sem eru umtalsvert yfir markaðsverði íbúðar, sem þýðir að hagstæða biðlánið verður hlutfallslega hátt, en nýja fasteignaveðlánið (sem er líklega óhagstæðara en gamla lánið) verður hlutfallslega lágt.
3. Hafa fullvissað sig um að þeir vilji ekki fara í „greiðsluaðlögun“ (niðurfærsla skulda með fulltingi dómstóla) í stað „skuldaaðlögunar“ (viðskiptasamningur milli skuldara og banka um frestun afborgana og breytt vaxtakjör).
Fjármálastofnanir hafa verið skapandi í að bjóða upp á leiðir sem gera skuldurum kleift að standa við sitt, enda er það hlutverk fjármálastofnanna að verja útlán sín. En skuldarar þurfa líka að vera skapandi og vel upplýstir þegar þeir leita úrræða. Og enginn ætti að semja við bankann sinn um úrræði vegna greiðsluerfiðleika nema að hafa ráðfært sig áður við hlutlausan ráðgjafa, og er þar Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna góður kostur. Samkvæmt upplýsingum frá Ráðgjafarstofunni og frá Kaupþingi munu þjónustufulltrúar Ráðgjafarstofunnar á næstunni fá nákvæma fræðslu frá Kaupþingsmönnum um skuldaaðlögunarúrræðið, og er það vel.
- Kostirnir við erlent eignarhald - 9. júní 2020
- Ertu til í að gera mér greiða? - 13. febrúar 2020
- Bambustannburstar til bjargar? - 20. janúar 2020