Er bókin dauðadæmd?

Í gegnum miklar tæknibreytingar undanfarinna ára hefur bókin haldið velli. Það gæti nú hillt undir byltingu í þeim efnum. Frá tímum Gutenbergs þá hafa bækur haldið sama ákveðna forminu, prentaður texti á pappírsörk.

Í gegnum miklar tæknibreytingar undanfarinna ára hefur bókin haldið velli. Það gæti nú hillt undir byltingu í þeim efnum. Frá tímum Gutenbergs þá hafa bækur haldið sama ákveðna forminu, prentaður texti á pappírsörk. Þetta form, sem var stórkostlegt framfaraskref frá kálfaskinninu og steintöflunum sem áður voru notaðar, jók nýja aðferðin skrásetningu og varðveislu auk þess að veita almenningi aðgengi að þekkingu sem fram að því hafði aðeins verið verið opin efri stéttum þjóðfélagsins.

Þrátt fyrir kosti bókarinnar þá hefur hún einnig ákveðna veikleika. Þrátt fyrir að hver blaðsíða vegi ekki mikið, þá gerir margt smátt eitt stórt og fólk sem hefur flutt milli landa hefur fljótt gert sér grein fyrir því hversu mikið farg gott bókasafn getur verið. Annar ókostur, sérstaklega varðandi bækur sem geyma upplýsingar, er hversu fast form bókin er fyrir þekkingu sem breytist hratt. Ágætis dæmi um það gæti verið símaskráin sem úreltist fljótt.

Nýjustu lestölvurnar (E-reader) á markaðnum sýna sífellt betri frammistöðu og gæti brátt farið svo að þær verði í auknum mæli taldar sem raunverulegur valkostur við bókina. Til viðbótar við lestölvur þá er til hugbúnaður fyrir fjölda tegunda farsíma sem gerir fólki kleift að lesa sköl og bækur í þeim.

Vinsælustu lestölvurnar eru í dag Kindle frá Amazon og E-reader frá Sony. Kindle hefur selst í rúmlega 500.000 eintökum og er hann því mest selda lestölvan um þessar mundir. Í farsímum er mest notað Mobipocket hugbúnaðurinn frá Amazon og E-reader sem er tengdur Barnes and Noble.

Vonandi mun sem fyrst nást samkomulag á milli framleiðenda hugbúnaðar um sameiginlega staðla svo að notendur geti nýtt sér þessa nýju tæki á sem bestan hátt en að hún verði ekki þeim til helsis.

Fjöldi áhugaverðra spurninga vakna þegar stafrænar bækur nálgast að verða hluti af lífi fólks.

Verndun hugverkaréttinda verður stórt atriði. Hversu vel höfundar ná að verja bækur sínar og þannig tryggja það að einungis þeir lesa verk þeirra sem borga fyrir þau mun hafa mikið að segja með framtíðarþróunina.

Það verður margfalt ódýrara en áður að gefa út bækur þar sem mögulegt verður að stökkva framhjá uppsetning og prentun sem jafnframt er stærsti hluti kostnaðarins við að gefa út bók. Afleiðingin verður væntanlega sú að útgáfa bóka mun aukast og þar með framboð af bókum, góðum og slæmum. Þarna mun opnast tækifæri fyrir milliliði sem geta boðið höfundum uppá að selja bækur sínar á opnum markaði þar sem þeir fá sem mest að hverri seldri bók sjálfir. Kannski að Gogoyoko ætti að horfa í fleiri áttir en bara tónlist?

Tengt þessum punkti þá verður einfaldara en áður að þýða bækur. Nú þarf einungis áhugasaman aðila og tíma og þá er hægt að þýða bækur sem áður þótti ekki svara kostnaði að þýða. Frumkvöðlar gætu þannig tekið upp á því að þýða bækur í eigin tíma í von um að ná inn einhverjum tekjum.

Annað atriði sem er að breytast með stafrænni væðingu bókarinnar er aðgengi fólks að bókum. Vandamálið við að ná í fleiri bækur en þú hefur efni á hefur verið leyst með bókasöfnum. Hvert verður hlutverk bókasafna ef fólk getur sótt sér allar bækur sem hafa verið gefnar út beint á netinu?

Að lokum ein lítil hugleiðing. Ef ekki tekst að vernda bækur fyrir ólöglegri dreifingu gæti það gerst að hlutverk rithöfunda breytist á sama hátt og tónlistamanna. að þeir verði von bráðar farnir að hafa meiri tekjur af upplestri og að koma fram heldur en því að selja bækur?

Umfjöllun Wired um helstu tegundir af lestölvum: http://www.wired.com/gadgetlab/2009/03/samsungs-new-e/

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.