Sú hugmynd að taka upp sumartíma hefur af og til skotið upp kollinum hér á landi. Fyrir mönnum hefur þá vakað að samræma vinnudag hér við vinnudag nágrannaþjóða okkar í Evrópu. Eðlilegra væri þó að taka upp öðruvísi sumartíma sem væri sniðinn að séríslenskum aðstæðum.
Fáir vita það eflaust, en á Íslandi er lögfestur sumartími sem er á skjön við rauntíma miðað við sólargang. Með lögum nr. 6/1968 ákvað Alþingi að „hvarvetna á Íslandi [skyldi] telja stundir árið um kring eftir miðtíma Greenwich,“ sbr. 1. og einu grein þessara ágætu laga sem tóku gildi klukkan 1 eftir miðnætti þann 7. apríl 1968.
Fyrir nokkrum árum komu fram frumvörp á Alþingi þess efnis að taka upp nýjan sumartíma að evrópskum sið. Rökin fyrir því voru þau að samskiptatími íslenskra fyrirtækja við evrópsk fyrirtæki styttist verulega á sumrin, auk þess sem dagurinn yrði tekinn fyrr og vinnutíma lyki því fyrr á daginn. Þar af leiðandi hefði almenningur meiri möguleika á því að njóta sólar og góðviðrisdaga á sumrin.
Þessu andmælti Einar Oddur Kristjánsson, einn skeleggasti þingmaður sem setið hefur á Alþingi. Einar heitinn lét eftirfarandi orð falla í umræðum um málið á sínum tíma:
„Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hef í gegnum tíðina verið með efasemdir um að alvara væri á bak við þennan málflutning en nú kemur hv. þm. og fullyrðir að hann segi þetta allt í alvöru og ég hlýt að taka því þannig. En ég vildi spyrja hann hvort það séu einhverjar efasemdir í heiminum um það að klukkan fari eftir lengdarbaugum. Jörðin er örugglega hnöttótt og hún snýst. Eru nokkrar deilur um þetta svona almennt í heiminum? Er ekki nokkurn veginn um þetta sátt? Menn hafa gengið út frá þessari sólarklukku svo lengi sem við vitum … Við getum að vísu hagað okkur eins og við viljum. Hver og einn má vakna klukkan fimm eða sex og það er eflaust mjög hollt og gott að gera það en verðum við ekki að haga okkur þannig að við séum að fara eftir sólarklukkunni eins og aðrar þjóðir?“
Sólargangurinn hefur mikil áhrif á allt daglegt líf Íslendinga. Víða á landsbyggðinni er landslag með þeim hætti að sólin er alls ekki sýnileg svo mánuðum skiptir yfir vetrartímann. Dagarnir eru langir á sumrin en sumarið líður alltof fljótt, eins og segir í laginu.
En af hverju högum við Íslendingar ekki vinnu okkar í ríkari mæli eftir sólarganginum, sem er svo afgerandi þáttur í tilverunni hér á 64.-66. breiddargráðu? Af hverju vinnum við ekki lengri vinnudag á veturna og styttri á sumrin? Væri ekki betra, bæði fyrir launþega og atvinnurekendur, að semja um það sín á milli að þrjá dimmustu mánuði ársins væri vinnudagurinn 10 stundir en sex stundir þrjá björtustu mánuðina, og orlofsrétturinn áynnnist í samræmi við það?
Það er nefnilega svo margt sem sjálfstæð þjóð í eigin landi getur ákveðið sjálfri sér til hagsbóta.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021